Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Trúverðug kristni

Stúlka með kross

Það er aðventa og allt í kringum okkur sjáum við merki um að  eitthvað er í vændum.  Ljós á húsum og trjám, jólalög í útvarpi, auglýsingar og tilboð um hluti til kaupa, tónleika og listviðburði til að njóta, eru tákn um það sem er í nánd. Við heyrum líka áköll og áminningar um að veita hjálp og aðstoð þeim sem minna mega sín. Á þessum tíma er við hæfi að staldra við, horfa í kringum sig og lesa táknin í umhverfi okkar.

Að lesa samfélagið

Við sem eigum skólabörn, vitum hvað það er magnað og flókið ferli að læra að lesa.  Með mikilli þrautseigju og þolgæði, og ótal upplestrarstundum fyrir mömmu og pabba, lærist barninu að skilja að bókstafir og hjóð mynda orð, sem mynda setningar, sem hafa merkingu. Þar með opnast því heill heimur sem það hefur aðgang að, getur lært, skilið og túlkað.

Læsi er ekki bara að  kunna á stafi, orð og setningar. Læsi í samtímanum snýst ekki bara um að geta tileinkað sér þekkingu og staðreyndir, heldur líka að geta metið það sem við lesum og heyrum á gagnrýninn hátt og skoðað í ljósi þess sem við metum mest í lífinu.Það gerir okkur kleift að tala saman um gildi og verðmæti, og að leggja okkar að mörkum við að móta umhverfið okkar.

Að lesa trúna

Á aðventunni eru víða haldnir jólatónleikar tónlistarskólanna þar sem ótrúlega mörg börn mæta í fylgd stoltra fjölskyldna til að deila gleði tónlistinnar sem þau hafa verið að nema í haust og vetur. Fegurðin og gleðin sem ríkir yfir unga tónlistarfólkinu er eitt af þeim táknum sem okkur er gefið til að minna okkur á það sem skiptir máli í lífinu, sérstaklega á tímum sem valda okkur ugg og kvíða. Þetta tákn vísar í tvær áttir.

Önnur talar við okkur um aðstæður og þarfir barnanna okkar, og minnir á ábyrgð okkar fullorðnu að hlusta á þau, lesa það sem þau hafa fram að færa og hlúa að þeim.

Hin áttin vísar til barnsins sem við bíðum eftir á aðventunni. Það er barnið sem stendur fyrir ljós í myrkri, birtu í kulda, kærleika í tómlæti og gleði í kreppu.  Það er barnið sem var sent í heiminn til að kenna mönnunum að lesa lífið, svo þeir gætu notið þess í fullri gnægð.

Það er farsælt og til heilla að vera læs á táknin í kringum okkur og þar með talið að vera læs á sína eigin trú. Rétt eins og við erum tilbúin að leggja heilmikið á okkur þannig að börnin okkar læri að njóta tónlistararfsins berum við ábyrgð á því að þau hafi aðgang að trúararfinum og geti notið hans.  

Að lesa þarfir

Það er ábyrgðarhluti að lifa í nútíma samfélagi, að vera upplýst, læs og geta tekið þátt í lýðræðisumræðu. En ábyrgðin stoppar ekki þar heldur felur hún líka í sér að við eigum að vera þjónar hins góða og talsmenn vonar í samfélaginu.

Svo þarf stíga næsta skref. Jesúbarnið sem kemur býður okkur ekki aðeins að læra af sér og tala heldur kallar það okkur til þjónustu við lífið. Hin fjölþætta áskorun aðventunnar er þá þessi: Að við hlustum, horfum, lesum og þjónum. Tölum um hið góða líf og þjónum því í öllu sem við gerum. Höfum augun opin fyrir táknunum kringum okkur. Fyrir táknum um fegurð, gleði og von, lyftum þeim fram og minnum á þau. Fyrir táknum um það sem er ekki í lagi: um fjölskyldur sem líða skort, um fólk sem er troðið á, um misrétti, um misferli, um börn sem fá ekki að vera börn.
Við eigum að haga eigin lífi þannig að það sé tími og rými til að láta gott af okkur leiða. Við eigum að láta okkur annt um þau sem þarfnast – til dæmis með því að gefa mat, peninga eða tíma til hjálparstofnanna sem sinna fólki nú fyrir jólin. Við eigum að forgangsraða þannig að börnin okkar finni hvers virði þau eru. Við eigum að vera málsvarar réttlætis, sáttar og vonar í samfélaginu.

Það er trúverðug kristni.

Um höfundinn16 viðbrögð við “Trúverðug kristni”

 1. Þorkell Á. Óttarsson skrifar:

  Falleg hugleiðing.

 2. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Sammála. Falleg og góð lesning!

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Rétt eins og við erum tilbúin að leggja heilmikið á okkur þannig að börnin okkar læri að njóta tónlistararfsins berum við ábyrgð á því að þau hafi aðgang að trúararfinum og geti notið hans.

  Hvað eigið þið við með þessu?

  Mér þykir dálítið fróðlegt að í grein um trúverðuga kristni er ekkert minnst á Gvuð og bara einu sinni á Jesúbarnið, ekkert á fullorðinn Jesús :-)

  Trúverðug kristni hljómar eiginlega dálítið eins og eitthvað allt annað en kristni!

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Takk fyrir viðbrögðin.

  Mér þykir það ánægjulegt er greinin okkar hefur komið á óvart og ekki síður ef hún varpar nýju ljósi á kristni. Vonandi verður það til að auka skilning, víkka sjóndeildarhring og mögulega skerpa fókus.

 5. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Árni Svanur, takk fyrir að svara ekki. Hvað eigið þið við með því að börn hafi aðgang að trúararfinum og geti notið hans?

 6. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ja, í því felst meðal annars að ræða við börnin um Guð, um Jesúbarnið, um hinn fullorðna Jesú.

  Fyrir nokkrum árum heyrði ég viðtal við Bjarna Karlsson, sóknarprest í Laugarneskirkju. Hann var spurður um það hvað fælist í kristilegu uppeldi.Hann svaraði eitthvað á þá leið að ef barn sem stæði á þröskuldi fullorðinsáranna hefði þá tilfinningu að það væri óendanlega dýrmætt og að það gæti aldrei, sama hvað á gengi, lokast inni í neinum aðstæðum, þá mætti segja að það hefði fengið kristilegt uppeldi.

  Ég bloggaði um þetta á sínum tíma.

 7. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Ja, í því felst meðal annars að ræða við börnin um Guð, um Jesúbarnið, um hinn fullorðna Jesú.

  Á hvaða forsendum þá? Á þeim forsendum að Guð og Jesú séu til?

  Hann svaraði eitthvað á þá leið að ef barn sem stæði á þröskuldi fullorðinsáranna hefði þá tilfinningu að það væri óendanlega dýrmætt og að það gæti aldrei, sama hvað á gengi, lokast inni í neinum aðstæðum, þá mætti segja að það hefði fengið kristilegt uppeldi.

  Ef hann hefði bara sagt þetta myndi ég að sjálfsögðu segja að þetta væri ekki kristilegt uppeldi heldur einfaldlega gott uppeldi, en eins og þú bendir á í bloggfærslu þinni sagði hann einnig að í þessu fælist að barni “á reynslu af guðssamfélaginu, það á bænamál, bænamál.”

  Ég skildi grein ykkar þannig þegar ég las hana í blaðinu að þið væruð að tala um öll börn en eruð þið semsagt einungis að tala um börn kristinna foreldra?

 8. Ragnheiður Karítas skrifar:

  Góður pistill. Vekjandi og fallega skrifaður. Takk fyrir.

 9. Þórður Guðmundsson skrifar:

  Nú er ég mjög gagnrýnin á þann texta sem ég les svona, hvort sem það er hugleiðing eða prédikun. Þessi texti er fínn og vel skrifaður. Til hamingju með það. Mér finnst samt ekki nóg að skrifa bara svona fallegan texta. Það verður að lifa hann líka.
  Verst finnst mér að upplifa góða prédikara sem ná svona góðum stíl og góðri hugsun en eru síðan uppskrúfaðir, með nefið upp í loftið og vilja hlaupa í burtu þegar maður vill taka í höndina og segja takk. Ég hef reynslu af slíku og ég vil ekki sjá svoleiðis. Takk annars fyrir mig.

 10. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Það er barnið sem var sent í heiminn til að kenna mönnunum að lesa lífið, svo þeir gætu notið þess í fullri gnægð.

  Kom Jesús í heiminn “til að kenna mönnum að lesa lífið, svo þeir gætu notið þess í fullri gnægð”? Var það ástæða holdgunarinnar? Var barnið ekki sent í heiminn svo að það gæti verið drepið fyrir syndir okkar?

 11. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Matthías: Já, á þeim forsendum.

  Varðandi uppeldið þá er þetta kannski dæmi um það hvernig sjónarhornið okkar mótar það sem við sjáum (og lesum). Trúmaðurinn sér í yrðingu Bjarna ákveðinn kjarna í kristilegu uppeldi og þú sérð almenn orð um uppeldi. Báðir getum við þó verið sammála um að barn sem á þessa grunntilfinningu hefur hlotið gott uppeldi.

  Varðandi þetta með trúararfinn þá þykir mér mikilvægt að öll börn fái notið hans, en auðvitað með ólíkum hætti. Þekking á kristnum trúararfi skipti miklu máli fyrir okkar læsil okkar á menninguna, svo dæmi sé tekið. Auðvitað er það síðan svo að börn sem eru alin upp í kristinni trú nálgast hana með öðrum hætti en þau sem standa utan kristinna trúfélaga. Það finnst mér sjálfgefið.

  Ragnheiður Karítas: Takk fyrir viðbrögðin.

  Þórður: Þakka þér fyrir viðbrögðin þín. Ég er alveg sammála þér, við eigum að vera samkvæm sjálfum okkur.

  Hjalti Rúnar: Eins og þú veist vel eftir að hafa tekið inngangsnámskeið í sögu guðfræðinnar þá hafa guðfræðingar ólíka sýn á tengsl holdtekju og kross. Hitt er svo annað mál að við erum ekkert að ræða það í þessum pistli.

 12. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Varðandi uppeldið þá er þetta kannski dæmi um það hvernig sjónarhornið okkar mótar það sem við sjáum (og lesum).

  Láttu ekki svona Árni, þú vitnaðir bara í hluta textans og slepptir trúarvinklinum :-) Sjónarhornið var því augljóslega skekkt.

  En já, ég gerði semsagt ráð fyrir að þið væruð að tala um kristilegt uppeldi, þ.e.a.s. að ala barn upp í kristinni trú, en mér þótti það samt frekar dulið í greininni.

  ps. Hvað veldur því að þið eruð aftur farin að ritskoða athugasemdir?

 13. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Hjalti Rúnar: Eins og þú veist vel eftir að hafa tekið inngangsnámskeið í sögu guðfræðinnar þá hafa guðfræðingar ólíka sýn á tengsl holdtekju og kross. Hitt er svo annað mál að við erum ekkert að ræða það í þessum pistli.

  Ég kláraði nú ekki það áhugaverða námskeið (minnir að ég hafi skráð mig úr því) þannig að það er ekki að furða að ég sé ekki svona sleipur í þessari guðfræði. En ég gæti svo svarið það að kristnir menn væru almennt (amk þeir “rétttrúuðu”) að guð hefði gerst maður svo hann gæti drepist fyrir syndir okkar, ekki til þess að koma með einhverjar sjálfshjálparleiðbeiningar.

 14. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  …en eins og þú segir þá er þetta aukaatriði í greininni, en það er áhugavert ef íslenskir prestar eru hættir að pæla í öllu þessu “dó fyrir syndir þínar”-tali.

 15. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Matthías, Ég held reyndar að Bjarni hafi verið að gera það sama og við erum að reyna í þessum pistli: Að tala um trúna með svolítið öðruvísi hætti, út frá mannlegri tilvist. Mér finnst honum takast ágætlega upp :)

  Ummælin þín við pistil Hjalta voru stöðvuð af kerfinu vegna þess að það eru tveir tenglar í þeim. Það er kæfuvörnin sem sá um að stoppa þetta en í því felst engin afstaða til þess sem þú skrifar.

  Hjalti Rúnar: Í Postillunni á trú.is eru fjölmargar prédikanir sem sýna að prestarnir eru heilmikið að pæla í krossi, dauða og synd. Til dæmis fjöldi prédikana sem hafa verið fluttar á föstudeginum langa.

 16. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Það hlaut að vera Árni (varðandi vísanir) en þið þurfið nú að fara að læra að stilla kerfið - það er lítið mál að gefa póstföngum forgang yfir vísanir (ef póstfang hefur verið notað áður hefur það hærra vægi en 2-3 vísanir).

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5956.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar