Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Vigfús Bjarni Albertsson

Tungumálið

Í Vesalingunum eftir Viktor Hugo er fögur lýsing á kennimanni sem þjónar fólkinu sínu vel. Hann er prestur sem boðar með breytni. Hans bestu predikanir eru ekki endilega alltaf talaðar heldur stundum athafnir í hljóði. það fylgdi honum einfaldleiki. Öllum manneskjum sem hann þjónaði fylgdi þessi mannvirðing, að sjá vonina um það sem gæti orðið í lífi viðkomandi. Viktor Hugo lætur okkur takast á við grundvallarspurningar eins og hvenær verður betrun í lífi fólks? Þessi kennimaður í Vesalingunum var ekki stjórnsamur, heldur fylgdi fólki eftir. Hann kunni hina mikilvægu list sálgæslunnar að virða sjálfræði fólks. Hann vissi að lífið og áföll þess svipta okkur oft sjálfræði. Hann tók líka heilmikla áhættu í sálgæslu sinni því hann vildi kynnast fólk nánar með þá von í brjósti að sjá það sem aðrir sjá ekki.

Lítil mannvera lá í rúminu, hún hafði oft þurft að vera oft í öndunarvél og glíma við erfiðleika mikilla veikinda sem ógnuðu heilsu hennar . Hún sagði nei og aftur nei, það var orðið sem hún notaði. Það var það eina sem hún gat sagt í aðstæðum þar sem hún hafði enga stjórn. Hún hafnaði öllum tilboðum, hún vildi bara geta sagt NEI. Það voru allir áhyggjufullir af því að neiið fékk svo mikla athygli. Neiið var yfirlýsing um að langa til að stjórna, ráða einhverju. Neiið þýddi að ég er orðin svo þreytt. Sama hvað þið viljið mér gott ég ætla samt að segja nei.

Hvað segja okkur orðin sem eru notuð? Hvert orð, hver setning geymir svo oft veruleika sem nær langt út fyrir merkingu orðanna. Sálgæsla þarf að búa yfir getu til að leggja upp í ferðalag með fólki með því að spyrja út í merkingu orðanna. Hvað þýðir nei? Sálgæsla sem spyr og dýpkar skilning sinn á orðunum er líklegri til að nálgast kjarnann. Sálgæslan er svo oft útskýrð sem hlustun en ef hún heyrir bara orðin skynjar hún ekki neitt. Þá hefur hún glatað getu sinni til að skynja líðan og skilja.

Þegar við spyrjum um merkingu orðanna erum við farin að nálgast sögu einstaklingsins því hvernig við notum orðin er oft lærð hegðun, stundum afleiðing atburða. Okkur hefur verið kennt að nota orðin í ákveðnum aðstæðum, við ákveðin tilefni. Hjá sumum er notaður orðaforði yfir mótlæti sem teldist meðbyr í lífi annarra. Setningin að gefast upp þýðir ekki endilega það sama hjá þjáningarsystkinum. Stundum þýðir setningin þreytu en hjá öðrum gæti hún þýtt lífsháska. Það er eins gott að kynnast fólki vel áður en stórir dómar eru kveðnir upp.

Fólk sem á mikla áfallasögu og hefur ekki fengið tækifæri til hlustunar og úrvinnslu hefur oft líst líðan sinni þannig: Mér líður eins og grjótmulningsvél. Það þýðir að það er ekki kvartað yfir neinu. Jaxlarnir eru samanbitnir, setningar eins og hvað með það heyrast þegar fólk reynir að nálgast líðan með viðkomandi. Setningin að ég gefst ekki upp getur þýtt, að ég hef alltaf barist og ég mun alltaf berjast og það er ekkert annað í boði. Það hugsar enginn um mig hvort sem er.

Það er mikilvægt að vera eins og kennimaður Viktors Hugo. Gera tilraun til að skynja og dýpka stöðugt þekkingu okkar á fólki. Það er mikil vinna að kynnast fólki út frá þeirra eigin líðan. Það er því margt sem þarf að ritskýra, orð á helgum blöðum, orð frá venjulegu fólki.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Tungumálið”

  1. Elínborg Gísladóttir skrifar:

    Takk fyrir þetta innlegg þitt og þessa góðu og gagnlegu áminningu um það að reyna að dýpka stöðugt þekkingu okkar á fólk með því að hlusta eftir því hvað býr baki orðanna.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2552.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar