Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Lena Rós Matthíasdóttir

Undir hörundinu

Maðurinn hvílir á laufblaði sínu og kallar það veröldina sína og á nakta hlið laufblaðsins falla skuggar mannsins.  Hann syngur líðandi stundu lof, með mjúkum vörum lofsyngur hann þá tryggð sem heldur veröldinni saman og einmitt þar hvílir hjartað og horfir hlæjandi framan í lífið.  En í þeirri sömu andrá, losnar blaðið frá grein sinni og skuggar hans missa jafnvægið – falla.
 

En vonin á sér fingur sem bíða, tilbúnar að grípa. 
 

Þannig á hver maður sinn útmælda tíma hér í þessu lífi, líkt og laufblað sem á sér einskis von aðra en að fá að eiga sitt rými á lífstrénu, skila sínu í samvinnu við sólarljósið til þess eins að við hin mættum lifa.  Þannig var það líka með litla barnið, sem fæddist við nöturleg skilyrði í hellisskúta, nóttina forðum í Betlehem.  Það fékk sinn tíma, sitt rými í veröldinni og sitt líf hér á meðal manna.  En munurinn á því litla barni og öðrum börnum er krafturinn sem því fylgir og kærleikurinn sem það auðsýndi öllum þeim sem það mætti og mætir enn þann dag í dag.  
 

Jesús er núna, kraftar hans og kærleikur eru núna, ekki aðeins í jólamánuðinum, heldur alla daga ársins, frá einum tíma til annars.  Í sérhverju andartaki, þú þarft aðeins að gefa því gaum.  Og jafnvel þótt ástandið sé nöturlegt í samfélaginu, jafnvel þótt kirkja og kristni hafi mátt þola aðkast og allt að því skipulagðar árásir frá ákveðnum öflum.  Já, jafnvel þótt við gerum okkur svo upptekin við amstur daganna að við gleymum Jesúbarninu blíða, þá heldur sagan áfram að endurnýja sig.  Kraftar Jesú og kærleikur hafa lifað söguna, lifað vonsku mannanna, afskiptaleysi og eigingirni, valdagræðgi og veruleikafyrringu.  Því Jesús var, er og verður.  Hann er stofninn á lífstrénu, hann flytur næringuna úr jarðveginum, gegnum ræturnar og út í greinarnar.  Þaðan fá blöðin næringuna og blöðin eru ég og þú.  Næringin er Heilagur Andi og jarðvegurinn er Guð.   
 

Við erum ekki að tala um skammtíma næringu, heldur næringu sem endurnýjar sig mann fram af manni, kynslóð fram af kynslóð, lífssafinn í hverju laufblaði.  Með hjartslættinum, í andardrættinum, með lífsorkunni eru kraftar Jesúbarnsins lifandi og sístæðir.  Gjöf Guðs til mannkyns, gjöf sem gefur líf, gjöf sem nær út yfir öll mörk.  Mörk skynjunar, sjálfsvitundar og lífs.  Hvort heldur sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki, þá er Jesús hér og nú og það sem hann færði heiminum er án upphafs og án endimarka.  Við köllum það fagnaðarboðskap, nefnilega það að Guð gerðist maður í litlu barni.  Fyrir þessu litla barni lá, að verða vonarstjarna mannkyns, vonarstjarnan mín og þín.  Ó, hversu mjög þörfnumst við hennar ekki nú í dag á annarlegum tíma, krepputíma.  Einmitt þá, meira en oft áður, þörfnumst við þess að finna vonarstjörnu í hversdeginum, einhvern sem gefur hugrekki, sálarþrek og líf. 
 

Eða er það ekki einmitt þess vegna sem við finnum okkur saman komin í helgidóminum á þessari stundu, til að minna okkur á að þrátt fyrir erfið kjör, hallæri í hagkerfinu, sjúkdóma, einsemd, grimmd og fyrringu manna, þá man Guð þig.  Skapari þinn ritaði nafnið þitt í lífsins bók og gleymir þér aldrei.  Nei, jafnvel ekki þótt þú gleymir Guði um stund. 
 

Svo finnum við okkur hér í kvöld á mærum hækkandi sólar og jafnvel þótt dagarnir séu dimmir og stuttir, er þess svo ótrúlega skammt að bíða að hin ljúfa vorsól baði okkur geislum sínum.  Á meðan leggjumst við í mjúka beði okkur og vitum norðurljósin dansa mjúklega  yfir höfðum okkar.  Þannig sendir sólin, hin dásamlega Guðs gjöf, bylgjur sínar í regnbogans litum um myrkvuð himinhvolfin og minnir okkur á hið fegursta allra ljósa, Jesúbarnið, sem skín í huga og hjarta heimsins, jafnt á nóttu sem degi, í hrynjanda lífsins, hvort sem við sjáum það eða ekki.  
 

Einmitt þar, í þessum sama hrynjanda, sjáum við laufblað sem losnar af grein sinni og fellur til jarðar.  Með tilveru sinni einni saman, hefur það skilað hlutverki sínu í samhengi sköpunarinnar.  Það fellur til jarðar og sameinast uppruna sínum á ný.  Úr moldu kom það, í moldu fellur það aftur og úr moldu reisir guð það á ný.  Þannig rennur straumfljót lífsins aftur til sjávar enn einn hringinn og allt er eins og það á að vera.  Í höndum skaparans hrærist lífið, Guð er straumurinn í fljótinu, andblærinn á vanga þínum og ástúðin í augum þínum.  Guð er andardráttur alls sem lifir og hrærist. 
 

Opnum augu okkar fyrir ljósinu í lífi okkar, ekki aðeins á stórhátíðum, heldur alla daga ársins.  Munum eftir því að færa Guði þakkir, fyrir þær mörgu gjafir Skaparans er mæta okkur á lífsgöngunni og sleppum aldrei frá okkur gjöfinni stærstu, kærleiksanda Jesúbarnsins.  Það hvílir þarna inni undir hörundinu.  Líttu þér nær, þá finnurðu það, hlustaðu, skynjaðu, vertu…

… barn Guðs!
 

Megi leiðin ávallt vera ykkur fær
megið þið alltaf hafa meðbyr
megi sólin skína á andlit ykkar og
regnið falla milt á akra ykkar og

uns við hittumst á ný,

megi Guð halda ykkur varlega í hendi sinni.

Amen.
 

 

 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3108.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar