Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bára Friðriksdóttir

Besta þjónustan við börnin

Mannréttindaráð Reykajvíkurborgar lagði til á dögunum að fulltrúar trúfélaga ættu ekki erindi í skóla borgarinnar jafnvel þegar þung áföll dyndu yfir. Einnig lagði það til að alfarið ætti að hætta með kirkjuferðir á skólatíma sem hafa tíðkast fyrir jólin. Eitt af rökum ráðsins er að það eigi að fá fagaðila eins og sálfræðinga að áföllum en ekki presta. Hvað ætli þessir borgarfulltrúar haldi að felist í fimm ára háskólamenntun til prests og nokkurra mánaða starfsþjálfun þar að auki. Ef við erum fagaðilar í einhverju þá er það að mæta fólki í sorg og áföllum. Hjálpa þeim að takast á við óblíðar aðstæður og leiða þau í gegnum fyrstu holskeflur áfalls og sorgar. Þar er hverjum mætt af jafnræði óháð trúar- eða lífsskoðun.

Reynsla mín af samstarfi kirkju og skóla hefur sýnt mér hve þakklátir kennarar og skólastjórnendur eru að hafa aðgang að prestinum í hverfinu þegar áföll dynja yfir. Þegar allt snýst um fjármál á þessum síðustu og verstu, má minna á að það þarf ekkert að borga prestinum í núverandi skipulagi sem þarf að gera séu aðrir fagaðilar kallaðir til. Auðvitað er gott að fá sálfræðinga að og í sumum tilfellum fólk úr Rauða krossinum sem þekkir vel til hamfaraaðstoðar. En hvar er réttsýnin í því að loka eigi aðgang barna og kennara að sérfræðingum í áföllum? Er það besta þjónustan við börnin okkar? Ég kalla eftir svari Margrétar Sverrisdóttur, formanns ráðsins.

Það má vera að spurningin um kirkjuheimsókn skólabarna liggi á gráu svæði. Ef við skoðum rökin segja sumir að börn foreldra sem hvorki trúi né séu skráðir í Þjóðkirkjuna eigi ekki að fara í kirkju með skólanum fyrir jólin. Vinnuregla Þjóðkirkjunnar er að við skólaheimsóknir sé foreldrum kynnt það áður í bréfi og þeim gefinn kostur á að óska þess að barn sitt fari ekki sé það þeirra vilji. Þau börn koma þá ekki í kirkjuheimsókn, fá annað verkefni sem er hið besta mál. Með því njóta þau fullra mannréttinda. Reynslan hefur verið sú að það eru örfáir foreldrar sem ekki vilja að börn sín fari í kirkjuheimsókn. Nú eru um 80% þjóðarinnar félagar í Þjóðkirkjunni, a.m.k. önnur 10% í öðrum kristnum trúfélögum.

Ef um 90% barna á Íslandi eru kristinnar trúar, eru það ekki mannréttindi þeirra að þau megi fara í kirkjuheimsókn í undirbúningi jólanna, einnar stærstu hátíðar kirkjunnar? Má ekki segja að það sé brotið á mannréttindum þeirra ef þau mega ekki hafa trúfrelsi og syngja jólasálma í kirkjunni fyrir jólin? Við viljum sem besta þjónustu við börnin okkar. Við viljum að þau njóti fullra mannréttinda. Við viljum ekki að því sé þröngvað upp á þau að kirkjan sé vond sem beri að varast. Ég veit að þetta mæli ég fyrir mína hönd og margra annarra því fólk víða að hefur rætt við mig um hneykslan sína á framgöngu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar í þessu máli.

Jón Gnarr borgarstjóri sagði í blaðaviðtali eitt sinn að sá maður sem hann liti mest upp til af öllum væri Jesús. Ég geri orð hans, sem lesin eru yfir hverju skírðu barni, að lokaorðum.

Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. Markúsarguðspjall 10.14-16.< (/cite>

Um höfundinn12 viðbrögð við “Besta þjónustan við börnin”

 1. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Eitt af rökum ráðsins er að það eigi að fá fagaðila eins og sálfræðinga að áföllum en ekki presta. Hvað ætli þessir borgarfulltrúar haldi að felist í fimm ára háskólamenntun til prests og nokkurra mánaða starfsþjálfun þar að auki. Ef við erum fagaðilar í einhverju þá er það að mæta fólki í sorg og áföllum.

  Samkvæmt vef Háskóla Íslands (www.hi.is) stendur ekkert um sálfræði í guðfræði náminu.
  Svo virðist einnig gleymast alltof oft í þessum pistlum að sálfræðingar hafa einnig menntun og reynslu, þó að það virðist fjarstæðukennt.

  >má minna á að það þarf ekkert að borga prestinum í núverandi skipulagi sem þarf að gera séu aðrir fagaðilar kallaðir til.

  Á að pæla í verðlagi eða gæðum þjónustu eða eitthvað svoleiðis þegar verið er að tala um geðræna heilsu nemenda? Jahérna.

  >En hvar er réttsýnin í því að loka eigi aðgang barna og kennara að sérfræðingum í áföllum?

  Hún er… hvergi? Enda segir mannréttindaráð ekki að það eigi að loka fyrir slíkt.
  Það verður einnig að taka með í reikninginn að þarna er verið að tala um þau mannréttindi að verða ekki fyrir trúboði snemma á ævinni, soldið sem prestar eiga samkvæmt kristninni að gera. Er það ekki annars, er það ekki eitt megingildi kristninnar? Stendur ekki á vef ríkiskirkjunnar „Biðjandi, BOÐANDI, þjónandi“?

  >Þau börn koma þá ekki í kirkjuheimsókn, fá annað verkefni sem er hið besta mál.

  Sem er vandamál í sjálfu sér, afhverju ætti að sundra hópi nemenda á grundvelli trúarbragða, og afhverju að gera það á skólatíma? Ef foreldrar, eða börnin, vilja fara í kirkju þá gera þau það bara eftir að skóla er lokið. Óþarfi að valda sundrung meðal nemenda

  >Ef um 90% barna á Íslandi eru kristinnar trúar, eru það ekki mannréttindi þeirra að þau megi fara í kirkjuheimsókn í undirbúningi jólanna, einnar stærstu hátíðar kirkjunnar?

  JÚ! Alveg hárrétt, en ekki á skólatíma. Gerið það heima. Það er enginn að banna þeim að fara í kirkju, hinsvegar er verið að banna kirkjuferðir (sem gætu innihaldið messur og aðra tilbeiðslu sem mismunar öðrum trúarbrögðum).
  Þú virðist algerlega vera að misskilja þetta.

  >Við viljum ekki að því sé þröngvað upp á þau að kirkjan sé vond sem beri að varast.

  Við viljum heldur ekki að þröngvað sé upp á þau hvað kirkjan sé góð.
  Það er heldur ekki hægt að banna þeim eytt né neitt né neyða upp á þau í þessu, það er bara verið að banna skólum það sem gæti túlkast sem trúboð.
  Ef að þau vilja fara í kirkju þá gera þau það óháð skóla.

  Jesús:
  >Leyfið börnunum að koma til mín,

  EKKI: Leyfið mér að fara til barnanna.

 2. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  >Ef um 90% barna á Íslandi eru kristinnar trúar, eru það ekki mannréttindi þeirra að þau megi fara í kirkjuheimsókn í undirbúningi jólanna, einnar stærstu hátíðar kirkjunnar?

  Gerir opinber skráning manns hjá Þjóðskrá mann að kristnum?

  Var ég kristinn alveg þangað til ég skilaði eyðublaðinu og sagði mig úr ríkiskirkjunni?

 3. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Ágæta Bára, mér fellur ævinlega miður þegar talað er um börn sem væru þau fullorðin, með fullt vald yfir eigin lífi og skoðunum og fullmótaða sjálfsvitund. Þannig ergir það mig til dæmis oft þegar talað er um “fátæk börn” þegar átt er við börn sem búa við fátækt eða börn fátækra foreldra. Í þessu samhengi þætti mér smekklegra að tala um börn foreldra sem eru skráð í Þjóðkirkjuna (hvort sem þeir foreldrar eru virkir í sinni trúariðkun eða ekki). Börn eru skv. mínum skilningi ekki meðvituð um trúarbrögð sín eða trúleysi frá unga aldri heldur læra e.k. kennisetningar af foreldrum sínum og taka svo (mis)sjálfstæða ákvörðun um að ferma sig og staðfesta þannig heitið sem foreldrar þeirra unnu fyrir þeirra hönd og að þeim forspurðum. Það mætti hugsanlega tala um fermda unglinga sem yfirlýst kristna einstaklinga en tæplega ófermd börn.

  Alveg burtséð frá því öllu saman þá hefur aldrei staðið til og væri ekki hægt skv. stjórnarskrá að skerða rétt barna til að sækja kirkju með foreldrum sínum; að leggja af ferðir til helgihalds á skólatíma skerðir á engan hátt rétt foreldra til að fara með börn sín til kirkju. Nóg er af kirkjunum og í hverri þeirra er haldið úti sunnudagaskóla og metnaðarfullu æskulýðsstarfi svo fólki er nú ekki beinlínis allar bjargir bannaðar, vilji það að börnin þeirra njóti þjónustu kirkjunnar. En foreldrarnir verða þá náttúrulega að bera sig eftir því. Hvort þeir gera það er allt annað mál - og heyrir hreint ekki undir Mannréttindaráð.

  Með kveðju, Halla Sverrisdóttir

 4. Matti skrifar:

  Í prédikun sem birt er hér á trú.is segir Bára einnig:

  Húmanistar mega hafa sína lífsskoðun, tjá hana og rökræða við hvern sem er, en ég er ekki sátt þegar þeir vilja banna mér og 90% þjóðarinnar að hafa mína lífsskoðun.

  Það er staðreynd að hér lýgur Bára. Það vill enginn banna Báru að hafa sína lífsskoðun. Hér er hún að vega gróflega að hópi fólks.

  Af hverju eruð þið sífellt ljúgandi? Kunnið þið ekkert að skammast ykkar?

  Finnst ykkur þetta bara fyndið? Hlæið þið að aumingja húmanistunum sem verða reiðir þegar þið ljúgið um þá?

  Er þetta það sem “kristilegt siðferði” gengur út á? Farið þið heim til barnanna og montið ykkur af því að hafa logið hressilega um hóp fólks til að sverta það opinberlega?

  Að þið skulið ekki skammast ykkar.

 5. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Varðandi ókeypis presta, þá ættirðu kannski að líta á lesvirða grein um það:

  http://www.vantru.is/2010/11/09/16.00/

  Já, þetta er á þeim guðleysis lygavef vantru.is, og þar af leiðandi óleshæft hrokabull.

 6. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Þú, höfundur, skrifar:
  “Reynslan hefur verið sú að það eru örfáir foreldrar sem ekki vilja að börn sín fari í kirkjuheimsókn. Nú eru um 80% þjóðarinnar félagar í Þjóðkirkjunni, a.m.k. önnur 10% í öðrum kristnum trúfélögum.

  Ef um 90% barna á Íslandi eru kristinnar trúar, eru það ekki mannréttindi þeirra að þau megi fara í kirkjuheimsókn í undirbúningi jólanna, einnar stærstu hátíðar kirkjunnar?”

  Árni Svanur Daníelsson skrifar:
  “Það er ekki hægt að nefna það sem rök gegn þess að svo margir taki þátt,”

 7. Lena Rós Matthíasdóttir skrifar:

  Ég er guðfræðimenntuð og starfandi prestur. Í náminu mínu lagði ég áherslu á sálgæslufræði, kláraði Sálgæslu á stofnun en þar var maður rækilega þjálfaður í samfylgd með deyjandi fólki.

  Ég er búin að praktísera áfallaaðstoð og stuðning við fólk í sorgarúrvinnslu í tæp sjö ár sem prestur. Þar hef ég lagt áherslu á vinnu í sorgarhópum fyrir foreldra látinna barna en einnig verið með almenna sorgarhópa og núna eftir áramót verð ég með sorgarhóp fyrir fólk sem hefur misst maka. Mestan lærdóm hef ég þó dregið af samfylgd einstaklinga í öllum þeim gríðarlega massa af viðtölum sem ég hef átt við fólk í sorg.

  Og fyrir utan allt þetta, Guðfræðinámið og starfið, þá er ég búin að læra sálræna skyndihjálp og taka Sálgæslufræði á Mastersstigi: Sálgæslu og öldrun, Sálgæslu og 12 spora leiðina, Sálgæslu barna og unglinga, Sálgæslufræði: Dauðinn og sorgin og Áfallahjálp og samfylgd í kjölfar áfalla.

  Já, allt eru það hrein og klár verkfæri fyrir mig og mitt starf, verkfæri sem samkvæmt tillögu Mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar, teljast ekki nægur grundvöllur fagmennsku minnar.

  Ég mótmæli tillögum Mannréttindanefndar vegna þess að mér finnst vegið að mannréttindum fólks í uppeldisstofnunum Grafarvogssóknar. Verði tillögurnar að veruleika mega þau ekki lengur nýta sér þann gríðarlega reynslusjóð sem í mér býr.

 8. Matti skrifar:

  Snýst þetta þá bara um þig Lena Rós?

 9. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Já, allt eru það hrein og klár verkfæri fyrir mig og mitt starf, verkfæri sem samkvæmt tillögu Mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar, teljast ekki nægur grundvöllur fagmennsku minnar.

  Mannréttindaráð vildi kannski koma því á framfæri að taka ekki alla presta fyrir sem sálfræðimenntaða og með jafnmikla menntun og reynslu og sálfræðinga.

  Auk þess sem tillagan beinist gegn trúboði, soldið sem þú sem prestur verður að hafa með þér, ekki satt?

 10. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  “Verði tillögurnar að veruleika mega þau (fólk í uppeldisstofnunum Grafarvogssóknar) ekki lengur nýta sér þann gríðarlega reynslusjóð sem í mér býr.”

  Og hvað með það? Foreldrar sem telja þinn reynslusjóð gagnlega viðbót við það sem skólinn hefur að bjóða af fagfólki geta eftir sem áður leitað til þín, sem “alternatív” við það sem skólinn býður upp á. Þeir foreldrar sem eru óánægðir með ungbarnaeftirlitið hjá Heilsugæslunni eða heimilislækninn sinn geta líka leitað til hómópata, og það gera margir og eru afskaplega ánægðir með þá þjónustu. En heilsugæslulæknirinn og skólahjúkrunarkonan eiga að vera klínískt menntað heilbrigðisstarfsfólk, ekki hómópatar. Hómópatar eru að mörgu leyti sambærilegir við presta í þessu samhengi þar sem þeir eru vissulega margir sérmenntaðir í sínu fagi - en byggja sín fræði á nálgun sem er ekki samþykkt af öllum. Eða værir þú sátt við það, ef þú t.d. treystir hómópatafræðunum, að þér væri vísað á einn slíkan með barnið þitt þegar þú kæmir á heilsugæsluna í hverfinu þínu? Og væri sagt, þegar þú andmæltir því, að hómópatinn væri nú með margra ára nám og reynslu að baki og væri auk þess afskaplega vel viljuð og vel liðin manneskja? Ég held ekki.

  Ég er alls ekki að tala niður til presta, né heldur hómópata. En þjónusta beggja hlýtur að eiga að flokkast sem “alternatív”, ekki sjálfvalinn fyrsti kostur.

  með bestu kveðju, Halla

 11. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Afsakið, þarna í seinni hlutanum átti auðvitað að standa “ef þú treystir EKKI hómópatafræðunum”!

 12. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Tillögur mannréttindaráðs vilja örugglega meina að ekki taka alla presta sem sjálfgefna sálfræðinga.

  OG einnig forða börnum frá trúboði, enda, er það ekki skilda presta (miðað við það sem stendur í NýjaTestamentinu) að breiða út kristni?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3756.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar