Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslur



Leita

Guðrún Kr. Þórsdóttir

Þjónusta kirkjunnar við öryrkja í Hátúni

Djáknastarf er mín vinna,
Sáluhjálp muntu þar finna.
Ýmsu ógætni að sinna,
Svo ólánið verði minna.

Þetta orti vinur minn og fyrrum samstarfsfélagi Helgi Seljan á gospelkvöldi í Hátúni. Gospelkvöldin eru einu sinni í mánuði og vel sótt af íbúum Hátúns en þar er Þorvaldur Halldórsson tónlistamaður í aðalhlutverki ásamt undirritaðri. Þegar talað er um Hátún þá er átt við Hátún 10, 10a, 10b og 12. Á svæðinu öllu búa um þrjú hundruð manns en mun fleiri taka þátt í þeirri fjölbreyttu starfsemi sem boðið upp á svæðinu. Má þar nefna starfssemi Þjónustumiðstöðvar, sjúkraþjálfunina Stjá og sundlaug Sjálfsbjargar.

Megin markmið þjónustu djákna í Hátúni er að reyna að rjúfa einangrun íbúanna, eiga samfylgd með þeim, hvetja þá til félagslegrar virkni og styðja og styrkja til vonar og trúar. Djáknaþjónusta veitir von, kærleika og trú á getu hvers og eins. Það má segja að um ákveðið forvarnarstarf sé að ræða því í starfinu felst ákveðin endurhæfing og eftirfylgd með leiðsögn og hvatningu, fræðslu og stuðningi til betra lífs. Megin áherslan í þjónustunni er á að hver og einn finni sína eigin rödd, taki sínar eigin ákvarðanir og taki virkan þátt í samfélaginu. Djáknaþjónustan í Hátúni sem tengist Laugarnessöfnuði hefur fengið að þróast í rúmlega tíu ár en því miður hefur djákni alltaf verið í hlutastarfi.

Í ár er Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Þjónusta kirkjunnar í Hátúni fékk á haustdögum styrk frá Félagsmálaráðuneytinu til að styðja betur við þá öryrkja sem búa þar. Styrkurinn verður nýttur til að efla samveru íbúanna með félagslegri virkni og ferða út fyrir borgarmörkin. Þá er vikulega Opið hús þar sem boðið er upp á næringu og samfélag.

Það gefur auga leið að mikil fátækt er í Hátúni því eins og flestir vita eru bætur til öryrkja langt fyrir neðan þau mörk sem einstaklingur þarf til lífsviðurværis. Fólkið ber sig samt vel og segir að það hafi svo sem aldrei kynnst góðærinu þannig að fallið hjá þeim hafi ekki verið eins hátt og hjá mörgum öðrum þegar Hrunið skall á. Íbúarnir sækja sér aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar og fleiri aðila sem veita matar- og fataaðstoð.

Það sem einkennir íbúa á Hátúnssvæðinu er æðruleysi. Þeir gera ekki kröfur um mikið en eru þó þakklát fyrir það sem þeir hafa og þá aðstoð sem völ er á. Styrkurinn sem fékkst í haust fer aðallega í að lyfta fólkinu upp úr hversdagsamstrinu. Haustið byrjaði á mikilli grillhátíð, með guðsþjónustu og tónlist. Haustferð verður farin upp í Borgarfjörð og borðað saman. Sjálfboðaliðar og annað gott fólk er fengið til að koma í Hátúnið bæði til að kynnast íbúunum, gefa þeim góða nærveru og efla félagsleg tengsl.

Þjónusta kirkjunnar er mikilsvirði fyrir íbúa Hátúns og veitir hún þeim ákveðið öryggi. Allir íbúar eru sjálfstætt búandi og veit hvert það á að leita til að fá leiðsögn og stuðning ásamt því að geta fengið sálgæsluviðtöl til að losa um áhyggjur og kvíða. Geðdeild er starfandi á svæðinu og tengjast margir íbúar deildinni og er það gríðarlegt öryggi fyrir íbúana. Reykjavíkurborg heldur úti öflugri heimaþjónustu og húsverðir eru ætíð til staðar allan sólarhringinn.

Í Hátúni er yndislegt samfélag sem þarf á stuðningi að halda og er það vel að kirkjan sjái sér fært að halda þar úti sérstakri þjónustu. Kirkjan ætti að efla stuðning sinn meira út í samfélaginu eins og gert er í Hátúni því þar er fólkið. Hvað gerði ekki Jesú Kristur? Fór hann ekki út til fólksins og var meðal þeirra? Hann er fyrirmynd okkar sem störfum við djáknaþjónustu í kærleika og virðingu fyrir náunganum.

Um höfundinn



4 viðbrögð við “Þjónusta kirkjunnar við öryrkja í Hátúni”

 1. Sighvatur Karlsson skrifar:

  Takk fyrir upplýsandi pistil.

 2. Ragnheiður Arnkelsdóttir skrifar:

  Sæl, Er ekki ánægð með fyrirsögn og skilgreiningu á íbúum Hátúns. Við lesturinn væri hægt að draga þá ályktun að allir íbúar í Hátúni, hvar sem er á landinu væru að berjast við fátækt, geðveiki og fl. og þyrftu sérstakann stuðning.
  En við hjónin búum í HÁTÚNI 15 og þekkjum ekki þetta vandamál. Mér finnst að það þurfi að skilgreina þetta nánar t.d. í húsum Öryrkjabandalags og/eða Sjálfsbjargar.
  Vil samt í lokin taka fram að samskipti okkar við íbúa þessara húsa hafa verið góð s.l. 37ár.
  Með kveðju
  Ragnheiður Arnkelsdóttir
  Hátúni 15
  105 Reykjavík

 3. Svala Sigríður Thomsen skrifar:

  Þakka þér fyrir góðan pistil Guðrún.
  Til hamingju með styrkinn. Ég heyri að hann hefur komið í góðar þarfir.
  Vonandi fær kærleiksþjónusta ykkar hjá Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörgu að dafna og vaxa áfram, oft var þörf en nú er nauðsyn.
  Kær kveðja Svala.

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Takk fyrir ábendinguna Ragnheiður, hér er átt sérstaklega við íbúa í húsunum við Hátún 10, 10a, 10b og 12. Guðrún er að vekja athygli á þeirri mikilvægu þjónustu sem er veitt þar. Ég þekki til þarna og veit að þjónustan er vel þegin og að hún skiptir máli.

  Guðrún er búin að bregðast við ábendingunni þinni og skýra textann hér að ofan þannig að allir átti sig á því við hvað er átt.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2575.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar