Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bjarni Karlsson

Skólinn kennir á lífið

Nú heldur áfram umræðan um tillögugerð mannréttindaráðs borgarinnar varðandi samstarf kirkju og skóla og það hefur mikið að segja að jákvæður farvegur finnist í þessu máli.

Við viljum öll að leik- og grunnskóli sé öruggur og uppbyggilegur vettvangur sem miðli því helsta og besta sem samfélagið hefur að færa börnum á hverjum tíma. Þar viljum við að góðum siðgildum sé haldið á lofti og að börnin þjálfist í almennri lífsleikni um leið og vitsmunaleg og tæknileg færni þeirra fær ákjósanleg vaxtarskilyrði.

Þá er mikilvægt fyrir hvern skóla og foreldrasamfélag að eiga trausta bandamenn í nærumhverfi sínu, því hér gildir hið fornkveðna að það þarf þorp til þess að ala upp barn. Fjölbreytt þekking og félagsleg kunnátta vex af kynnum við margt fólk og okkur ber að tryggja að skólinn sé slíkt mannlífstorg sem miðli breiðri þekkingu. Við viljum glæða forvitni hinna ungu en kenna þeim varkárni. Við viljum að þau séu markviss í eigin lífi en taki jafnframt tilliti til annarra. Og við viljum að þau verði sjálfstæðar siðverur og kunni fótum sínum forráð í fjölbreyttum heimi þar sem allt virðist falt og flest hægt.

Af þessum ástæðum þykir foreldrum og kennurum almennt mikilvægt að börn njóti þjónustu stofnana og félagasamtaka sem bjóða upp á fjölbreytta þroskamöguleika í tómstundum. Listnám, íþróttir, útivist, kirkjustarf, skátar o.m.fl. kemur þar við sögu en forsenda samstarfsins er þó ætíð ein; trúnaður. Foreldra- og skólasamfélagið verður að sjá verðugan bandamann í félagi sem býður barni upp á tómstundaiðkun og það verður að mega treysta því að þar fari ekkert fram sem ögri heill barnsins. Því er jákvætt að mannréttindaráð borgarinnar setji rammaviðmið um samskipti félaga og stofnana við skólasamfélagið, en það þarf að gæta þess að þeir rammar séu raunhæfir og beri ekki með sér neitt annað en umhyggju fyrir uppeldisaðstæðum barna. Ósættið sem nú ríkir um tillögur mannréttindaráðs er til komið vegna þess að margir þykjast greina þar andúð á milli lína. Mörgum finnst stafa þótti gagnvart kirkju og trú af tillögunum. Ég tek undir þá skoðun og álít ekki gott að yfirvöld noti andúð eða beiti þótta.

Nú ríður á að við byggjum upp gagnsætt og merkingarbært samfélag þar sem eining ríkir í fjölbreytileikanum. Við þurfum að þróa með okkur þjóðfélag sem er siðferðislega vakandi, sveigjanlegt og stefnufast í senn. Við þurfum að rifja upp og rækta þau siðgildi sem við viljum hafa í heiðri og til þess notum við almannarýmið. Siður samfélagsins er ekki einkamál heimilisins heldur vex hann fram í gagnvirkum tengslum heimilis, skóla og allra annarra stofnana.

Sjálfur er ég sóknarprestur og sit jafnframt í velferðarráði Reykjavíkur fyrir hönd Samfylkingarinnar, svo að málið er mér skyldara en ella. Og þar sem ég hef lýst mig vanhæfan til að fjalla um þetta mál í velferðarráði, því ég vil ekki að umsögn þess verði skýrð með veru minni, þá ætla ég hér að hvetja samherja mína í mannréttindaráði til að endurskoða tillögur sínar í anda jafnræðis og snúa þeim jafnt að öllum félögum og stofnunum sem víkja vilja góðu að börnum og unglingum.

Um höfundinn10 viðbrögð við “Skólinn kennir á lífið”

 1. Matti skrifar:

  Af þessum ástæðum þykir foreldrum og kennurum almennt mikilvægt að börn njóti þjónustu stofnana og félagasamtaka sem bjóða upp á fjölbreytta þroskamöguleika í tómstundum. Listnám, íþróttir, útivist, kirkjustarf, skátar o.m.fl. kemur þar við sögu

  Þarna ertu greinilega að vísa í frístundastarf ÍTR enda hafa börn í frístundastarfi í þínu hverfi verið dregin í kirkjuna - jafnvel börn foreldra sem báðu um að börn sín yrðu ekki send í slíkt starf.

  Fyrst þú talar um “almenna” skoðun er við hæfi að benda á að “almennt” eru foreldrar á því að trúboð sé ekki viðeigandi í skólastarfi.

  Ósættið sem nú ríkir um tillögur mannréttindaráðs er til komið vegna þess að margir þykjast greina þar andúð á milli lína. Mörgum finnst stafa þótti gagnvart kirkju og trú af tillögunum. Ég tek undir þá skoðun og álít ekki gott að yfirvöld noti andúð eða beiti þótta.

  Ósættið kemur til af því að kirkjunni þykir gengið á rétt sinn (það er vissulega verið að takmarka rétt kirkjunnar til að stunda trúboð í skólastarfi) og vegna þess að fulltrúar kirkjunnar hafa ítrekað logið um málið á opinberum vettvangi, t.d. ítrekað haldið því fram að tillögur mannréttindaráðs snúist um að banna kennslu um trúarbrögð.

  Við þurfum að rifja upp og rækta þau siðgildi sem við viljum hafa í heiðri og til þess notum við almannarýmið.

  Hvað ertu að segja Bjarni? Að boða eigi kristni í leik- og grunnskólum (almannarými)?

  Hafðu kjark, talaðu skýrt.

 2. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir góða grein Bjarni Karlsson.

  Mér finnst þú tala skýrt og skynsamlega. Málið snýst ekki um að boða kristna trú í leik- og grunnskólum heldur traust og sátt í samfélaginu.

  Það er límið sem heldur samfélaginu saman.

  Gangi þér vel í söfnuðinum þínum og í starfinu fyrir borgina okkar.

 3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Matti, þú veist jafn vel og ég og Bjarni að kirkjan hefur skýra stefnu þegar kemur að þessum málum: Skólinn er vettvangur fræðslu, kirkjan er vettvangur trúboðs, sbr. Viðmiðun um samstarf kirkju og skóla frá 2008 og fræðslustefnu kirkjunnar frá 2005:

  „Samstarf kirkju og skóla er fjölbreytilegt. Gæta þarf að ólíkum hlutverkum þessara tveggja stofnana. Skólanum er ætlað að fræða um trú og lífsgildi. Hlutverk kirkjunnar er að boða kristna trú og lífsgildi …. Kirkjan getur vissulega stutt skólasamfélagið með fræðslu um trú og lífsviðhorf en þá á áðurnefndum forsendum skólans. Samstarf kirkju og skóla er mikilvægt í grenndarsamfélaginu því báðar þessar stofnanir vilja hag barna og unglinga sem bestan.“

  Hafðu kjark og talaðu um málefnið eins og það er, ekki hnika í áróðustilgangi með því að setja trúboðsstimpil á þetta.

 4. Matti skrifar:

  Hafðu kjark og talaðu um málefnið eins og það er, ekki hnika í áróðustilgangi með því að setja trúboðsstimpil á þetta.

  Afskakið, hér þarf ég bæði að feitletra og nota hástafi: TILLÖGUR MANNRÉTTINDARÁÐS REYKJAVÍKURBORGAR FJALLA UM TRÚBOÐ. Þær fjalla ekki um kennslu í kristinfræði, þær fjalla ekki um heimsóknir í kirkjur í öðrum tilgangi en trúarlegum, þær fjalla um boðun trúar.

  Af hverju er þessi læti kirkjufólks útaf tillögum Mannréttindaráðs? Af hverju sjá svo margir þörf á að segja ósatt? (þarf ég að telja dæmin upp?)

  Þú og Bjarni vitið báðir fullvel að trúboð hefur verið stundað í leik- og grunnskólum borgarinnar á vegum ríkiskirkjunnar síðustu ár.

  Eins og maki Bjarna Karlssonar sagði einu sinni, þá fylgir “trúboð” öllu starfi prests, “embætti hans og því sem hann stendur fyrir og persónu, það fylgja því bara ákveðin skilaboð”. #

  Ef það er eitthvað sem mig skortir ekki, þá er það kjarkur til að hafa skoðanir og standa við þær Árni Svanur. Ólíkt sumum.

 5. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Ágætu Bjarni og Árni – og Matti raunar líka - það er kannski ágætt að árétta það sem hefur svolítið gleymst í allri þessari umræðu, að þótt það sé vissulega verið að setja kirkjunni ramma er ekki hvað síst, og kannski fyrst og fremst, verið af marka skólastjórnendunum og þeirra starfsfólki starfsreglur, sem það fólk hefur reyndar ítrekað kallað eftir. Enda eru prestar ekki starfsmenn borgarinnar og starfa ekki undir hennar formerkjum (Raunar er út af fyrir sig merkilegt hvað stjórnendur skóla og leikskóla hafa lítið tjáð sig um þetta mál, a.m.k. á opinberum vettvangi, sérstaklega þegar litið er til þess að það er til þeirra sem foreldrar hafa alla jafna fyrst leitað þegar þeir hafa séð ástæðu til að gera athugasemdir við aðkomu kirkju að skólum, frístundaheimilum og leikskólum. En það er önnur umræða).

  Þannig getur kirkjan í raun haft hverja þá fræðslustefnu eða námskrá sem henni hentar fyrir sitt starf og fyrir hugsanlega nálgun á skólana og leikskólana - alveg burtséð frá því hvort fólki þykir það eðlilegt eða jafnvel smekklegt að kirkjan skuli telja sig eiga eitthvert erindi inn á þær stofnanir – en það segir okkur hinum, sem utan hennar standa, óskaplega lítið, því auðvitað hefur það fram til þessa það fyrst og fremst verið geðþóttaákvörðun stjórnenda skólanna hversu mikil aðkoma kirkjunnar hefur verið að þeirra starfi.

  Staðreyndin er sú, og um það hafa fjölmargir foreldrar tjáð sig, að sumir stjórnendur skólastofnana hafa séð ástæðu til að bjóða embættismönnum kirkjunnar að hafa mun meiri áhrif og aðkomu í skólastarfi en eðlilegt getur talist og að í þeim tilvikum hefur kirkjan oftar en ekki gripið gæsina, enda má svo sem segja að þá sé hún að starfa “á forsendum skólans”.

  Þannig að ég leyfi mér að segja, í von um að móðga engan, sem er alls ekki tilgangurinn: Ég er ekki í þjóðkirkjunni og mér er, svona þegar upp er staðið, nokkuð sama um það hvaða fræðslustefnu kirkjan setur sér og hvaða skoðanir hún hefur á hlutverki sínu og erindi við börn á leikskóla- og skólaaldri - skírð eða óskírð. Það sem mér er ekki sama um er sá rammi sem stjórnendum skólastofnana er gert að starfa eftir. Ég nenni eiginlega ekki að þrátta við kirkjunnar þjóna um það hvað þeir telja rétt að fá að koma mikið inn í skólana, það má kannski bara gefa sér fyrir fram að þeir vilji helst vera þar mikið og oft. Kannski er það meira að segja eðlilegt, ég skal ekki segja. En það sem skiptir máli er að skólar og leikskólar setji sér starfsreglur sem hæfa samfélagi dagsins í dag, samfélagi þar sem það eru ekki lengur sjálfgefin sannindi að sérhver prestur sé óbrigðull boðberi einhvers sannleika og eigi sjálfkrafa erindi við öll börn, alls staðar.

  Að hafna þeirri sýn á presta og á kirkjuna felur að mínu viti ekki í sér neina gjaldfellingu á þeirra störfum eða lífsskoðunum, aðeins tilfærslu á staðsetningu þeirra í opinbera rýminu. Ályktun Mannréttindaráðs felur í sér slíka tilfærslu og í þeim gjörningi felst hvorki andúð á kirkju og hennar starfsfólki, né þótti í garð trúarbragða eða kirkju. Ályktunin er praktískt viðbragð við praktískum aðstæðum, ekki hugmyndafræðileg árás á lífsskoðanir eða trú.

  með kveðju, Halla

 6. Torfi Stefánsson skrifar:

  Sem kirkjunnar maður vil ég mótmæla þessari grein Bjarna, og fyrri grein hans um sama efni, sem og athugasemd Árna Svans hér að ofan.

  Það er alveg ljóst að mínu mati að það sem Bjarni er að fara fram á er áfamhaldandi möguleiki kirkjunnar til trúboðs í tengslum við samstarf kirkju og skóla.
  Hér, sem og í fyrri grein, skrifar hann um rétt barnanna (og rétt foreldra þeirra fyrir hönd barnanna) til að alast upp við “siðgildi” samfélagsins og á þar greinilega við “kristin” siðgildi.
  Um það er í raun enginn ágreiningur. Flestir vilja að fjölbreytileg skilyrði ríki í uppvexti ungu kynslóðarinnar og að þau hafi “rétt” til að kynnast sem flestu sem að gagni getur komið í þroska þeirra.
  Málið er hins vegar einfaldlega það, að andmælendur trúboðsstarfs kirkjunnar, í tengslum við skólastarfið, vilja ekki að börnin sé þvinguð til að “kynnast” þessu starfi (eða þá þeir sem ekki vilja það, þurfi að sitja heima og verði þannig aðgreind frá fjöldanum). Að þessi “réttur” verði áfam “skylda” eins og verið hefur að mestu.

  Eins og allt annað (tómstunda)starf á hið kirkjulega starf auðvitað að fara fram utan skólatíma.
  Því fyrr sem kirkjulegir leiðtogar uppgötva þetta, og sætta sig við það, því betra verður samstarf kirkjunnar og annarra lífskoðunarhópa. Og kirkjan á að stuðla að sáttargerð í samfélaginu en ekki efna til ófriðar, eða hvað?

  Ég vil minna á að á um 20 árum hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað úr um 98% þjóðarinnar í 78% eða um 20%. Þau rök sem nú eru viðhöfð af kirkjunnar mönnum um “rétt” barnanna til að kynnast hinum kristnum “gildum”, þ.e. taka þátt í helgihaldi kirkjunnar, bænum og fl. á skólatíma, áttu kannski við þá en alls ekki nú.

  Þessi þróun mun halda áfram - og mun verða æ hraðari því meir sem kirkjan berst gegn henni.
  Því er ráð fyrir kirkjuna að hætta andófinu og hleypa undan í var, amk um tíma, annars er hætt við að skútunni verði siglt á bólakaf!

 7. Guðný skrifar:

  Vinnudagur barna í skólum og leikskólum er orðinn mjög langur, svo langur að jaðrar við barnaþrælkun. Þess vegna ætti að vera sjálfsagt að tómstundastarf barnsins s.s. íþróttir, kirkjustarf, tónlistarnám, skátastarf o.fl. fari fram í skólatíma. Það mætti gefa foreldrum og börnum kost á að velja það tómstundastarf sem hentar barninu best. Stirðbusi með slakt tóneyra finnur sig mögulega betur í kirkjustarfi heldur en keppnisíþróttum eða tónlistarnámi. Aðalmálið hlýtur að vera að hvert einasta barn geti fundið eitthvað fyrir sig, en heilbrigð tómstunda og æskulýðsstörf hafa líka mikið forvarnargildi. Þar á ekki að þvinga neinn, hvorki í íþróttir né kirkju en búa þannig að börnum að þau eigi kost á því sem þeim hentar. Ég þekki fullt af ungmennum (um tvítugt) sem sem hafa alist upp við og eru í kristilegu starfi. Þetta eru allt reglusamir krakkar. Við skulum því ekki vanmeta störf kirkjufélaganna.

 8. Guðný skrifar:

  Ýmsir andstæðingar kirkjunnar hafa borið fyrir sig tillitssemi við erlenda innflytjendur. Mér er spurn hvort þeir hafa einhvern tímann prófað að spyrja þjóninn á kaffihúsinu sínu hvað honum finndist. Ég fór í jarðarför um daginn hjá ungum litháa. Þau eru grísk-kaþólsk en útförin fór fram í hverfiskirkjunni þeirra sem tilheyrir þjóðkirkjunni. Í erfidrykkjunni hóf fjölskyldufaðirinn tölu sína á orðunum: “Ég vil byrja á að þakka Íslendingum fyrir kirkjuna.” Fór svo nokkrum orðum um hvað kirkjan hefði stutt vel við bakið á þeim í sorginni. Hann var greinilega mjög þakklátur fyrir íslensku þjóðkirkjuna. Mig grunar að tælenska konan og pólski verkamaðurinn sem þurftu að leita til hjálparstofnunar kirkjunnar fyrir síðustu jól séu líka þakklát fyrir kirkjuna.

 9. Matti skrifar:

  Ýmsir andstæðingar kirkjunnar hafa borið fyrir sig tillitssemi við erlenda innflytjendur

  Það má vera að ýmsir hafi gert það, en fjölmenning er ekki ástæðan fyrir trúfrelsi.

  Guðný gleymir t.d. alveg einu atriði sem fram kom á fundi hjá Samfylkingunni í Reykjavík í síðasta mánuði. Þar kom fram innflytjandi og benti á að innflytjendur eru mun ólíklegri til að kvarta - einmitt vegna þess að þeir standa fyrir utan.

  Hvaða máli skiptir þó einhver þekki ungt fólk sem hefur verið í kristnu starfi og eru reglusamir? Ertu að halda því fram að þetta gildi ekki um aðra krakka? Nei, að sjálfsögðu ekki og það er enginn að halda því fram að börn sem taka þátt í kristnu starfi geti ekki braggast ágætlega.

 10. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Sæl Guðný,

  ég efast ekki um að til eru þeir sem myndu telja sig “andstæðinga kirkjunnar”, en ég vona að þú lítir ekki svo á að allir þeir sem hafa lagt orð í belg í þessari umræðu og lýst sig hlynnta ályktun Mannréttindaráðs séu andstæðingar kirkjunnar sem slíkrar. Það er vel hægt að vera á móti trúboði í skólum og heimsóknum presta eða heimsóknum í kirkju í trúarlegum tilgangi án þess að vera um leið “andstæðingur kirkjunnar”. Ég á bæði trúaða og trúlausa vini og sumir minna trúlausu vina eru hvað sem trú þeirra líður hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju og telja að opinbert skólarými sé ekki staður fyrir trúboð og kristilegt æskulýðsstarf. Þarna er ekkert samasemmerki. Með bestu kveðju, Halla

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3416.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar