Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnlaugur Stefánsson

Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð

Þessi trúarjátning er skráð í upphafsorðum þjóðsöngsins eftir sr. Matthías Jochumsson og tjáir einingu þjóðar á íslenskri jörð með kristnum sið. Sá tónn var fyrst gefinn á Þingvöllum fyrir rúmum 1000 árum. Þjóðsöngurinn stendur með stjórnarskránni eins og hornsteinn undir sið og menningu, stjórnmálum og félagslífi í landinu. Þannig hefur vonin sem felst í bæninni með lokaorðum þjóðsöngsins verið frumglæðir velferðar á Íslandi: “verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á Guðs ríkis braut”.

Er þörf á “þjóðlagaþingi” núna til að endurskoða þjóðsönginn, ekki vegna þess að sumum finnst erfitt að syngja lagið, heldur af því að einhverjir sætta sig ekki við hinn skíra og trúarlega boðskap sem í söngnum felst? Stendur vilji til þess að afhelga þjóðlífið og útrýma Guði úr allri vitund, og með valdi ef ekkert annað dugar? Hefur kristin trú reynst þjóðinni skaðleg og hættuleg?

Afhelgun í nánd?

Í athyglisverðri bók eftir sr. Sigurjón Árna Eyjólfsson, Ríki og kirkja, sem kom út hjá Íslenska Bómenntafélaginu árið 2006, er einmitt tekist á við slíkar kjarnaspurningar sem felast í sambúð trúar og þjóðar, Guðs og manns. Höfundur veltir m.a. fyrir sér hvort það sé í raun mögulegur valkostur að til verði fullkomlega afhelgað samfélag þar sem ekki verði hægt að tengja Guð við eitt né neitt. Sú umfjöllun vekur krefjandi spurningar: Hvar ætlar maðurinn þá að leita sér uppsprettu og viðmiða í siðrænum efnum, listin að þroskast andlegum metnaði, menningin að sjá út yfir fjötra líðandi stundar og stjórnmálin að miða hugsjónir sínar? Hvað verður þá til taks sem reynist nógu burðugt til að sameina þjóð einum rómi í blíðu og stríðu?

Siðbót í menntun

Í kjölfar lútherskrar siðbótar á Íslandi varð þjóðin læs og skrifandi, bæði konur og karlar. Siðbótin setti alþýðumenntun í öndvegi og prestum kirkjunnar var falið að sjá um uppfræðsluna. Þannig var trú og menntun samofin um aldir. Svo var á flestum sviðum þjóðlífsins líka og er enn víða fast í sessi íslenskra hefða. Vígsla opinberra mannvirkja samofin Guðsorði, bæn og blessun, einnig skip, vinnustaðir og hátíðleg tímamót í menningar-og félagastarfi. Í almanakinu felst máttugur boðskapur þar sem ævi og verk Jesú Krists stjórna skipulagi daganna og gefa þeim tilefni og inntak. Trúartáknin eru mörgum persónulega hjartfólgin hvort sem er kross eða engill, Kristsmynd eða Biblía. Og kirkjan, sem er máttarstólpi gróandi menningar, hefur sameinað fjölskylduna á stærstu stundum í athöfnum sínum um aldir í skírn og fermingu, hjónavígslu og útför samhliða rótgrónu helgihaldi. Viljum við útrýma þessu? Þeir sem segja sig úr Þjóðkirkjunni og standa utan kristinna trúfélaga biðja um það.

Afskiptaleysið dugar ekki

Þjóðlíf þróast eins og vilji fólks stendur til. Það getur hvort tveggja gerst með aðgerðum og afskiptaleysi. Veruleikinn þróast hratt og allt er breytingum undirorpið. Afskiptaleysi almennings í þjóðlífsbreytingum hefur látið margt yfir sig ganga í gegnum tíðina og ekki spyrnt við fótum fyrr en of seint. Kristin trú verður ekki áfram gildandi þáttur í sið og menningu þjóðar nema kirkjan standi traustum fótum og almennur vilji standi til þess með virkum og afgerandi hætti. Afskiptaleysið dugar ekki til að þjóðsöngurinn verði áfram hornsteinn íslenskrar siðmenningar, svo gróandi þjóðlíf með þverrandi tár þroskist á Guðs ríkis braut.

Um höfundinn12 viðbrögð við “Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð”

 1. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Þjóðsöngurinn stendur með stjórnarskránni eins og hornsteinn undir sið og menningu, stjórnmálum og félagslífi í landinu

  Stjórnmálum? Hvernig er kristni (því að ég býst sterklega við því að þú eigir við kristni) hornsteinn stjórnmála?
  Sið? Siður Íslands er almennt siðgæði, og kristnin hefur ekkert að gera með það. Það er næstum hrokafullt að halda að ef kristnin hjaðnaði myndi siðferði Íslendinga hraka.

  >Stendur vilji til þess að afhelga þjóðlífið og útrýma Guði úr allri vitund, og með valdi ef ekkert annað dugar?

  Nei nú er farið að ýkja, sem er heldur slæmt í þessari umræðu. Ekki gera kristni á Íslandi að píslarvætti. Það stendur ekkert til, né er vilji til þess.

  > Hefur kristin trú reynst þjóðinni skaðleg og hættuleg?

  Má ég benda á yfirstandandi peningasog kirkjunnar úr ríkissjóði, og blóðsúthellingar siðaskiptanna, sem dæmi?

  > Hvar ætlar maðurinn þá að leita sér uppsprettu og viðmiða í siðrænum efnum,

  Flest allir menn fæðast með ákveðið siðferði, sem að stærstum hluta verður síðan innræt af nánasta umhverfi. Látum siðferðið koma frá okkur sjálfum.

  > Vígsla opinberra mannvirkja samofin Guðsorði, bæn og blessun, einnig skip, vinnustaðir og hátíðleg tímamót í menningar-og félagastarfi.

  Kannski hefð, en ekki trú, sem ræður þarna ferð?

  >Og kirkjan, sem er máttarstólpi gróandi menningar

  Máttarstólpi gróandi menningar? Þú ert ansi viss um ágæti kirkjunnar á Íslandi. Ætli við þurfum nokkuð þing eða forseta, bara láta kirkjuna sjá um þetta?
  Ásatrúin er einnig gífurlega stór partur menningarinnar, ætli það ekki?

  > Þeir sem segja sig úr Þjóðkirkjunni og standa utan kristinna trúfélaga biðja um það.

  Biðja um að eyða listum og banna samheldni fjölskyldna? Nei, skoðaðu aðeins trúleysi og ÖNNUR TRÚARBRÖGÐ. Þetta er hroki hjá þér og ekkert annað, þeir sem segja sig úr kirkjunni vilja annað hvort fara í annað trúfélag, segja ríkinu að það vilji aðskilnað frá kirkju eða ALLT ÞETTA.
  FÓLK VILL AÐSKILNAÐ RÍKIS OG KIRKJU.

  > Afskiptaleysi almennings í þjóðlífsbreytingum hefur látið margt yfir sig ganga í gegnum tíðina og ekki spyrnt við fótum fyrr en of seint.

  Til dæmis er kirkjan enn þá á spena ríkisins. Og stjórnarskráin að skipa stjórnvöldum að mismuna trúarbrögðum. OG þjóðsöngurinn að neyða fólk í að fara með „einskonar trúarjátningu“.

  > þjóðsöngurinn verði áfram hornsteinn íslenskrar siðmenningar,

  Er Snorra-Edda ekki þá einnig hornsteinn Íslenskrar menningar? Og þar með Ásatrúin máttarstólpi allrar siðmenningar landsins, ef ekki heimsins?

 2. María Ágústsdóttir skrifar:

  Sæll vertu, Halldór Logi.
  Þetta eru margir spennandi umræðuþræðir sem þú kemur með hér.

  En mig langar bara að benda þér á að rétt um 9 af hverjum 10 Íslendingum tilheyra kristnu trúfélagi (tæp 80% þjóðkirkjunni og um 10% öðrum kristnum trúfélögum). Ertu virkilega að segja að öllu þessu fólki sé ekki sjálfrátt? Við skulum ekki gera lítið úr sjálfstæðri hugsun landans.

  Bestu kveðjur,
  María Ágústsdóttir

 3. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  María,

  Halldór Logi segir hvergi að öllum þeim sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna sé ekki sjálfrátt.

  Þessi pistill Gunnlaugs er raunalegt dæmi um það sem getur ekki talist annað en
  a)Algjör rangtúlkun á ályktun Mannréttindaráðs
  b) gífurleg oftúlkun á ályktun Mannréttindaráðs
  eða
  c) Vísvitandi útúrsnúningur á ályktun Mannréttindaráðs.

  Ég þekki pistilhöfundinn ekki persónulega og get því ekki ráðið í hvað af þessu stýrir hug hans og hönd við ritun pistilsins. En útlegging eða útlistun á ályktun Mannréttindaráðs er þetta ekki.

 4. Gunnlaugur Stefansson skrifar:

  Ég minnist ekki einu orði í pistli mínum á það sem Halla Sverrisdóttir kallar “ályktun Mannréttindaráðs”.
  Er athugasemd hennar því “raunalegt dæmi” um “algjöra”, “gífurlega” og “vísvitandi útúrsnúning” og “rangtúlkun” á pistli mínum svo notuð séu hennar eigin orð?

  Gunnlaugur Stefánsson

 5. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Þú hefur mig vonandi afsakaða. Ég gerði þér það ranglega upp að þessi pistill væri innlegg í umræðuna um ályktunin mannréttindaráðs (er það plagg kallað eitthvað annað sem ég hef ekki frétt af?) Fyrst svo var alls ekki og þessar hugleiðingar um þjóðsönginn tengdust ekki á neinn hátt þeirri umræðu var athugasemd mín augljóslega rang- eða oftúlkun og er hér með dregin til baka.

 6. Kristinn skrifar:

  Ég leyfði mér að svara þessum pistli á blogginu, sjá: http://kt.blog.is/blog/kt/entry/1112923/

  mbk,

 7. Matti skrifar:

  Merkileg tilviljun að Gunnlaugur skuli þá skrifa um málið nú þegar mikil umræða er um ályktun mannréttindaráðs.

  Gunnlaugur, vertu heiðarlegur!

 8. Gunnlaugur Stefansson skrifar:

  Ef Matti les yfir predikanir mínar á tru.is, þá sér hann, að sambúð kristni og þjóðar hefur verið mér lengi hugleikin, var raunar sérefni mitt á lokaprófi í guðfræðideildinni fyrir 28 árum, og ekki þarf “ályktun mannréttindaráðs” til að glæða viðhorf mín í þeim efnum. Heiðarleikinn felst líka í að kynna sér mál áður en til siðrænna skipanna er gripið svo ekki verði að fordómum.
  Gunnlaugur Stefánsson

 9. Matti skrifar:

  Grein þín er skrifuð sem innlegg í umræðu sem í gangi er í þjóðfélaginu þessa dagana.

  Fullyrðingar um annað eru ósannindi.

 10. Sveinn skrifar:

  Ég fer stundum inn á tru.is og les pistla og predikanir. Þa sem ég hef tekið eftir að að sumir sem skrifa athugasemdir við þær eru með hroka og dónaskap. Stundum velti ég því fyrir mér hvort þetta fólk hafi ekkert annað að gera því þetta eru alltaf sömu nöfnin, t.d. nafnið Matti er það sem kemur lang oftast þegar lesið er yfir athugsemdir sem eru með leiðinlegan tón. En það er misjafn í hvað fólk nennir að eyða tímanum sínum.

  Alla vega þakka ég Gunnlaugi fyrir góðan pistil.

 11. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Það er ekki hroki þegar verið að er að tyggja ofan í fólk sömu klausurnar aftur og aftur, meðan þeim er ælt upp jafnóðum.

  Bentu mér á dónaskap.

  Fólk sem reynir að leiðrétta misskilning hérna gæti svo gert eitthvað miklu skemmtilegra, en kannski því finnist skylda sín að leyfa ekki neinu rugli að valsa um óáreittu.

 12. Matti skrifar:

  Sveinn, mér þykir dónalegra að segja ósatt heldur en að benda á ósannindin.

  Þú mátt hafa aðra skoðun.

  María, 99% þeirra sem skráðir eru í kristna söfnuði voru skráðir í þá við fæðingu. Stór hluti þeirra sem skráðir eru í kristna söfnuði skilgreina sig ekki kristna skv. könnunum.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5054.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar