Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Já já, ég var einu sinni ung

Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar 2010

Í gamla daga (upp úr 1980) var það afskaplega merkilegt að koma í útvarpið. Þá var nota bene bara ein útvarpsrás á landinu og sjónvarpið tók sér ennþá sumarfrí í júlí og hafði lokað á fimmtudögum. Þess vegna var það svolítið þannig að fólkið í landinu hlustaði mikið til á sömu hlutina. Það sem var í útvarpinu eða sjónvarpinu náði inn á öll heimili.

Samt var þetta ekki efst í huga mér þegar ég var 12 ára og hlustaði hugfangin á upptöku af guðsþjónustu frá æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar í stofunni heima. Ég var bara svo glöð að fá að njóta þess sem þessi æskulýðsguðsþjónusta miðlaði til mín í tali og tónum. Stemningin var slík að ég kom mér fyrir í sófanum, með gítarinn í fanginu og spilaði og söng með skemmtilegu æskulýðssöngvunum sem leiknir voru í messunni. Það var gott að þetta undirspil fór fram í skjóli stofunnar heima, því ég var bara nýbúin að eignast gítarinn minn og var ekkert sérlega klár á hann.

Síðan þá hef ég sungið, spilað og verið með í mörgum guðsþjónustum. Það er ekkert skrítið af því að ég hef verið prestur í mörg ár. En æskulýðsstarfið og helgihaldið í kringum það, var það umhverfi sem mótaði mig hvað sterkast í þeim efnum. Það er gríðarlega mikilvægt að fá að vera með í að undirbúa og annast helgihald í kirkjunni sinni þegar maður er ungur. Það eykur traust, gleði og virkni hjá unglingnum og miðlar von og hreinleika æskunnar inn í samfélagið um Guðs orð og borð.

Æskulýðsdagurinn er á sunnudaginn. Þá fer fram ótrúlega mikilvægt starf um allt land, þar sem unglingar leggja hönd á plóg í helgihaldi safnaðarins. Megi kirkjan fá að njóta gjafa unga fólksins þenna dag sem alla daga.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Já já, ég var einu sinni ung”

  1. Toshiki Toma skrifar:

    Já já, ég var einu sinni ung líka !
    Takk fyrir jákvæða pistilinn :-)

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2669.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar