Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Prófraun Alþingismanna

Enn einu sinni erum við, þjóðin, að horfa upp á stjórmálastétt okkar falla á prófi. Það er sárt. Nú sem aldrei fyrr erum við í þörf fyrir traust og samstöðu til góðra verka. Tími uppbyggingar virðist enn ekki vera genginn í garð við Austurvöll.

Vilji til siðbótar?

Þegar vönduð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir virtist þingið ætla að bregðast við með ábyrgum hætti. Þingmannanefnd með fulltrúum allra flokka undir forsæti Atla Gíslasonar var fengið það vandasama hlutverk að taka afstöðu til ályktana í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um ástæður efnahagsáfalla þjóðarinnar og hvaða lærdóm megi draga af þeim. Þá var þeim falið að fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar um æskilegar breytingar á lögum og reglum er miða að því að hindra að slíkt endurtaki sig. Samstaða virðist um að þingmannanefndin hafi skilað góðri vinnu í þessu efni.

Framan af umræðunni um skýrslu þingmannanefndarinnar virtist ríkja almennur vilji til siðbótar í stjórnmálalífi og stjórnsýslu. En nú hefur annað komið í ljós.

Þingmannanefnd tekst á við vanda

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var lagt mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í Hruninu. Þingmannanefndinni var einnig ætlað að taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda Hrunsins gæfu niðurstöður rannsóknarnefndarinnar tilefni til slíks.

Eins og alþjóð veit varð niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að tilteknir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 í aðdraganda falls bankanna. Vanrækslan fólst í því að láta hjá líða að bregðast á viðeigandi hátt við hinni yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnahagslíf sem leiddi af versnandi stöðu bankanna. Þetta reyndist einmitt erfiðasti þátturinn í verkefni þingmannanefndarinnar. Því miður tókst henni ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Meirihluti hennar komst þó að þeirri niðurstöðu að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn tilteknum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde vegna refsiverðrar háttsemi þeirra í embættisfærslum sínum á árinu 2008. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eins töldu að ekki bæri að ákæra neinn ráðherra.

Hlaupist undan ábyrgð

Því miður koma viðbrögð þingheims sjálfs þjóðinni í opna skjöldu. Hann reyndist ekki þeim vanda vaxinn að kalla ráðherra til ábyrgðar. Má segja að hlutur forsætisráðherra sé þar sýnu verstur en mánudaginn 20. sept. s.l. talaði hún mjög niður tillögur meirihluta þingmannanefdarinnar í ræðustól Alþingis.

Í 14. grein sjórnarskrárinnar segir „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ Það er átakanlegt að horfa upp á ráðaleysi þingmanna þegar þeim er ætlað það erfiða hlutverk að skapa framkvæmdavaldinu raunverulegt aðhald. Í umræðunum um tillögur hins klofna meirihluta þingmannanefndarinnar um að sækja þrjá eða fjóra fyrrum ráðherra til ábyrgðar hefur hver hlaupið í sína átt og þyrlað upp ótrúlegu moldviðri um eðli málsins. Þar koma í ljós hefðbundin viðbrögð kunningjasamfélagsins sem eru gagnrýnisleysi og samtrygging.

Í þingsölum hefur framkvæmd þessa ákvæðis verið líkt við pólitísk réttarhöld. Slíkt er ekki nokkru lagi líkt. Alþingi getur samkvæmt ákvæðinu aðeins kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Í kæru felst hvorki saksókn né sakfelling. Í kæru felst aðeins það að löggjafarvaldið skýtur því til dómsvaldsins að rannsaka gjörðir framkvæmdavaldsins. — Hlýtur Hrunið 2008 ekki að gefa nægilega ástæðu til þess að slík rannsókn fari fram?

Falskt öryggi?

Viðbrögð þingmanna við fram komnum tillögum um að tilteknir ráðherrar verði látnir sæta ábyrgð vekja upp grunsemdir um það að þjóðin hafi verið blekkt.

Áratugum saman hefur verið vísað til stjórnarskrárákvæðisins um landsdóm sem tryggingu fyrir því að hægt væri að kalla ráðherra til ábyrgðar en slíkt er grundvallaratriði í lýðræðis- og réttarríkjum. Nú þegar mörgum virðist ástæða komin til að grípa til þessa öryggisloka er okkur sagt að ákvæðið sé úrelt, því það standist ekki kröfur réttarríkisins um vandaða málsmeðferð né nútímakröfur um mannréttindi.

Þeir sem einna hæst tala í þessa veru eru þingmenn sjálfir. Hvað segja slík viðbrögð úr þeirri átt? Að þingmenn hafi alls ekki sett sig inn í ákvæðið, eðli þess, tilgang og afleiðingar? Ef svo er hafa þeir sofið á verðinum. Slíkt er ekki gott.

Hitt er þó verra ef þingmenn hafa gert sér þetta ljóst en látið undir höfuð leggjast að færa ákvæðið til núverandi horfs. Slíkt flokkast undir blekkingu. Þá hafa þingmenn skapað þjóðinni flaskt öryggi en sér og foringjum sínum á ráðherrastólum þeim mun öruggari stöðu þar sem þeir hafa komið í veg fyrir að hægt sé að kalla þá til ábyrgðar.

Það skal að sönnu viðurkennt að landsdómsleiðin hefur sín miklu takmörk, m.a. þau að með henni verður ekki hægt að kalla þau til ábyrgðar sem mesta sök eiga: Ráðherrana sem sátu á tímum einkavæðingarinnar. — Þingheimur þarf að finna leið til að setja merkimiða á störf þeirra, t.d. með því að samþykkja á þau vítur af einhverju tagi.

Prófraun

Þessa dagana fylgist þjóðin með þingmönnum sínum í þeirri prófraun sem þeir takast nú á við. Ætlar löggjafarvaldið að sýna að það sé raunverulega ekki undir hæl framkvæmdavaldsins — í þessu tilviki nokkrum fyrrverandi ráðherrum — eða ætlar það að beita þeim öryggistækjum sem stjórnarskráin leggur þeim í hendur?

Við gerum okkur grein fyrir að það er erfitt að kalla fyrrum samverkamenn, vini og félaga til ábyrgðar en stundum verður ekki undan því komist. Margt bendir til þess að það sé einmitt raunin núna.

Um höfundinn12 viðbrögð við “Prófraun Alþingismanna”

 1. Torfi Stefansson skrifar:

  Finnst ykkur ekki hæpið, sem prestar fólks í öllum flokkum, að taka þennan pól í hæðina? Hér er um að ræða flokkspólitískt mál, eins og atkvæðagreiðslan á þinginu ber ljósan vott um, og því mjög viðkvæmt fyrir marga skjólstæðinga ykkar.

  Kirkjan og prestar eiga ekki að vera dómarar heldur þvert á móti boðberar sáttar, ekki síst í máli sem þessu.
  Mér sýnist þessi yfirlýsing ykkar áttmenninganna bera frekar vott um popularisma en um sterka réttlætiskennd.
  Auk þess vegur hún að þingræðinu og tekur þannig undir þær raddir sem vilja það feigt. Hvað fáum við þá í staðinn? Einræði fasismans? Er það það sem þið viljið?

 2. Karl V. Matthíssson skrifar:

  Er útilokað að þingmennirnir hafi greitt atkvæði sitt eftir bestu vitund og samvisku? Þar að ganga út frá hinu illa?

 3. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir pistil.

  Það væri gaman að fá eitthvert ykkar til að leggja út af niðurstöðunni í atkvæðagreiðslu alþingis, nú þegar liggur fyrir að forsætisráðherra hrunstjórnarinnar er sá eini sem verður ákærður.

  Stóðst alþingi þá mælikvarða sem þið vilduð setja því?

  Ef já, hvers vegna.

  Ef nei, hvers vegna ekki?

 4. Adda Steina skrifar:

  Ég er ósammála áherslum ykkar í þessari grein. Í umræðu um landsdóm fyrir kosninguna kom skýrt fram að þessi málsmeðferð hefði verulega galla, t.d. hvað varðaði réttarstöðu þeirra sem krafist var ákæru yfir af nefndinni. Að auki hve víð og óljós ákæruatriði voru - hvaða lög voru raunverulega brotin. Og síðast en ekki síst var augljóst að Alþingi var vanhæft á allan hátt til að ákvarða þannig um eigin mál. Mér virðist í þessari grein gengið út frá því að alþingismenn standist aðeins þessa prófraun ef þeir greiði atkvæði með því að kæra alla sem tilgreindir voru, sbr. eftirfarandi setningu: “Ætlar löggjafarvaldið að sýna að það sé raunverulega ekki undir hæl framkvæmdavaldsins — í þessu tilviki nokkrum fyrrverandi ráðherrum — eða ætlar það að beita þeim öryggistækjum sem stjórnarskráin leggur þeim í hendur? Við gerum okkur grein fyrir að það er erfitt að kalla fyrrum samverkamenn, vini og félaga til ábyrgðar en stundum verður ekki undan því komist.”

 5. Skafti Harðarson skrifar:

  Eru nú prestar allt í einu orðnir löglærðir og þess umkomnir að útlista fyrir okkur hinum hvað í gjörðum Alþingis fólst? Ljóst er að sá sem ákærir tekur afstöðu til þess að sekt liggi fyrir. Hvers vegna annars að ákæra? Og hér á að ákæra fyrir pólitískar ákvarðanir, ekkert annað. Og á því verður enginn endir. Ekki nóg með það heldur skal þingið velja ákæranda og meirihluta dómsins. Hvers konar réttarríki er þetta.

  Núverandi ríkisstjórn hefur nánast ekkert gott af sér látið leiða, en það er ekki þar með sagt að leiða eigi hana fyrir Landsdóm?

  En við lifum á tímum þar sem prestar bregðast eins og aðrir. Hefur ekki sóknarprestur í íslensku þjóðirkjunni nýlega upplýst að hann vildi berja lögmann fyrir skoðanir hans? Og þið krefjist þess að réttarríkinu verði hent út um gluggann og pólitískar ofsóknir hafnar.

  Sjaldan hefur opinberast eins vel og nú að kirkja á aldrei að vera undir verndarvæng hins opinbera. Slík kirkja hlúir ekki að trúnni, heldur gerir boðbera trúarinnar að embættismönnum ríkisins, þar sem hagsmunir þeirra sjálfra, ekki safnaðarins gengur fyrir.

  Framlag margra presta upp á síðkastið hefur verið okkur mikill liðsstyrkur sem viljum skilja að ríki og kirkju, kirjunni sjálfri til heilla. Þá losna söfnuðir við embættismenn og fá trúmenn til að stýra safnaðarstarfi.

 6. Loftur Altice Þorsteinsson skrifar:

  Ég vil þakka fyrir þessa úttekt á ábyrgð og siðfræði sumra Alþingismanna. Þar til ásökunum um undirmál Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur verið svarað, verður að telja að sekt þeirra sé >>meiri en minni

 7. » Þjóðkirkjan: Prestar láta í sér heyra af djörfung Erling Ólafsson skrifar:

  […] http://tru.is/pistlar/2010/09/profraun-althingismanna/ […]

 8. Hvítlaukssalt skrifar:

  Kannið mál nímenninganna!

 9. » E.t.v. brutu þingmenn lög þegar þeir komu sér saman um, - Grafarholtsbúinn sí nöldrandi skrifar:

  […] þegar þeir komu sér saman um, - Fært af Kristbjörn Árnason undir Stjórnmál, Umræðan. bakvísun  Geir í viðtali við FT: Pólitískir andstæðingar að jafna sakirnar * – að komaí veg fyrir að fyrrum ráðherrar færu fyrir landsdóm.   * Á örstuttum tíma taka ungir og langskólagengir guðfræðingar og raunar prestar einnig til máls um þjóðfélagsmál og beina orðum sínum til yfirvalda og ganrýna harðlega. Í fyrra skiptið var það þegar 50 ungir prestar tóku einarða afstöðu gegn þeim sem hafa á undanförnum árum verið afar slappir til verka vegna kynferðislegs ofbeldis sem virtist þrífast í vettvangi kirkjunnar. * Biskup Íslands er talinn hafa staðið sig afar illa og nýtur lítils trausts hjá þjóðinni. * Þá nú þegar 8 átta guðfræðingum ofbýður frammistaða Alþingis sem tókst að gera uppgjörsmál eru snéru að stjórnarskrárbrotum ráðherra að pólitískum skrípaleik.  * Um þetta má lesa á  Pistillinn á tru.is * Þeir segja orðrétt: „Enn einu sinni erum við, þjóðin, að horfa upp á stjórnmálastétt okkar falla á prófi. Það er sárt. Nú sem aldrei fyrr erum við í þörf fyrir traust og samstöðu til góðra verka. Tími uppbyggingar virðist enn ekki vera genginn í garð við Austurvöll.“ * Í hópnum eru sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, sr. Baldur Kristjánsson, dr. Hjalti Hugason, dr. Pétur Pétursson, sr. Sigrún Óskarsdóttir, dr. Sigurður Árni Þórðarson og dr. Sólveig Anna Bóasdóttir. Þetta fólk er ekki í tengslum við stjórn-málaflokka. * Áfram segir í greininni m.a. annars: „ að þegar vönduð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir virtist þingið ætla að bregðast við með ábyrgum hætti. Þingmannanefnd með fulltrúum allra flokka undir forsæti Atla Gísla-sonar var fengið það vandasama hlutverk að taka afstöðu til ályktana í skýrslu rannsóknar-nefndarinnar um ástæður efnahagsáfalla þjóðarinnar og hvaða lærdóm megi draga af þeim. Samstaða virðist um að þingmannanefndin hafi skilað góðri vinnu í þessu efni“. […]

 10. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Takk fyrir þennan pistil.
  Er algjörlega sammála megin-innihaldi hans og tel að niðurstaða kosningarinnar um ráðherraábyrgðina eigi sinn þátt í, að nú safnast fólk saman af miklum móð fyrir framan Alþingishúsið.

  Bendi jafnframt á, að í athugasemdunum hér að ofan virðist sem sr. Adda Steina og Skafti Harðarson geri sér ekki grein fyrir því, að það var ekki Alþingis að “ákæra” í málinu, heldur einungis að “kæra” viðkomandi ráðherra. Það er síðan saksóknarans, sem valinn verður, að ákæra. Þeim Skafta og Öddu Steinu er hins vegar vorkunn, því þingheimur, með allt lögfræðingastóðið í fararbroddi, virtist ekki heldur gera sér grein fyrir þessu lagatæknilega smáatriði í umræðunum á Alþingi.

 11. Hrafn Arnarson skrifar:

  Ég er að verulegu leyti sammála guðfræðingunum átta.Ákvarðanir og athafnir ráðherra eru taldar vanræksla í skilningi laganna um ábyrgð ráðherra. Ákvarðanir ráðherra eru að sjálfsögðu póltískar en það merkir ekki að í Landsdómi fari fram pólitísk réttarhöld og og t.d. á Stalíntímanum. Ráðherra hefur völd og ábyrgð í samræmi við það.(Af málflutningi sjálfstæðismanna mætti ætla að ráðherra ætti eingöngu að hafa hið fyrrnefnda.)Rangar ákvarðanir og vanræksla geta skaðað fjölda fólks. Sú virðist hafa orðið reyndin. Það er hlutverk Landsdóms að skýra nákvæmlega hvað í þessu felst. Samráðherrar Geirs sem nú sitja á þingi og í ríkisstjórn höfðu lagalegan rétt á því að taka þátt í umræðum og taka þátt í atkvæðagreiðslu. Öllum með eðlilega siðferðikennd má þó ljóst vera að allt þetta fólk er vanhæft. Sumir eru einnig vanhæfir vegna skyldleika og vensla. Þetta sýnir betur en margt annað hvers eðlis stjórnmálastéttin á Íslandi er. Ráðherraábyrgð fyrnist á 3 eða 4 árum. Þetta er vægt til orða tekið sérkennilegt. Í Noregi fyrnist ábyrgð á 15 árum. það er eðlilegra og í samræmi við eðli pólitískra ákvarðana.

 12. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ólína Þorvarðardóttir situr á Alþingi, hún var ein þeirra sem greiddu atkvæði. Hún svarar þessum pistli í greininni Þverbrestur þingsins sem birtist á Vísi.is í dag.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5247.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar