Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hjalti Hugason

Þjóðkirkjan — valdaflokkur eða grasrótarhreyfing?

Grasrót

Um liðna helgi fékk heill hópur fólks falleinkunn. Það reyndist hafði einangrast í lokuðu umhverfi og tala mál sem hætt er að höfða til almennings. — Nei, hér er ekki verið að hjakka á prestum Þjóðkirkjunnar. Þau sem átt er við er stjórnmálastétt landsins og þau sem verst urðu úti eru frambjóðendur gömlu flokkanna fjögurra í stærstu sveitarfélögum landsins.

Stöðnun eða endurnýjun

Flest atvinnufólk í íslenskum stjórnmálum er alið upp í ungliðafélögum flokkanna og hefur skólast þar í frösum og plotti. Margt hefur það keypt sér efstu sætin á listum flokkanna af eigin efnum eða með styrkjum frá stórfyrirtækjum. Uppboðsmarkaðurinn gengur undir heitinu prófkjör. Þess eru jafnvel dæmi að ætterni skili fólki í forystusæti. Þegar til lengdar lætur veldur slíkur bakgrunnur stöðlun og stöðnun. Í sveitarstjórnakosningunum sagði þjóðin hingað og ekki lengra. Í kjölfarið hljóta flokkarnir að ákveða hvort þeir ætla að taka þátt í endurnýjuninni eða einangrast enn frekar.
Kosningarnar og úrslit þeirra sýna að með þjóðinni býr umbótavilji, kraftur og djörfung. Fólk situr ekki auðum höndum. Þau eru mörg sem tilbúnin eru til að taka frumkvæði. Margir hafa bent á að ástand á borð við það sem nú ríkir bjóði hættum heim. Þegar vantraust og þreyta ríkir í garð stjórnmálaflokka sem ætlað er að efla lýðræðið er hætt við að öfgaöfl grafi um sig. Það hefur ekki gerst okkar á meðal. Það er þó ekki sjálfsagt að svo verði áfram. Það er sameiginleg skylda okkar allra að koma í veg fyrir að það gerist. Við þurfum sennilega helst að vera á varðbergi gegn þjóðernisöfgum. Sterkt þjóðarstolt gæti komið okkur í koll ef við gætum okkar ekki.

Hvert vill Þjóðkirkjan að stefna?

Í kjölfar kosninganna ætti Þjóðkirkjan að íhuga stöðu sína og hlutverk. Í ljósi eðlis síns og sögu getur hún valið hvorum hún vill samsama sig með, gömlu flokkunum fjórum eða grasrótarhreyfingunum sem víða eru að spretta fram í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar og nú síðast við sveitarstjórnaskosningarnar. Í aðra röndina er Þjóðkirkjan stofnun með fast skipulag, uppbyggingu, menningu og orðfæri. Að því leyti á hún sammerkt með stjórnmálaflokkunum og öðrum valdastofnunum. Út frá öðrum bæjardyrum séð er Þjóðkirkjan almannasamtök, félagshreyfing. Að því leyti er hún í takt við þau öfl sem tóku völdin í Reykjavík, á Akureyri og víðar í nýafstöðnum kosningum. Hvorum megin hryggjar kjósum við þjóðkirkjufólk að lifa og starfa á komandi tíma?

Margt bendir til að framundan sé mikil félagsleg gróska á Íslandi þar sem vegur almannasamtaka, grasrótarhreyfinga og sjálfboðins starfs fer í vöxt. Í slíku umhverfi hefur Þjóðkirkjan mikilvægu hlutverki að gegna. Hún býr að félagslegu neti sem spannar landið allt. Víða er hún einn mikilvægasti þátturinn í nærumhverfi fólks. Enn er hún líka í hópi þeirra samtaka sem reglulega nær til hvað flestra eða hvaða félag safnar jafnmörgum til vikulegra samfunda og hún? Við núverandi aðstæður ber Þjóðkirkjunni að taka höndum saman við öll þau samtök sem vilja efla félagslegt starf, beina því í hollan farveg og byggja upp Nýtt Ísland. Þannig verður hún áfram þjóðkirkja í jákvæðri merkingu.

Um höfundinn10 viðbrögð við “Þjóðkirkjan — valdaflokkur eða grasrótarhreyfing?”

 1. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir þennan pistil Hjalti.

  Orð í tíma töluð og frábær útlegging á niðurstööum sveitastjórnarkosninganna.

  Mikilvægt það sem þú segir um að þjóðkirkjan eigi að taka höndum saman við öll þau samtök sem vilja efla félagslegt starf, beina því í hollan farveg og byggja upp Nýtt Ísland.

  Það er verkefni dagsins.

 2. Gudmundur Pálsson laeknir skrifar:

  Mér dettur i hug ad kirkjan verdi einnig ad gaeta sín á thví ad verda ekki stundlegum pólitískum öflum ad brád. Kirkjan sem stofnun á td. ad gaeta sín ad segja ekkert um kosningar thó einstaklingar innan hennar geti verid rammpólitískir á prívatplaninu.

  Ad mínu áliti er fagnadarerindid og kristinn sidferdisbodskapur sú allra róttaekasti bodskapur sem haegt er ad hugsa sér innan um veraldlegt pólitískt thras og thar á kirkjan virkilega ad beita sér til ad koma Íslandi á koppinn aftur.

 3. Sigurður Árni Þórðarson skrifar:

  Heyr, heyr, Hjalti.

 4. Gísli Gunnarsson skrifar:

  Það eru margar fullyrðingar í þessum pistli sem ekki fá staðist. Um allt land starfar fjöldi fólks að sveitarstjórnarmálum. Víðast hvar býður þetta fólk sig fram til starfa undir merkjum stjórnmálaflokka eða lista með ákveðna stefnu fyrir viðkomandi byggðarlag. Víðast hvar vinnur þetta fólk af heilindum. Yfir 90% þeirra er ekki “alið upp í ungliðafélögum flokkanna og hefur skólast þar í frösum og plotti.” Fæstir þeirra hafa fengið persónulega styrki til framboðs. Flest af þessu fólki fékk ekki falleinkunn s.l. helgi. Mér finnst þessi pistill senda fólki um allt land heldur kaldar kveðjur. Fólki sem leggur mikla vinnu og tíma í þágu annarra og vinnur n.k. samfélagsþjónustu. Hins vegar er pistillinn gott innlegg í þann pólitíska réttrúnað sem nú virðist inni, þ.e. að stjórnmál séu leiðinleg. Pistillinn getur í besta falli átt við eitt sveitarfélag í landinu og því fyndist mér að hann ætti að halda sig við það, í stað þess að alhæfa á landsvísu. Og þó að aðeins sé rætt um stærstu sveitarfélögin stenst hann ekki. L-listinn á Akureyri er t.d. ekki nýr flokkur. Ef allt sem á sér einhverja sögu og hefðir er úti núna, þá á kirkjan sér vissulega ekki von.
  Vona að kjánahrollurinn sem hlýtur að hrjá Reykvíkinga verði ekki til skaða.

 5. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Það er rétt hjá Guðmundi Pálssyni að stundum verður kirkjan að passa sig á því að verða ekki pc-öflunum að bráð (pc = political correctness; er nýbúinn að læra þetta) þó vitaskuld geti hún stundum verið pc eins og t.d. í þeim málefnum samkynhneigðra sem nú eru uppi en þegar svo er þarf kirkjan líka að geta fært guðfræðleg rök fyrir afstöðu sinni.

  Þökk fyrir skemmtilegan pistil og góð varnaðarorð; orðfæri má aldrei verða svo staðlað að það hætti að miðla merkingu og verði að innantómum frösum.

 6. Björn Erlingsson skrifar:

  Sæll Hjalti, takk fyrir pistillinn. Við í þjóðkirkjunni eigum líka að skoða lýðræðishefðina sem við búum við. Þar er víða stöðlun og kunningjaveldi í gangi. Betur má ef duga skal.

 7. Gudmundur Pálsson laeknir skrifar:

  Kaeeru vinir. Tilfinning mín er thessi en kannski viljid thid mótmaela thessu: Kirkjan er á okkar tímum ávallt grasrótarhreyfing. En á allsendis ödrum forsendum en pólitískar hreyfingar eru. Hún hefur rótina fasta í kristinni trú, í djúpri og merkri hefd okkar sem í raun fáir thekkja og Ritningunni sjálfri sem jafnvel enn faerri thekkja vel.

  Thetta eru sérstakir tímar vinir mínir og ekki dugar ad adhyllast annad en Jesúm Krist Drottinn vorn. Hann er hér okkur til leidsagnar og Hann mun ekki bregdast. Thetta er leyndardómurinn á bakvid samfélag okkar trúudu. Vid verdum ad vera stödugir. Stöndum saman braedur og trúadar systur.

 8. Gudmundur Pálsson laeknir skrifar:

  Ég vildi segja undir lokin: Vinir mínir. Látum enga veraldlega söfnudi stjórna okkur. Verum stödugir, trúfastir og heilagir. Gud leidir og einginn annar.

 9. Katrín Ásgrímsdóttir skrifar:

  Núna eru vissulega tímar umróts og margir eru leitandi. Úrslit sveitarstjórnarkostninganna sýna það ljóslega. Um þetta er ég sammála greinarhöfundi. En hvað er grasrót í samhengi sveitarstjórnarmála? Er það ekki bara fólkið sem er að baki þeirra sem kosnir eru. Sú lýsing sem hér er dregin fram um fólk sem starfar að sveitarstjórnarmálum er fjarri sanni. Langflestir sem þar starfa gera það af hugsjón fyrir sitt samfélag, alveg sama á hvaða lista það býður sig fram. Þó að nokkrir einstaklingar í Reykjavík hafi fengið hér fyrir nokkrum árum mikla styrki til að taka þátt í prófkjörum þá er það mikil undantekning í þeim stóra hópi fóks sem starfar í sveitarstjórnum fyrir sitt samfélag. Margt af þessu fólki, og ég hef persónulega reynslu af því, sækir námskeið í aðdraganda kosninga. Ekki til að læra “frasa og plott” heldur til að læra um málefni sveitarstjórna og efla sig í ræðumensku.
  Það er gott að nýtt fólk kemur fram á nýjum forsendum til að starfa fyrir sitt samfélag. Kirkjan þarf vissulega einnig að finna nýjar leiðir til að ná til fólks og efla möguleikana til að Guðs andi fái mótað samfélagið. En í því samhengi verðum við að koma fram með umburðarlyndi og taka höndum saman við alla þá sem vilja starfa samfélaginu og Guðs ríki til heilla.

 10. Hjalti Hugason skrifar:

  Ég þakka viðbrögðin við pistli mínum.

  Sum sem brugðist hafa við hefðu þó mátt lesa textann örlítið betur. Pistillinn er vissulega skrifaður í kjölfar sveitarstjórnakosninga en hann víkur alls ekki að sveitarstjórnafólki almennt. Þau sem sneitt er að eru „frambjóðendur gömlu flokkanna fjögurra í stærstu sveitarfélögum landsins“ og „atvinnufólk í íslenskum stjórnmálum“.

  Ég veit alveg að sveitarstjórnarfólk um land allt er að vinna góð verk af góðum huga. Ég þakka fyrir það! Það er hins vegar erfitt að horfa framhjá því að „stjórnmálastéttin“ var að fá neikvæða umsögn í kosningunum. — Eða hvað?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3902.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar