Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Sigrún Anna Jónsdóttir

Jól í skugga ástvinamissis

Jólin eru tími fjölskylduboða og endurfunda. Á þeim tíma upplifir sá sem syrgir sáran söknuð og erfiðar tilfinningar. Áætlanir og væntingar hafa að engu orðið og dýrmætar minningar það eina sem syrgjandinn á. Við aðstæður sem þessar er mikil þörf á stuðningi. Verkefni sorgarinnar eru krefjandi og syrgjandanum er ómetanlegur sá stuðningur sem fjölskylda og vinir veita.

Við það að gangast við erfiðum tilfinningum og líkamlegri vanlíðan en sporna ekki við þeim mun syrgjandinn öðlast aukinn styrk til að takast á við lífið. Úrvinnsla sorgarinnar tekur tíma og fyrir marga er hún lífstíðarverkefni. Það er undir syrgjandanum sjálfum komið hvernig nýjum aðstæðum og breyttri framtíð er mætt. Innan nokkurra eininga og deilda Landspítalans er veittur sérstakur stuðningur og sálgæsla fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvin.

Þetta köllum við að veita eftirfylgd. “Eftirfylgd er mikilvægur þáttur í að styðja fjölskylduna til sjálfsbjargar í sjúkdómsferlinu og í sorginni“ (skilgreining Alþjóðaheilbrigðimálastofnunar WHO). Í eftirfylgd er boðið upp á fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð út frá líkamlegum, andlegum, trúarlegum og félagslegum birtingarmyndum. Fræðslan er miðuð við eðlileg viðbrögð við missi. Ef vandamál eru til staðar er vísað á fagaðila eftir því sem við á. Misjafnt er eftir deildum í hvaða formi eftirfylgdin er veitt en eitt er víst að hún er vel þegin af þeim sem hana þiggja. Einnig veitir þjóðkirkjan sérhæfðan stuðning þeim sem til hennar leita í sorg og við erfið áföll.

Á aðventu standa Landspítalinn og þjóðkirkjan saman að stórri samveru fyrir syrgjendur, sem ávallt hefur verið vel sótt og verður að þessu sinni í Grafarvogskirkju 9.des kl. 20.00. Tilgangur slíkrar samveru er að undirbúa syrgjandann áður en helgasta hátíðin gengur í garð. Að fara í kirkju og hlusta á jólasálma getur verið erfitt fyrir þann sem syrgir.

Að njóta samveru með öðrum sem ganga í gegn um sambærilega reynslu gefur styrk á erfiðum tímamótum. Það er mikilvægt að við séum öll meðvituð um okkar samfélagslegu ábyrgð á tímum þar sem óvissa og erfiðleikar mæta fjölskyldum auk þeirrar byrði sem ástvinamissir er. Kærleikurinn getur gert kraftaverk. Verum til staðar fyrir ástvini okkar.

Frumkvæði er eiginleiki sem syrgjandinn tapar þegar vanlíðanin og sorgin er sem mest og því mikilvægt að ástvinir taki af skarið. Sýnum nærgætni og berum virðingu fyrir ólíkum þörfum. Það hefur hver og einn sitt göngulag í sorginni og engin ein leið er rétt eða röng. Orð móður Theresu um lífið og sorgina eru sterk og geri ég þau að lokaorðum mínum.

Lífið er tækifæri –gríptu það
Lífið er sorg—sigraðu hana
Lífið er kærleikur—gef þig honum á vald
Lífið er dýrmætt –gættu þess
(Móðir Theresa)

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2703.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar