Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bernharður Guðmundsson

Guð á sér draum

Desmond Tutu

„Við förum inn og út úr fangelsisklefunum eins og þið inn og út úr sturtuklefunum,“ sagði ræðumaðurinn og það var andartaks þögn í salnum, síðan fór hann að hlæja, hásum smitandi hlátri og kastaði höfðinu aftur og salurinn bergmálaði glymjandi hlátur hinna rúmlega þrjú þúsund áheyrenda. Þegar hlátrinum linnti, hélt ræðumaðurinn Desmond Tutu áfram á alvarlegu nótunum og ræddi hina svívirðilegu mannréttindabrot Apartheid stefnunnar í S. Afríku og við hlustuðum með þeirri einbeitingu sem fæst eftir hin hvílandi áhrif hlátursins

Þetta var á heimsþingi Alkirkjuráðsins 1983 í Vancouver í Kanada sem fjallaði ítarlega um mannréttindamál undir yfirskriftinni:” I have heard the cry of my people” Og helstu baráttumenn kirkjunnar í Suður Afríku voru framsögumenn í þessum málaflokki, þeir Allan Boesak og Desmont Tutu sem ári seinna hlaut friðarverðlaun Nóbels.Þeir gáfu ögrandi og yfirþyrmandi innsýn í aðstæður þar sem aðskilnaðarstefnan ríkir en ævinlega var lifandi, kristinn boðskapur samtvinnaður frásögninni í erindum þeirra.

Á eftir var hópnum skipt upp í litla umræðuhópa 10 – 15 manns og ég var svo glerheppinn að vera í sama hópi og Tutu, sem gerði þessar umræður ógleymanlegar . Desmond Tutu er fremur smávaxinn maður en vel á sig kominn, um fimmtugt þegar hér var komið sögu , með mikla útgeislun og makalausa kímnigáfu, sem sumum úr Norðrinu fannst stundum vera full stráksleg, sér í lagi þegar hann talaði um Drottinn. Tutu var sér þess meðvitandi og útskýrði að í kristinni menningu Afríkumanna er Jesús virkilega bróðirnn besti, og Guð í raun faðirinn , “Við erum fjölskylda Guðs og tölum saman eins og fólk gerir í fjölskyldum “ sagði hann og skellihló og þá varð þetta allt svo einfalt og sjálfsagt.

Við vorum ekki söm á eftir sem vorum í þessum umræðuhóp, hann opnaði okkur nýja sýn ekki aðeins á Apartheid heldur á viðbrögð hins kristna fólks, á hina kristnu von um sigur réttlætisins , sem hlyti að verða fyrr en síðar einfaldlega af því að Guð er með í för. Þessi reynsla er mér mikið þakkarefni.

En rúmlega aldarfjórðungi síðar berst mér í hendur síðasta bók Tutu, God has a dream. A Vision of Hope for our time. Þar dregur hann saman meginþætti þess sem hann hefur predikað á langri ævi. Margt af því snertir starf hans sem formanns nefndarinnar um fyrirgefningu og sátt sem sett var á laggirnar eftir að Apartheid var brotið á bak aftur, er heiftin og hatrið fyrir allar misgjörðirnar brann með fólki þrátt fyrir sigurinn. Nefndin var sett upp til að rannsaka málið, yfirheyra sökudólga , heyra þeirra viðhorf, hjálpa þeim til að iðrast og þiggja fyrirgefningu þannig að sátt komist á. Því aðeins getur hið nýja samfélag orðið til og blómstar - segir Tutu í þessari bók. Margt í bókinni talar beint inn í íslenskar aðstæður í dag og mig langar því að birta hér nokkuð af hugsunum hans um sátt og fyrirgefningu

- Margir hafa bent á það að þeir sem gleyma fortíðinni , virðast dæmdir til að endurtaka mistök hennar. Við vissum í Suður Afríku, beinlínis út frá sálfræðilegu sjónarmiði, að ef sakaruppgjöf var veitt án þess án þess að tekið væri á deiluefninu, myndi deilan spretta upp aftur.

Það lýsir eðlilegum mannlegum viðbrögðum, að sekt, jafnvel sekt sem ekki hefur verið játuð, hefur neikvæð áhrif á hinn seka. Fyrr en síðar brýst hún fram með einhverjum hætti.

Við verðum að vera róttæk. Við verðum að fara að rótunum, fjarlægja það sem veldur ígerðinni, hreinsa og brenna fyrir sárið og þá er nýtt upphaf mögulegt.

Fyrirgefning skapar með okkur hæfni til þess að byrja upp á nýtt. Þar er krafturinn, grundvallarforsenda játningar og fyrirgefningar. Það er eins og maður segði; “ Ég hef fallið, en ég ætla ekki að vera hér áfram í svaðinu .Viltu fyrirgefa mér” Og fyrirgefningin er sú náð sem þér er veitt til þess að hjálpa viðkomandi til þess að rísa á fætur, rísa á fætur með reisn, og byrja að nýju.

Ef fyrirgefning er ekki veitt, skapast beiskja og hatur, sem þjakar og nagar sálarkraftana alveg eins og þegar maður fyrirlítur og hatar sjálfan sig. Hvort sem hatrinu er beint inn á við eða út á við, hefur það eyðileggjandi áhrif á mannsandann.. Við þekkjum að öll hversu okkur líður miklu betur eftir að afsökunarbeiðni hefur verið borin fram og veitt. En jafnvel þá er ennþá erfitt að segja að við sjáum djúpt eftir þessu og þörfnumst fyrirgefningar. Ég á oft erfitt með að segja þessi orð við konu mína í nánd og elsku svefnherbergisins okkar. Hversu erfiðara er þá að segja þessi orð við vini okkar, nágranna eða samstarfsmenn. Beiðnin um fyrirgefningu krefst þess að að við tökum fulla ábyrgð á okkar hlut í þeim vinslitum sem urðu. Við getum alltaf afsakað okkur sjálf og fundið réttlætingu gerða okkar, hversu afskræmdar sem þær eru, en við vitum að einmitt þær loka okkur inni í svartholi ásökunar, sektar og skammar

Í sögunni um Adam og Evu minnir Biblían okkur á það hversu auðvelt er að ásaka aðra. Þegar Guð bar það upp á Adam um að hafa etið af hinum forboðna ávexti skiningstrés góðs og ills, var Adam alls ekki fús til þess að taka á sig ábyrgðina. Þess í stað varpaði hann sökinni á Evu, og þegar Guð sneri sér að henni, reyndi hún að varpa af sér sökinni og benti á höggorminn. (Vesalings höggormurinn hafði þá engan til að ásaka!)

Við skyldum því ekki verða undrandi yfir því hversu ófús við erum flest að viðurkenna ábyrgðina og segja að við sjáum eftir því sem við höfum gert. Við erum þannig að feta í fótspor forfeðranna þegar við ásökum allt og alla nema okkur sjálf.

Það er hetjudáð hversdagsins að segja ;” Þetta er mér að kenna , fyrirgefðu”

En án þessara einföldu orða , er miklu erfiðara að fyrirgefa .

Að fyrirgefa og sættast við óvini okkar eða ástvini felst ekki í því að látast eins og allt sé í lagi. .Það felst ekki í því að klappa hvort öðru á bakið og loka augununum fyrir þvví sem að er.. Raunveruleg sátt leiðir í ljós sársaukann, þjáninguna, misnotkun og sannleika málsins. Slíkt gæti jafnvel orðið til þess að ástandið versnaði enn. . Slíkt felur í sér áhættu en það er sannarlega þess virði þegar upp er staðið, því að ef aðstæðurnar eru orðnar augljósar og engu skotið undan, verður sáttin raunveruleg, hið brotna verður heilt.. Yfirborðssátt felur aðeins í sér yfirborðslausn á vandanum

Og vegna þess að við erum ekki syndlaus, vegna þess að við særum sérstaklega þau sem okkur eru kærust með framferði okkar, höfum við alltaf þörf fyrir þetta ferli fyrirgefningar og sáttar til þess að vinna úr þessum óheppilegu en þó mannlegu brestum í tengslum okkar við aðra. Það er óumflýjanlegt einkenni á mannlegum aðstæðum.

Þessu ferli er þó ekki lokið þegar sökudólgur hefur játað og fórnarlambið fyrirgefið. Yfirleitt hefur afbrotið haft áhrif á þann sem verður fyrir því á næsta áþreifanlega og praktískan hátt. Apartheid veitti þeim hvítu feiknaleg gæði og forréttindi, en þau svörtu voru hinsvegar svipt gæðum og misnotuð. Ef einhver stelur pennanum mínum og biður mig síðan að fyrirgefa sér , er ég í vafa um einlægni hans og iðrun nema hann skili mér pennanum líka ! Játning, fyrirgefning og bætur hvenær sem þær eru mögulegar, eru liðir í samfellunni.

Það er aðeins þegar við erum samferða, hönd í hönd, sem fjölskylda Guðs og ekki sem óvinir hvers annars sem við getum vænst þess að brjóta á bak aftur þessa illu hringrás hefndar og maklegra málagjalda. Þar er okkar eina von til þess að draumar Guðs rætist. Af því að Guð hefur aðeins okkur, fjölskyldu sína , til þess !

Svo mælir Desmond Tutu erkibiskup meðal annars um fyrirgefningu og sátt er hann nær áttræður lítur yfir líf sitt í bókinni ”God has a Dream , a Vision of Hope for our Time“

Um höfundinn3 viðbrögð við “Guð á sér draum”

 1. Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir skrifar:

  Kærar þakkir fyrir þennan mikilvæga pistil,sem
  talar með áhrifaríkum hætti til okkar allra.

 2. Jón Helgi Þórarinsson skrifar:

  Þakka þér Bernharður að þýða þennan kafla úr þessari merku bók Tutu. Þetta er efni sem að við prestar og annað kirkjufólk getum notað okkur í umræðunni um hvernig við gerum upp það sem hefur gerst hér á landi og víða um heim á síðsutu árum og olli fjármálakreppunni og hruninu hér.

 3. Elínborg Sturludóttir skrifar:

  Takk fyrir þessa góðu hugvekju! Bestu kveðjur úr Borgarfirði…

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3588.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar