Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Rúnar Matthíasson

Að þakka fyrir sig

Jólaljós

Hún tók sig út úr hópnum, lítil státin fjögurra ára stelpa, kom til mín, benti á mig eftir að hafa staðið þögul stundarkorn og sagði: “Þú ert með fallegt bindi”. Yfirbragð hennar var bjart, roðagyllt og liðað hárið fallega greitt og augun sindrandi og allt yfirbragð hennar bar vott um létti. Ég þakkaði henni fyrir að hæla bindinu mínu, tók undir og sagði að ég væri sjálfur mjög hrifinn af þessu bindi og að mér þætti vænt um að hún hefði orð á þessu. Eftir þetta samtal okkar brosti hún út að eyrum og augun voru eins og tvær hlýjar sólir að horfa í. Hún hafði stigið nokkur skref til baka þegar hún virtist gera sér grein fyrir að allur hópurinn hafði tekið eftir samtali okkar og allra augu voru á henni. Hún roðnaði svolítið, en reisti sig síðan upp, gekk aftur til mín og sagði með glettni í auga: “þú ert líka í fallegri skyrtu”. Þessi orð hennar vöktu hlátur viðstaddra og einhver tók hana upp og gaf henni rembings knús. Það hafði létt yfir öllum viðstöddum. Hlý augnatillit sögðu meira og betur en nokkur orð að þarna var gott að vera.

Stundu áður höfðum við komið saman í kapellunni. Þá var dapurt yfirbragð á öllum, tár blikuðu á hvörmum og hver átti nóg með sig. Tilefnið var sárt. Ætli við höfum ekki verið fimmtán eða tuttugu í allt þarna í kapellunni, komin saman til að minnast og biðja fyrir afa litlu stúlkunnar, sem hafði dáið þá um nóttina. Ég hafði heilsað henni, þar sem hún kúrði sig í fangi móður sinnar, kvíðin, óörugg og hrygg eins og þau voru öll. Hún hafði þó ekki sömu yfirsýn eða skilning á því sem gerst hafði eins og þau sem eldri voru. Ég reikna ekki með að hún hafi upplifað dauðann fyrr. Frá hennar sjónarhorni séð ætla ég að það hafi verið hryggð allra hinna sem hvíldi á henni ekki síður en þessi nýi veruleiki dauðans sem hún var að kynnast. Fjögurra ára hnáta er jú enn undir vernadarvæng mömmu og pabba, þar sem hún á sitt skjól fyrir mótlæti og erfiðleikum. Hún fann til vegna þess að mamma og pabbi fundu til, hennar eigin missir átti enn eftir að ljúkast upp fyrir henni. Þarna inni í kapellunni minntumst við afa, fólk sagði frá og hugsaði enn fleiri atvik og atburði sem röddin réði ekki við að tjá. Við bárum hugsanir okkar og tilfinningar saman til Guðs í bæn og minningarnar umbreyttu smám saman andrúmsloftinu og bros læddist fram undir tárvotum augum. Umbreyting átti sér stað þó missir þeirra væri samur og hryggðin enn til staðar. Þau höfðu öll misst mætan og dýrmætan mann. En nú hafði sorg þeirra verið færð í orð og bæn, þau sameinast um allt það sem þau áttu og höfðu þegið frá afa. Nú sameinaði hryggðin en skildi ekki að eins og vill verða þegar hver ber sitt útaf fyrir sig. Á þessari stundu skapaðist dýrmætt og græðandi rými sem fjögurra ára hnátan fann og naut.

Eftir á varð mér hugstætt atvikið á ganginum þegar hún kom og sagði bindið mitt vera fallegt. Það laukst upp fyrir mér að hún var í raun og veru að þakka mér fyrir á sinn einlæga og heiðarlega hátt án þess þó að segja takk. Hennar þökk var ekki bundin afstæðum orðum heldur fólst hún í atferli hlýju og kærleika sem lét engan viðstaddan ósnortinn. Hennar þökk var sem blóm sem heldur áfram að springa út innra með mér í hvert sinn sem ég minnist þess sem hún gerði fyrir mig. Þakklæti hennar var dýrmæt gjöf til mín.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Að þakka fyrir sig”

 1. Ragnheiður Jónsdóttir skrifar:

  Falleg og grípandi , myndræn og sem dró mann ínn í aðstæður, vakti samkennd, gleði og gaf merkingu.Snerti við og það er gott. Takk!

 2. Bernharður Guðmundsson skrifar:

  Þegar hryggðin sameinar..
  þegar sorgin er færð í orð og bæn og græðandi rými skapast.
  Þetta er fádæma vel skrifuð hugvekja sem vekur til skapandi umhugsunar - en hvernig á ég að þakka fyrir mig? Við ræðum það næst þegar við hittumst!
  Gleðileg jól

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2964.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar