Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Gunnar Eiríkur Hauksson

Jólagjöfin

Jólin 2009

Jólin eru hátíð barnanna og undirbúningur þeirra kallast á við eiginleika og tilfinningar sem börn eiga í ríkum mæli – eftirvæntingu, hrifnæmi, einlægni og gleði. Með aldrinum er eins og lífsreynslan kenni okkur að stilla þessum tilfinningum í hóf og jafnvel bæla þær. Jólin eru góður tími til að gefa þessum tilfinningum gaum, finna þær innra með okkur sjálfum og rækta þær með okkur vegna þess að lífið er svo miklu skemmtilegra ef við glötum þeim ekki alveg. Kjarni jólanna felst í frásögn af fæðingu lítils barns og boðskapurinn er sá að við megum ekki týna barninu í sjálfum okkur. Og það er svo ótrúlega margt sem við getum lært af börnunum.

Þegar ég var prestur vestur á fjörðum, á Þingeyri við Dýrafjörð, þurfti ég oft að fara í messuferðir um jól yfir háar heiðar og fjallvegi við erfið skilyrði og lenti stundum í nokkrum hrakningum. Eitt sinn fór ég að messa á öðrum degi jóla yfir á Ingjaldssand við Önundarfjörð. Heimsætan á bænum, sex ára gömul, fékk far með mér aftur til baka en hún ætlaði að heimsækja ömmu sína og afa á Þingeyri og var með jólagjöfina til þeirra. Veður var gott, stjörnubjartur himinn, en færðin þung.

Ferðin sóttist vel yfir heiðar og fjöll þrátt fyrir mikinn snjó á veginum og eftir að ég var kominn fyrir Dýrafjarðarbotninn, þar sem ávallt vofði yfir hætta á snjóflóðum, þóttist ég sloppinn yfir það versta. Ég fór þó enn mjög rólega enda buðu aðstæður ekki upp á annað. Þar sem ég mjakast áfram í einhverjum óreglulegum skorningum á veginum er eins og bíllinn skoppi út úr höndunum á mér og hann stefnir niður bratta hlíð í átt til sjávar. Bíllinn er stjórnlaus, þeysist fram hjá stórgrýti á báða vegu og eftir óralangan tíma, að því er mér fannst, nemur hann staðar í miðri hlíðinni og á öllum fjórum hjólunum.

Ég þurfti að jafna mig um stund en varð svo litið í aftursætið þar sem litla stúlkan sat. „Nú vorum við aldeilis heppin!“ – var það fyrsta sem mér tókst að stynja upp og röddin var titrandi. „Já,“ sagði sú stutta hin rólegasta úr afursætinu og hélt þéttingsfast um jólagjöfina í fanginu á sér, „þetta er nefnilega brothætt.“

Lífið er brothætt gjöf sem við fáum í hendur og það er líka ferðalag. Stundum gerast hlutir sem við höfum enga stjórn á og enginn veit hvernig enda. Þá er farsælast að gera, eins og litla stúlkan gerði, að hafa áhyggjur af því sem maður fær ráðið, og gæta þess vel sem manni hefur verið falið. Meira getur enginn gert, meira stendur ekki í mannlegu valdi. Megi Guð gefa ykkur gleðileg jól.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Jólagjöfin”

  1. Þór Hauksson skrifar:

    Þetta er fantagóð frásögn hjá þér bróðir sæll!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2599.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar