Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Árni Þórðarson

Fallegast og dýrmætast

Tveir strákar í biskupsgarði við hlið Þrándheimsdómkirkju - mynd: Sigurður Árni Þórðarson

„Nú mega allir krakkar sem eru fjögurra ára koma fram að altarinu“ sagði presturinn. Í kirkjunni spruttu þau á fætur og með þeim gengu fram mömmur, pabbar eða afar og ömmur. Eldri kynslóðin stóð til hliðar altarinu en börnin settust við skírnarfontinn þar sem fimm börn höfðu verið skírð í byrjun athafnar. Presturinn las upp nafn hvers barns. Eftirvænting var í andlitum barnanna og spenningur í augum. Svo fengu þau efnismikla bók í hendur, brostu og sýndu hinum krökkunum.

Fjöskylduguðsþjónustan í Niðarósdómkirkju hélt svo áfram. Presturinn benti söfnuðinum á fegurð kirkjuhússins, táknmál rósettugluggans yfir inngangsdyrum, sagði frá dýrgripunum, sem kirkjunni hefði safnast þau þúsund ár sem kristni hefði verið iðkuð og guðshús hefði verið á þessum stað. Já, ríkidæmið blasir við, handverkið er sláandi og listmunirnir eru fagrir. Ekkert hefur verið sparað hvorki í fortíð né nútíð til að gera húsið sem best og glæsilegast. Guðsdýrkun varðar hið mesta og besta og Guði ber aðeins það sem er heilt og gott. Og presturinn hélt áfram: „Hvað er það í kirkjunni, sem ekkert gull og engir peningar, ekki allir peningar heimsins, geta keypt og bætt?“ Mörg hundruð augu skönnuðu hvelfingar í leit að hinu besta og mesta. „Það sem er dýrmætast í þessari kirkju eru ekki hlutir heldur þið, fólkið, börnin, sem voru skírð, þið sem komuð til að taka við bók, þið sem komuð í kirkju. Þið eruð mesta dýrmæti kirkjunnar, mestu auðæfin sem Guð þekkir.“

Þetta var góð speki, foreldrar horfðu á börnin sín elskuaugum, afar og ömmur tóku í hönd hvoru öðru, útlendingar fundu sig heima í kunnuglegum faðmi. Þetta var góð guðfræði og í góðu samræmi við tilefnið. Um allan Noreg var verið að afhenda fjögurra ára börnum kirkjubók. Skírðum börnum voru send persónulegt boð um að koma í kirkju og svo varð þessi athöfn þeim eftirminnileg upplifun. Þau höfðu farið í kirkjuna með fjölskyldu sinni. Athöfnin byrjaði með skírn ungbarna og í bekknum við hlið mér bentu pabbi og mamma sínum börnum á að svona hafi þau verið fyrir nokkrum árum þegar þau voru skírð. Svo voru fjögurra ára börnin kölluð fram einnig. Þau fengu bókina sína við fontinn, og nafnið þeirra hljómaði sömuleiðis í hvelfingunni. Allur söfnuðurinn bað fyrir þeim og svo gekk allur hópurinn um kirkjuna í helgigöngu við messulok.

Tvær athafnir í safnaðarlífi. Kirkjuhúsið er eftirminnilegt, Þrándheimsdómkirkjan er mikið hús. En fallegast og dýrmætast er fólkið. Norska þjóðkirkjan hefur með stuðningi ríkisins hafið sókn í trúarmótun og trúfræðslu kirkjunnar. Afhending bóka í hendur fjögurra ára börnum er aðeins einn áfanginn í kirkjuferð skírðra ungmenna. Heildstæð dagskrá hefur verið unnin fyrir alla aldurshópa. Íslenska þjóðkirkjan getur margt lært af Norðmönnum í kirkjuefnum og einnig af hinni nýju viðmiklu áætlun um trúarmótun skírðra ungmenna á aldrinum frá 0-18 ára.

Húsin eru falleg sem við höfum byggt á Íslandi til guðsdýrkunar en fallegast er fólkið. Og það á ekkert annað skilið en gott uppeldi heima og í kirkju.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Fallegast og dýrmætast”

 1. Torfi Stefánsson skrifar:

  Rétt er þetta og satt meistari Sigurður!
  Íslenska kirkjan getur margt lært af þeirri norsku. Ekki aðeins þetta med fjögurra ára bókina, heldur einnig afhendingu Nýja testamentisins til barna í 5. bekk grunnskóla.

  Þá er eitt enn hjá Norðmönnum sem ekki er síður mikilvægt fyrir okkar kirkju að tileinka sér en það er skírnarskyldan í kirkju.
  Ég sá að Karl biskup hafði í ræðu á síðustu prestastefnu farið jákvæðum orðum um skírnir í heimahúsum - og mikilvægi þess að presta eigi aðgang að heimilum fólks.

  Í Noregi er hins vegar alls ekki leyft að skíra í heimahúsum, eða réttara sagt, slík skírn er ekki fullgild. Hún verður að staðfestast í kirkju. Þetta hefur leitt til þess að nær allar skírnir fara fram í guðsþjónustum - og tryggir þar með mikla og góða kirkjusókn í barnafjölmennum söfnuðum. Guðsþjónustan fær einnig mun léttara yfirbragð við þetta og verður þannig meira aðlaðandi fyrir fólk sem er óvant kirkjugöngu.

  Þetta leysir ekki alls staðar vandamálið með slaka kirkjusókn, en maður spyr sig stundum hversu margir hefðu mætt í kirkju ef skírnarfólkið hefði ekki verið til staðar.

  Íslenska kirkjan þarf að vinna miklu meira með að auka kirkjusókn en hún gerir. Þar getur skírnin, afhending bóka til barna við fjögurra og níu ára aldur, auk áherslu á foreldrastarfið í fermingarstörfunum, gert gæfumuninn.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3170.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar