Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldóra J. Þorvarðardóttir

Bráðum koma jólin

Jólaljós

„Brátt koma björtu jólin, bráðum koma jólin.“ Það eru blessuð börnin sem sjá um að raula þessar línur í lítilli jólavísu fyrir munni sér í tíma og ótíma á mörgum heimilum landsins um þessar mundir. Þau sinna sínu vanabundna rísli svo sem barna er háttur, en líta svo allt í einu upp úr dundinu og verða fjarhuga litla stund, en taka síðan til við fyrri iðju og raulið hefst á nýjan leik. Andi tilhlökkunar og eftirvæntingar liggur í loftinu, aðventukransinn stendur á stofuboðinu og þegar hefur verið kveikt á tveimur kertum hans, - biðin eftir hinni helgu hátíð hálfnuð.

Flestar fjölskyldur landsins eru í óðaönn að undirbúa komu jólanna og margir leggja töluvert annríki og umstang á sig til að gera hina helgu hátíð sem gleðilegasta fyrir sig og sína. Það er eingöngu af hinu góða og í anda tilefnisins að vilja gleðjast saman, sýna af sér vináttu og hlýhug og ljá þeim hönd sem hjálpar er þörf.

Og þau koma brátt, blessuð jólin. En áður en þau ganga í garð þreyjum við jólaföstu og njótum þess alls sem hún hefur upp á að bjóða. Henni er ætlað að undirbúa okkur bæði líkamlega og andlega undir hátíðina helgu svo hjörtu okkar og vitund öll taki af tærri gleði við fregninni; Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Þannig hljómar vitnisburður guðspjallamannsins Lúkasar um þann sem er ljós heimsins og hefur lýst okkur mannanna börnum veginn um aldir og árþúsund og mun halda áfram að gera um ókomna tíð.

Fagnaðartíðindin sem flutt voru hin fyrstu jól, greipast í hug okkar og við skynjum það svo skýrt að barnið sem liggur í reifum í fjárhúsjötunni, er bróðir okkar og frelsari og við systkin hans. Frá þeim degi og alla tíma síðan höfum við mannanna börn getað treyst handleiðslu hans sem þá fæddist og orð hans og verk hafa verið vegvísir okkar á lífsins vegi öld fram af öld, styrkt okkur og nært í lífi og starfi. Með honum í för finnum við skýrast að Guð er lifandi mitt á meðal okkar og hann býður okkur fylgd sína. Á þeirri leið mætir kirkjan okkur með orði Hans. Og hún biður okkur að missa aldrei sjónar á skapara okkar og Drottni. Hún leiðir okkur að hinum eilífa kærleika og sannleika og hún sýnir okkur hvernig framganga Frelsarans hér á jörð, er okkur fordæmi í því hvernig við getum borið hvers annars byrðar, hvernig við getum elskað Guð framar öllu og náungann eins og sjálf okkur.

Megi Drottinn færa okkur frið og fögnuð af þeim tíðindum. Við skulum fela honum allt ráð okkar og alla framtíð, því hann er okkar í dag og að eilífu.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Bráðum koma jólin”

  1. Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir skrifar:

    Þakk fyrir! Fallega skrifað og gott að lesa.
    Gleðilega hátíð og Guðs blessun.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2725.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar