Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Pétur Pétursson

Menningarbylting í Reykjavík

Hafin er róttæk menningarbylting á Íslandi sem á sér upptök í Ráðhúsinu glæsilega við Tjörnina í Reykjavík. E.t.v. á róttækt útspil Mannréttindaráðs borgarinnar um að hreinsa skólann af trúarbrögðum að skapa hugarró og vellíðan meðal borgarbúa á erfiðum tímum og gera þá hæfari til að takast á við lífsvandann sem að steðjar, að minsta kosti börnin sem nýju tillögurnar beinast að. En hér er um um samfélags- og menningarmál að ræða því ef hið nýja prógram kæmi til framkvæmda í smáatriðum mundi það skapa menningarlegt siðrof og alls ekki víst hvað fyllti það tómarúmu sem af hlytist. Í hnitmiðuðum og nútímalegum kanselístíl, sem á að bera keim af mannréttindayfirlýsingum fjölþjóðlegra samtaka eins og Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna, er tilkynnt að ekki megi syngja sálma í skólum borgarinnar, ekki stunda myndlist sem hefur trúarlegar skýrskotanir og ekki skipuleggja vettvangsheimsóknir í kirkjur og bænahús. Börnin gætu nefnilega smitast og farið að syngja eitthvað trúarlegt og mála krossa, stjörnur,
engla og jesúbarnið – Guð minn góður.

Samkvæmt þessu eru ættjarðarljóðin auðvitað á gráu svæði með allar sínar vísarnir í Guð sem gaf þjóðinni landið og gerði það svo fallegt sem það er. Jónas Hallgrímsson er sótsvartur í þessari birtu mannréttinda
Reykjavíkurráðsins því að hann leyfir sér að segja um fjallið fagra og klettana á Þingvöllum: „Gat ei nema Guð og eldur, gjört svo dýrlegt furðuverk.“ (Fjallið Skjaldbreiður.)

Þá er samkvæmt þessu best að sýna börnunum ekki heldur englana og maddonnurnar í myndum listamanna borgarinnar eins og Kjarvals og Schevings og flíka ekki álfamyndunum því að þær spretta upp úr þjóðtrúnni. En hvað með vængjuðu sveitakonurnar hans Schevings? Sumar eru með geislabaug! Best að fjarlægja þær líka því að þær gætu ruglað börnin í náttúrufræðitímum og komið inn hjá þeim skökkum hugmyndum um móðurhlutverkið.

Og nú mega ríki og kirkja fara að vara sig fyrir mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, svo og ráðuneyti, skólastjórar, foreldrafélög og forstöðumenn allra trúfélaga á Íslandi. Svo virðist sem ráðið telji best að
slíta sambandi kirkju og þjóðar með því að færa þjóðkirkjuna og önnur trúfélög alfarið inn á heimili meðlimanna, ef þau eiga endilega að vera til í framtíðinni. Og alls ekki má fara með börnin í heimsókn í alþingi Íslendinga sem er rétt hjá Dómkirkjunni, steinsnar frá Ráðhúsinu, né heldur horfa á útsendingar frá fundum þess því að það er nefnilega svo að það er trúartákn í þjóðfánanum sem er á fánastöng við sæti forseta þingsins. Að vísu er það bót í máli að hann lafir hreyfingalaus (fáninn) niður með stönginni svo upprisutáknið ógurlega, krossinn, í hvítu og rauðu sést ekki. En ef nú kæmi gola inn um glugga eða þá að svo mikið gustaði kringum þingmenn í deilum um orsakir hrunsins að loftið færi á hreyfingu og fáninn þendist út? Þá myndi kross Krists blasa við öllum sálum og valda sárum skaða.

Ekki má færa börnum trúarlega texta. Ritningarnar Nýja testamentið og Kóraninn eru lagðar að jöfnu í tilskipunum ráðsins í nafni íslensks menningararfs og grundvallargilda. Í nafni jafnréttis á heimsvísu hafa þessi rit sjálfsagt haft jafn „skaðvænleg“ áhrif á íslenska hugsun yfirleitt. Nú, svo eru Davíðssálmar fordæmdir því að þeir voru bæna- og sálmabók gyðinga, þar á meðal Jesú frá Nasaret. Best er að viðurkenna að þetta sálmakver fylgir með þeirri útgáfu Nýja testamentisins sem Gídeonfélagið, vill halda áfram að gefa skólabörnum.

Það má náttúrulega ekki fréttast að þjóðsöngurinn sé ortur út af 90. sálmi þessa „óþarfa“ ljóðasafns og það af prestinum Matthíasi Jochumssyni (jafnvel best að taka allt eftir hann úr sýnisbókum íslenskra bókmennta fyrir öll skólastig). Það eru svo margir þjóðsöngvar sem geta komið í stað Ó Guð vors lands, t.d. Yfir kaldan eyðisand : - )

Um höfundinn2 viðbrögð við “Menningarbylting í Reykjavík”

 1. Torfi Stefansson skrifar:

  Þessi grein er nú varla þér sæmandi Pétur.
  Hvorki sem menntaðs og velviljaðs manns, né sem prófessors í guðfræðideild Háskóla Íslands sem á að fremsta megni að gæta hlutleysis og fagmennsku í skrifum sínum og máli.

  Málið er það, með þessa yfirlýsingu Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, að hún er mjög óljós og virðast litlar líkur á að farið verði eftir henni í hvívetna.
  Það er t.d. mjög óljóst hvað átt sé við með að “ekki megi syngja sálma í skólum borgarinnar, ekki stunda myndlist sem hefur trúarlegar skýrskotanir og ekki skipuleggja vettvangsheimsóknir í kirkjur og bænahús.” Sérstaklega þetta með myndlistina hlýtur að verða vandamál í útfærslu.

  Mér finnst sjálfum eðlilegt að ekki sé verið að syngja sálma í skólum, eða biðja bænir. Það hefur mér alltaf þótt, alveg frá því að ég var lítill polli í skóla.
  Ættjarðarljóð eru auðvitað ekki sálmar, nema örfá þeirra, og einungis útúrsnúningur hjá þér að týna þau til.

  Einnig þetta með fánann, en ég verð þó að viðurkenna að það væri ekki vitlaus hugmynd að breyta fánanum. Danneborgsfáninn, sem er foreldri allra norrænu þjóðfánanna, varð til sem hermerki í eins konar krossferð Dana til Eystrasaltslanda á miðöldum - og mætti alveg missa sín mín vegna. Þá tel ég líklegt að þeir Íslendingar sem tilheyra öðrum trúarbröðgum, og sem eru trúlausir, telji fánann ekki vera þeirra sameiningartákn - og það fólk hefur alveg sama rétt og við hin.

  Ég er einnig fylgjandi því - og það mjög eindregið - að skipt verði um þjóðsöng.
  Sálmur sr. Matthíasar er fyrir það fyrsta únítarískur og gengur þannig þvert á játningar evangelísk-lútherskrar þjóðkirkju og er að auki hið mesta torf - og lagið við hann langdregið, leiðinlegt og erfitt til söngs.
  Þá gengur það, að hafa sálm sem þjóðsöng, þvert gegn trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar og ætti alls ekki að líðast.

  Í skrifum þínum um íslenska kirkjusögu kemur yfirleitt fram mikil hrifning á trúfrelsinu - og hvers konar skoðana- og játningarfrelsi.
  Þú virðist þannig vilja að sem flestir njóti slíks frelsis.

  Því finnst mér það skjóta skökku við að þér skuli vera eins uppsigað, eins og mörg raunin ber vitni, við aukin mannréttindi minnihlutahópa og viljir þröngva upp á þá trúar- og lífskoðun meirihlutans.

  Ég vil leyfa mér að ráðleggja þér, því við erum jú gamlir kunningjar, að láta af þessu háttalagi.
  Ég skora á þig að sýna það umburðarlyndi, sem þú ert þekktur fyrir, einnig gagnvart Vantrú, Siðmennt og öllum þeim öðrum sem vilja draga úr það sem þeim finnst vera brot á mannréttindum barna þeirra í skólum landsins.

 2. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Ég verð að taka undir með Torfa. Það eru mikil vonbrigði að lesa jafn illa rökstudda grein frá Pétri.

  Hvorki Mannréttindaráð Reykjavíkur né nokkur annar vill hreinsa skólanna af trúarbrögðum. Siðmennt hefur oft og ítrekað lýst því yfir að trúarbragðakennslu beri að efla og að það sé eðlilegt að kristnin skipi þar stærri sess en önnur trúarbrögð.

  Allt tal um að útrýma ættjarðarljóðum og trúarlegum skáldskap úr kennslu grunnskóla er út i hött og til þess eins að drepa umræðu um raunverulegan kjarna tillögunnar á dreif.

  Meiri fræðslu minna trúboð. Getum við ekki öll sammælst um það? Mannréttindaráð myndi alveg örugglega samsinna því, Siðmennt líka og margt víðsýnt fólk innan kirkjunnar. Ég hreinlega trúi því ekki að Pétur Pétursson sé á annarri skoðun.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3532.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar