Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Jólin – friðarboðskapur eða ævintýri?

G8 hópurinn

Guðspjall jólanna er hápólítískt. Þar er ekki um að ræða einkamál heldur flytur það boðskap sem varðar allar manneskjur. Það varðar hvern einstakling og samfélagið í heild. Betlehem var hernumin borg. Var möguleiki á að þar væri staður til að finna frið á jörðu og velþóknun yfir mönnum?

Guðspjallið er ekki einkamál af því að í því er talað um FRIÐ Á JÖRÐU. Friður á jörðu er FRIÐUR Á JÖRÐU, ekki aðeins innri friður. Það er því ekki einfalt að boða jólaguðspjallið þannig að það verði trúverðugt í kristinni kirkju og veraldlegu samfélagi.

Kirkjan verður að taka raunverulegt ástand heimsins alvarlega eigi jólaguðspjallið að vera annað en ævintýri sem nærir viðkvæmar tilfinningar. Samfélagið þarfnast þess á hinn bóginn að einstaklingar finni innri frið. Á jólum og einmitt á jólum verðum við að þola óleystar deilur og megum ekki horfa fram hjá neyð annarra. Um leið þurfum við að huga að endurnæringu okkar sjálfra til að geta mætt kröfu kærleikans í gráum hverdeginum. — Þess vegna höldum við jól.

Boð um að nálgast hið heilaga

Jólaguðspjallið er boð um að nálgast það sem er heilagt. Það er óvíst að hirðarnir hafi verið sérlega trúaðir eða heimspekilega sinnaðir. Flest okkar eru lík þeim í því. Þeir eru af þeim sökum prýðilegir fulltrúar fyrir þrá okkar eftir félagslegu réttlæti og innri ró. Þeir eru fínir boðberar þess að það er mögulegt að upplifa frið mitt í erli hversdagsins þrátt fyrir þann óróleika sem við búum við.

Það er ekki auðvelt að tala um frið á jörðu meðan borgarastyrjaldir og stríð geysa milli landa og trúarbragða. Í ár eru jól víða haldin í skugga fátæktar, ófriðar eða náttúruhamfara. Við höldum jól í framhaldi átaka á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þar er velmegun og minnkun útblásturs stillt upp sem andstæðum. Er það leið til að stuðla að friði á jörðu?

Í krefjandi samtíma, mikilli vinnu eða atvinnuleysi, kröfum sem við gerum til okkar sjálfra eða kröfum sem gerðar eru til okkar heima og heiman þurfum við stað þar sem við getum notið friðar. Við þörfnumst kyrrðar, þar sem við finnum tómarúmið fyllast af einhverju sem er öðruvísi en allt annað. Þess friðar leitum við um jólin.

Friður en ekki raunveruleikaflótti

FRIÐUR Á JÖRÐU verður að þýða friður á jörðu fyrir þau sem þjást en ekki meiri neysla fyrir þau sem þegar hafa alltof mikið. FRIÐUR Á JÖRÐU verður að þýða friður okkar hvert með öðru sem felst í góðri samvisku. Góð samviska fæst einungis með ástundun réttlætis og sanngirni í samskiptum fólks.

Við getum með nokkrum sanni sagt að við séum hersetin þjóð og að við höfum verið það um skeið. Neysla og óhóf síðast liðinna ára hefur gert okkur valdalaus og ófrjáls.

Geta jólin hjálpað okkur mitt í hruni efnahags og siðferðis? Geta þau hjálpað okkur að spyrja hvað það er sem skiptir máli og hvað boðskapurinn um FRIÐ Á JÖRÐU þýðir?

Jólin felast í einfaldri frásögu, ævintýrablæ, jólasálmum, bænum, tækifæri til að gefa þeim sem mest þurfa á að halda. Við þörfnumst þessa tíma — ekki til að bæta fyrir allt sem miður hefur farið. Jólin vara einfaldlega ekki nógu lengi til þess. Við þurfum á hátíðinni að halda — ekki til að flýja raunveruleikann, heldur til þess að staldra við, hugleiða, þakka og sækja þrótt til að geta látið gott af okkur leiða.

Við óskum lesendum friðsælla jóla!

Um höfundinnEin viðbrögð við “Jólin – friðarboðskapur eða ævintýri?”

  1. sigurðurárni.annáll.is - » Jólin – friðarboðskapur eða ævintýri? skrifar:

    […] Guðspjall jólanna er hápólítískt. Þar er ekki um að ræða einkamál heldur flytur það boðskap sem varðar allar manneskjur. Það varðar hvern einstakling og samfélagið í heild. Betlehem var hernumin borg. Var möguleiki á að þar væri staður til að finna frið á jörðu og velþóknun yfir mönnum? Meira. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4975.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar