Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hjalti Hugason

Ekki lengur þörf fyrir guð — Guði sé lof!

Um daginn hafði Fréttablaðið (3. sept.) eftir ofurheilanum Stephen Hawking „að engin þörf sé fyrir guð til að útskýra tilurð heimsins.“ „Guði sé lof!“, var mín fyrsta hugsun. Sjaldan hefur samkrull trúar og náttúruvísinda lukkast vel til lengdar.
Einhvern veginn er það svo að mig minnir að yfirlýsingar af þessu tagi hafi oft komið fram áður þegar vísindamenn draga saman þræði eftir áratuga rannsóknir. Í ljósi nýjustu niðurstaðna og túlkana virðist þeim mannsandinn hafi unnið nýja sigra, tekist að leysa hina sístæðu gátu um upphaf heimsins, lífsins á jörðunni og mannsins, lífverunnar sem stöðugt spyr: Hvaðan kem ég og hvert fer ég? Þó hefur „guð“ alltaf skotið upp kollinum að nýju.

Sé hugað að hugmyndum eðlisfræðingsins Thomasar Kuhn um þróun þekkingar kemur hugsanlega á daginn hvers vegna guð hefur stöðugt verið dreginn fram að nýju sem vinnutilgáta í sambandi við upphaf heimsins. Samkvæmt líkani Kuhns þróast þekking okkar í stökkum sem verða þegar viðtekin þekking samsvarar ekki lengur nýjustu rannsóknarniðurstöðum eða svarar ekki nýjum spurningum sem þær vekja. Við slíkar aðstæður gliðnar ráðandi heimsmynd vísindanna smám saman uns hún lætur undan og ný ryður sér til rúms sem samsvarar betur þeim efasemdum sem vaknað hafa. Eftir slík heimsmyndarskipti ríkir um hríð jafnvægi, ný þekking þróast í ljósi nýrrar heimsmyndar. Senn taka þó efasemdir að vakna að nýju og þörf fyrir nýja byltingu eykst. Við þær aðstæður hefur oft verið gripið til vinnutilgátnnar „guðs“.

Sé þetta líkan viðurkennt sýna ummæli Hawkings fyrst og fremst hvar við erum stödd í þekkingarþróuninni. Við erum nú um stundir á hægu framfaraskeiði. Viðtekin þekking er í samræmi við ráðandi heimsmynd. Tilgáturnar um upphaf alheimsins virðast ganga upp. En er líklegt að hér eftir muni ríkja óbreytt ástand, „status quo“? Vonandi ekki. Við skulum vænta þess að í framtíðinni muni nýjar spurningar vakna, þörf fyrir nýja heimsmynd þrýsta á og hún í fyllingu tímans ryðja sér til rúms. Annað væri stöðnun. Eða erum við komin að útmörkum þekkingarinnar? Geta náttúruvísindin nú sagt sitt amen eða Q. E. D. eftir efninu?

Ég sé ekki að yfirlýsing á borð við þá sem höfð var eftir Hawking skipti nokkru máli fyrir guðstrú, kristni eða guðfræði. Ekki vegna þess að guðfræðingar eða trúfólk almennt hljóti að afneita tilgátum eða þekkingu þeirra sem hugsa á sömu brautum og hann. Þvert á móti geta tilgátur um alheim sem skapar sig sjálfur úr engu verið heillandi. Mergurinn málsins er aðeins sá að spurningar um upphaf heims, lífs og manns eru ekki uppistaðan í trúarlegri hugsun heldur spyr hún um tilgang, markmið og merkingu. Trúfólk spyr ekki fyst og síðast: Hvaðan kom ég?, heldur: Til hvers er ég hér og hvert er hlutverk mitt? Það finnur ekki tilgang sinn í tilgátum um upphaf lífs og heims í órafjarlægð tíma og rúms heldur í samfélagi manna og í samfélagi við Guð hér og nú. Fyrir því er Guð ekki nauðsynleg vinnutilgáta um upphaf heimsins. Þvert á móti getur slíkur samruni trúarlegrar og náttúruvísindalegrar hugsunar villt því sýn og dregið athygli þess frá því sem máli skiptir — leitinni að tilgangi og merkingu lífsins. Í glímunni við þann leyndardóm má vísa í ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk:

Og værir þú ei til að hlusta frá hæðum
á hjarta mitt slá
og veita mér huggun og verja mig falli
og vekja mér þrá
og sefa minn ótta við eilífan dauða
í afgrunnsins hyl,
já, værir þú ei til að vaka mér yfir,
ég væri ekki til.

Hér er Guð ekki sá sem upphafinu veldur heldur sá sem hlustar, huggar, ver, vekur, sefar og vakir yfir, þ.e. gefur merkingu og mið.

P.s. Til að raska ekki jafnvægi ljóðsins skal þess getið að fyrr erindi þess hljóðar svo:

Ef lifði ég ei til að lofsyngja nafn þitt
í ljóði og mynd
og óttast þig reiðan og ákalla náð þína
í angri og synd
og reisa þér musteri, færa þér fórnir,
hve fátt, sem ég skil,
og verja þinn málstað og vígja þér börn mín,
þú værir ei til.

Skáldið nefnir ljóðið „Jafntefli við Guð“ á sinn glettna hátt.

Um höfundinn9 viðbrögð við “Ekki lengur þörf fyrir guð — Guði sé lof!”

 1. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Takk fyrir þessa grein, Hjalti.

  Fann eftirfarandi á CNN um þá staðhæfingu Hawking að ekki sé lengur þörf fyrir Guð til að útskýra sköpunina:

  “Hawking says in his book “The Grand Design” that, given the existence of gravity, “the universe can and will create itself from nothing,” according to an excerpt published Thursday in The Times of London.

  “Spontaneous creation is the reason why there is something rather than nothing, why the universe exists, why we exist,” he writes in the excerpt.”

  Athygli vekur að Hawking gefur sér þyngdarkrafta sem forsendu fyrir fullyrðingunni. Hins vegar hljóta menn að spyrja, hvar þyngdarkrafta sé að finna þegar ekkert er til staðar. Og hvernig ættu slíkir kraftar eiginlega að verka?

  Í rauninni má segja, að Hawking geri þyngdaraflið að einskonar guði og primus motor. Kannski þyngdarafl sé eiginleiki Guðs, sem við guðfræðingar höfum ekki ennþá gefið nægan gaum?

 2. Stefán Einar Stefánsson skrifar:

  Þakka þér ágætan pistil Hjalti sem setur fókusinn á réttan stað!

 3. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  - Tek fram, að auðvitað verður áhugavert að sjá hvernig Hawking útfærir þetta svo í bókinni, sem væntanleg er á markað. Sýnist mér hún bera heitir “The Grand Design.” Samkvæmt þessu hlýtur að mega draga þá ályktun að þyngdaraflið sé “The Grand Designer.”
  Annars gæti þessi umræða öll sem best verið skipulögð af útgefendum til að auglýsa bókina.

 4. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Kannski er Guð einfaldlega ekki til. Hafið þið spáð í þeirri hugmynd eða gefið þið “ofurheilarnir” ykkur einfaldlega þá forsendu að fyrirbærið sé til?

 5. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Svar til Matthíasar.

  Auðvitað velta guðfræðingar þeim möguleika, að Guð sé ekki til, fyrir sér því hann er jú alltaf til staðar. Hinn möguleikinn, að hann sé til, er hins vegar einnig til staðar og við veltum því fyrir okkur hvernig hægt sé að fjalla á hverjum tíma um þann möguleika. Einnig má velta fyrir sér hvort hægt sé að tala um guð án þess að nokkur verufræðileg hugtök komið þar við sögu.

 6. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ef að það kemur í ljós að tilurð heimsins var algjörlega náttúrulegt fyrirbæri, þarf þá ekki að uppfæra fyrstu línuna í Postullegu trúarjátningunni?

 7. Sigurður Árni Þórðarson skrifar:

  Skemmtileg grein og skynsamleg. Reyndar hafa allir vetrænir guðfræðingar í kjölfar Kant gert sér grein fyrir að orðræða guðfræðinnar er ekki afleiða raunvísinda. Guðfræði 19. aldar er mettuð uppgjöri við forkrítíska og forvísindalega hugsun.

 8. Carlos skrifar:

  Trú hefur mjög lítið með ofurheila að gera, frekar en önnur samskiptaform sem mannskepnan hefur tileinkað sér, Matti. Allir trúmenn efast um tilvist Guðs, sumir oftar en aðrir.

  Trúin er eins og hjónabandið (fjarbúð?) að því leyti að maður þarf að rækta hana, til þess að hún sé farsæl og uppbyggjandi.

  Stundum er hún eins og rússíbanareið (hópsefjun/sjálfssefjun?), en oftast er hún viljaverk og verður persónueinkenni þess sem trúir (lífsviðhorf/lífsfylling).

  Fyrst og fremst er hún samband Guðs og manns. Innan þess sambands er eins og Guð sé foreldri sem gætir manns. Sem slíkur er hann skapari alls hins sýnilega og ósýnilega, alls lífs og endir alls sem er. Á þeim forsendum get ég tekið heilshugar undir fyrstu grein postullegu túarjátningar, án þess að leita til kenninga um vitsmunasköpun eða loka augunum fyrir uppgötvun vísindanna.

 9. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  > Allir trúmenn efast um tilvist Guðs, sumir oftar en aðrir.

  Ég er nú sérstaklega að vísa til þeirra trúmanna hér sem boða tilvist eins tiltekins guðs eins og sú tilvist sé óvéfengjanleg staðreynd.

  “Ofurheili” er tekin úr færslunni hér fyrir ofan.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5284.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar