Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jón Aðalsteinn Baldvinsson

Hungraður var ég …

Það er með ólíkindum að svo skuli komið í okkar góða og gjöfula landi að fjöldi fólks eigi vart til hnífs eða skeiðar. En staðreyndirnar tala sínu máli. Biðraðirnar við hjálparstofnanir lengjast dag frá degi. Fólk sem taldi sig vera sæmilega bjargálna, og í sumum tilfellum í góðum efnum fyrir ári síðan, þarf nú að leita sér aðstoðar við öflun brýnustu nauðsynja.

Hér er enn eitt dæmið um það hve hinn rangláti mammón getur leikið mannlífð grátt ef hann fær að leika lausum hala. En ekki þýðir að fást um orðinn hlut. Skaðinn er skeður og við honum verður að bregðast með þeim hætti að enginn þurfi að líða nauð. Til þess er kirkjan kölluð og því hefur hjálparstarf Þjóðkirkjunnar hafið sérstakt söfnunarátak undir kjörorðinu biðjum og styðjum, sem standa mun alla þessa nýbyrjuðu viku.

Kærleiksboðið, sem Jesús lagði áherslu á að væri æðst allra boða, knýr okkur til aðgerða í þessu máli, rétt eins og í öllum þeim málum öðrum er varða heill og hamingju náunga okkar. Trú okkar kristinna manna er grundvölluð á þessu boði og það er prófsteinn á hana hvort sá sem hefur heimsins gæði lýkur upp hjarta sínu fyrir þeim sem er þurfandi, svo vitnað sé í Jóhannes postula.

Ég er ekki í neinum vafa um það að íslenska þjóðin mun bregðast vel við þessu kalli. Það hefur verið og er aðalsmerki hennar að standa saman þegar á reynir. Og hafi bankahrunið margumtalaða kennt okkur eitthvað, þá hlýtur það umfram allt að vera það hve nauðsynlegt er að við berum ábyrgð hvert á öðru en látum ekki eins og náunginn komi okkur ekki við.

Nú ríður á að við öll, sem eigum því láni að fagna að vera aflögufær, látum það af hendi rakna sem við mögulega getum. Einnig er ákaflega mikilvægt að kirkjunnar fólk um allt land fylgi söfnuninni þannig eftir að hún þurfi ekki að fara framhjá neinum. Munum að margt smátt gerir eitt stórt.

Það er smánarblettur á samfélagi okkar, svo auðugt sem það er af gæðum, að hér skuli vera fólk sem er í óvissu um það hvort það á fyrir mat að morgni. Þann smánarblett verðum við að nema á brott með öflugu hjálparstarfi þar til viðreisn samfélagsins hefur komist á það stig að enginn þurfi að líða skort.

Göngum því að þessu söfnunarátaki af alhug minnug orða Jesú:

Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2580.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar