Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Valhöll eða paradís

G8 hópurinn

Í fornum sið var haft fyrir satt að vopndauðir menn færu til Valhallar en risu síðan upp að morgni og berðust á ný. Vopndauði var þáttur í ímynd hetjunnar sem átti sér trygga endurkomu. Hrynjandi daganna var hin sama. Allt hneig í sama far, hringrás og endurreisn var tryggð. Lífið sigraði dauðann en til hvers? Er slík stríðshyggja eftirsóknarverð, vopnaglamur, hreystisókn, blóðsúthellingar, dauði hetju sem vaknar síðan til sama leiks á nýjum morgni, dag eftir dag?

Endurnýjun í stað endurtekningar

Páskar eru önnur mynd endurnýjunar. Á páskum fagna kristnir menn sigri lífsins. Þar er ekki hrósað sigri hetju sem gengur til orustu heldur þess sem ögrar ofbeldinu með því að leggja niður vopn. Páskar eru hátíð sem hyllir lífið og allt sem stuðlar að eflingu þess. Kristinn upprisuboðskapur gengur út á það að allt verði nýtt. Ekkert er sem áður. Hringrás ofbeldis og eiginhagsmunahyggju er rofin. Ekki skal lengur haldið í fals og lygi. Kristinn upprisuskilningur umbreytir öllu. Ekki er sóst eftir meiru af því sama heldur upprisu til nýs lífs. Páskar opna veröldina og bjóða mönnum til róttækrar endurskoðunar á lífsháttum og gildum.

Hvernig veröld viljum við?

Á örlagatímum í sögu okkar reynir á gildi. Hverskonar veröld viljum við byggja okkur og börnum okkar? Viljum við lífshætti af því tagi sem Jesús Kristur tjáði eða fýsir okkur frekar að leika víkinga í útrás? Því miður minnir samtíðin fremur á forn-heiðinn hugsunarhátt en kristinn. Svo virðist að æ fleirum sé það keppikefli að komast í gamla gírinn, rísa upp og berjast með sömu vopnum og áður. Boðskapurinn er einfaldur: Virkjum, byggjum orkufrek iðjuver, stuðlum að hergagnaframleiðslu og höldum í nýja útrás, nú með aðeins beittari vopnum og betri markaðssókn. Að kvöldi skulum við ekki falla. Markmiðið virðist vera það eitt að þjóðin nái sér á strik að nýju án þess að nokkuð breytist í grunninn, án þess að nokkuð sé hugsað upp á nýtt. Hvar örlar á nýrri stjórnarskrá, auknu lýðræði, öðrum samtalsmáta, breyttri afstöðu til náungans, til landsins? Hvar bregður fyrir nýrri birtu? Er Valhöll virkilega okkar sögustaður og því engin þörf fyrir páskasól og boðskap um að lífið lifi og fallnir menn megi breytast til hins betra

Stöðnun frekar en endurnýjun

Svo virðist sem margir vilji ekki rísa upp til nýrra og betri hátta en vilji frekar endurtaka leikinn frá í gær. Þetta má ekki viðgangast. Við þurfum að vera tilbúin til að hugsa hlutina upp á nýtt. Við eigum að fagna hinu nýja lífi, tileinka okkur nýjan hugsunarhátt, nýja samskiptahætti. Við getum ekki boðið komandi kynslóðum upp á meira af því sama.

Um höfundinn5 viðbrögð við “Valhöll eða paradís”

 1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Það er hluti af hinum kristna upprisuboðskapi (amk er það í játningum trúfélagsins sem þið ákveðið að birta greinina ykkar hjá) að þeir sem eru ekki í “vð”-hópnum munu verða sendir í eilífar kvalir af hinum upprisna. Allt tal um að þetta “ögri” ofbeldi er afskaplega fjarstæðukennt í því ljósi.

 2. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Hvernig væri nú að svara Hjalta? Þið hafið sjálf óskað eftir samræðu. Hún er ekki alltaf auðveld.

 3. Kristinn skrifar:

  Sælir guðfræðingar,

  Ég skrifaði smá svar við þessari grein sem þið gætuð haft gaman af að kíkja á.

  http://kt.blog.is/blog/kt/entry/1037693/

  mbk,

 4. Kristinn Theódórsson skrifar:

  Takk fyrir svarið mín megin, Baldur Kristjánsson.

  Ég hef nú svarað þér aftur:

  http://kt.blog.is/blog/kt/entry/1037693/#comment2839321

  mbk,

 5. Svanur Sigurbjörnsson skrifar:

  Ef til vill var ýmislegt í kristninni sem tók ásatrúnni fram, en skuggahliðar kristninnar (valdabröltið og fégræðgin) gerðu næstum því út af við björtu hliðarnar, þannig að það er fjarska erfitt að sjá að kristnin hafi komið betur út í sögulegu samhengi. Endurreisnin og upplýsingin með sínum húmanísku áherslum breyttu kristninni síðustu 5 aldirnar þannig að nú er hún næsta meinlaus kærleikstuggustofnun sem hýsir listviðburði (sorry - pínulítið að stríða ykkur).
  Djöfullinn er dauður og í gleymsku yfir minningu hans getið þið hin kátu G8 átalið vopnaglamur Valhallar.
  Þið segið:

  Því miður minnir samtíðin fremur á forn-heiðinn hugsunarhátt en kristinn.

  Hvað segir þetta um kristnina? Þjónar Þjóðkirkjunnar stæra sig gjarnan af því að yfir 90% þjóðarinnar séu skráðir í kristna söfnuði og vilja þannig gefa í skin að svo hátt hlutfall þjóðarinnar sé kristið. Sé þetta rétt (sem það er ekki því skv. Gallup 2004 játa um 50% kristna trú), hvað segir það þá um ykkar vakt? Þið viljið gjarnan eigna ykkur heiðra en hvar er ábyrgðin þegar illa gengur? Voru “útrásarvíkingarnir” ásatrúarmenn upp til hópa?
  Heiðin gildi voru mörg hver ákaflega fín og bera Hávamál þess fagurt vitni. (Þar er t.d. vináttan í miklum heiðri höfð, en í Biblíunni er hún hvergi nefnd beinum orðum.) Gleymdist það algerlega þegar inngangur að kafla Aðalnámsskrár í faginu Kristinfræði, siðfræði og trúarbrögð, var skrifaður. Þar er eingöngu minnst á kristin gildi, rétt eins og ásatrú hafi ekki verið til. Þau skrif eru höfundunum til skammar.
  Skrif ykkar eru annars að mörgu leyti fín og þið nefnið oft ágætis atriði til uppbyggingar án þess að guðfræðin flækist fyrir. T.d. lokamálsgrein ykkar hér er ljómandi. Við þurfum öll að vakna og hugsa þjóðfélagið upp á nýtt.
  Kveðja - Svanur

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4615.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar