Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hildur Eir Bolladóttir

Ég trúi á Guð

Glerkúla sem speglar

Ég trúi á Guð af því að ég hef séð norðurljós, regnboga, rauðan himinn og fullt tungl en líka af því að ég sé sólina rísa á hverjum degi. Ég trúi á Guð af því að ég hef fundið fóstur stækka og séð börn fæðast. Ég trúi á Guð af því að ég hef séð fólk visna og deyja en fundið það lifa í sál minni. Ég trúi á Guð af því að mér hefur verið fyrirgefið og ég sjálf fundið mátt til að fyrirgefa öðrum. Ég trúi á Guð af því að réttlætið finnur sér alltaf farveg í veröldinni.

Ég trúi á Jesú Krist sem gerði konur að lærisveinum sínum og var fyrstur til að draga verk þeirra fram í dagsljósið. Ég trúi á Jesú Krist sem afhjúpaði heimsku fordómanna og illsku aðgreiningar og hafnaði valdinu sem sundrar og selur sál sína. Ég trúi á Jesú Krist því orð hans er óháð tíma og rúmi. Ég trúi á Jesú Krist því þrátt fyrir kreppu, fjársvik og farsóttir kom haustið með fegurð litanna, veturinn með ævintýri barnanna, vorið með söng fuglanna, sumarið með bjartar nætur og manneskjur héldu áfram að elska. Ég trúi á Jesú Krist þegar ég hlýði á sannleika barnanna, vonir unglinganna, trúfesti öldunganna.

Ég trúi á heilagan anda þegar ég horfi á erindi kirkjunnar, samfélag trúaðra, mannfólkið sem finnur þar skjól. Ég trúi á heilagan anda þegar ég horfi á syrgjendur rísa upp til vonar, kúgaða kveðja kvalara sína, friðlausa finna ró. Ég trúi á heilagan anda þegar ég sé illskuna víkja undan valdi kærleikans, manneskjur snúa á fortíð sína, tengsl lifa sjálfan dauðann. Ég trúi á heilagan anda vegna þess að ég er elskuð án skilyrða virt án vilyrða og blessuð fyrir það eitt að vera til.

Um höfundinn22 viðbrögð við “Ég trúi á Guð”

 1. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

  Þakka kærlega fyrir þessa fallegu trúarjátningu.

 2. Guðni Már skrifar:

  Einstaklega falleg trúarjátning. Takk fyrir þetta

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Hahahaha þetta er óborganlega fyndinn texti hjá þér, þú gjörsamlega bjargaðir deginum hjá mér, bestu kv Matti Á.

 4. Gunnar G skrifar:

  Hahahaha þetta er óborganlega fyndinn texti hjá þér, þú gjörsamlega bjargaðir deginum hjá mér, bestu kv Gunnar

 5. Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir skrifar:

  Þakk, kæra Hildur, fyrir þessi fallegu og hrífandi orð.
  Guð blessi þig og leiði.

 6. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Þessi ummæli eru líka afskaplega áhugaverð:

  Ég trúi á Jesú Krist því orð hans er óháð tíma og rúmi.

  Eru þau ummæli Jesú um að einhverjar borgir í Palestínu myndu brenna í helvíti “óháð tíma og rúmi”? Eru ummæli hans um illa anda líka “óháð tíma og rúmi”?

  Eða eru kannski bara þau fáu ummæli hans sem er eitthvað vit í þau einu sem eru “óháð tíma og rúmi”?

 7. Irma Sjöfn Óskarsdóttir skrifar:

  Hjartans þakkir Hildur fyrir þessi góðu og áhrifaríku orð

 8. Guðbjörg Jóhannesdóttir skrifar:

  Kæra Hildur blessi þig fyirir að deila þessari játningu með okkur.

 9. Nína Leósdóttir skrifar:

  Fallegur texti og yndislegur boðskapur! Kærar þakkir, elskulega Hildur :)

 10. Svanur Sigurbjörnsson skrifar:

  Sæl Hildur Eir.
  Mér sýnist á innihaldi þessarar trúarjátningar að það sé ekki neitt hér á jörðu eða himinhvolfunum sem vekji ekki með þér guðstrú. Það má einnig orða það þannig að öll fyrirbæri heimsins veki með þér trú. Er það svona einfalt að trúa?

 11. Tinna G. Gígja skrifar:

  “Ég trúi á Jesú Krist sem gerði konur að lærisveinum sínum og var fyrstur til að draga verk þeirra fram í dagsljósið.”

  Hvað meinarðu? Voru verk kvenna aldrei ‘dregin fram í dagsljósið’ fyrr en Jesú gerði það? Voru engar konur í Gamla Testamentinu? Hvað með Esther, Debóru og Jael?

  Hvernig dró Jesú verk kvenna fram í dagsljósið? Með því að leyfa þeim að bera á hann smyrsl? Þerra fætur hans með hárinu? Bera fram mat?

  Notaði kirkjan ekki Nýja Testamentið til að kúga konur (karlmaðurinn á að vera höfuð konunnar, það er synd fyrir konu að tala í kirkju, konur voru skapaðar fyrir karlmenn)?

 12. Hildur Eir Bolladóttir skrifar:

  Kæri Hjalti, Tinna og Svanur, mér er það bæði ljúft og skylt að hitta ykkur og spjalla um mitt einfalda hjarta og trú og vísindi,að ég tali nú ekki um kvenréttindi kaffið á Kaffismiðjunni við Kárastíg er t.d. dásamlega gott, við gætum hist þar á mánudaginn næsta (frídagurinn minn) spjallað auglitis til auglitis, þið komið með áhugarverðar vangaveltur þannig að til er ég. Bestu kv Hildur Eir

 13. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Væri ekki eðlilegt að svara þessum einföldu spurningum hér, svo aðrir lesendur síðunnar fái notið svaranna.

 14. Teitur Atlason skrifar:

  Já þetta er verulega spennandi. Ég hef aldrei póstað neinu hérna því ég hef alltaf talið að kommentum mínum yrði eytt. Mér líður eins og “partycrasher”.

  Mig langar að beina einni spuringu til Hildar Eir vinkonu minnar.

  Hún segir á blogginu hans Matta: “Vísindin fjalla um hvernig heimurinn varð til, trúin fjallar um hvers vegna heimurinn varð til þess vegna eiga trú og vísindi svo dásamlega samleið”.

  Ég spyr í kjölfarið: Hversvegna varð heimurinn til? Trúin svarar því ekki satt?

 15. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Hildur, mér persónulega finnst athugasemdir við þessa grein vera fínn staður til að ræða efni greinarinnar.

 16. Teitur Atlason skrifar:

  Ágæta Hildur. Ég er búsettur í Svíþjóð og á erfitt með að mæta í kaffi :)

  Mér þætti vænt um ef þú gæfir mér innsýn inn í hugmyndina sem þú varpar fram.

  “Vísindin fjalla um hvernig heimurinn varð til, trúin fjallar um hvers vegna heimurinn varð til þess vegna eiga trú og vísindi svo dásamlega samleið”.

  Ég hef mikið pælt í þessari spurningu en aldrei fengið nein svör fra kristnu fólki, hvað þá prestum. Nóg er hinsvegar af svörum frá harðkjarna efnishyggjufólki.

 17. Bjarni Karlsson skrifar:

  Teitur, Tinna, Hjalti og Rúnar.

  Ég held að gallinn við þau samskipti sem þið biðjið um hér sé sá að ef orð ykkar eru skoðuð bókstaflega þá eruð þið bara að spyrja áhugaverðra spurninga og viljið fá heiðarleg svör. En flest fólk skynjar hins vegar að andinn í því sem þið eruð að segja er pönk. Þið eruð að pönkast í prestunum og það er út af fyrir sig drep fyndið að gera það einmitt inni á trúmálavef Þjóðkirkjunnar. Mér var einmitt bent á þetta í dag vegna skemmtanagildisins sem þessi heimsókn óneitanlega hefur. En auðvitað er ekki hægt að svara pönki nema með pönki því þessi aðferð ansar engu nema sjálfri sér. Þess vegna verður alltaf þögn hjá kirkjufólkinu þegar þið eruð búin að tjá ykkur. Reiðin sem er andi orða ykkar er andstæð kristinni trúariðkun og þess vegna verður svo fátt um svör.
  Þið haldið ykkur alltaf við sama heygarðshornið krefjist þess að Biblían sé tekin bókstaflega í einu orðinu og sakið kirkjuna svo um að vera bókstarfstrúar í hinu, á meðan allt fólk, og áreiðalega þið líka, veit ósköp vel að bókstafur er eitt og andinn í samskiptum manna er annað. Það gildir almennt í mannlegum samskiptum að sé sóst eftir góðu samtali verður að ríkja grundvallar virðing á milli manna. Þið eruð eins og maður sem ávarpar annan og segir: “Nú ert þú afglapi og í alla staði ótrúverðugur, veistu hvað vagn gengur upp í Grafarvog?” Og hvernig á aumingja maðurinn að bregðast við? Hann snýst á hæli eða horfir í gaupnir sér.
  Hildur Eir bauð ykkur í kaffi, ég skyldi bjóða ykkur að vera inni í Laugarneskirkju þótt ekki væri nema einn dag og fylgjat með öllu því fólki sem kemur og fer í margvíslegum erindum, öllum þeim hópum sem þar eiga bækistöð og eru að bæta líf sitt með árangursríkum hætti í gegnum trúariðkun og félagslíf. Ástæða þess að fólk trúir liggur ekki í rökum og orðum, trúin er alltaf reynsla, opinberun, persónuleg tengsl við Guð og menn. Trú er skyld þakklæti fremur en vitneskju, hún er gleðiviðbrögð en ekki skipulögð stefna.

 18. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Bjarni, ertu þá ekki í raun að segja að vandinn felst í fordómum “ykkar” gagnvart þeim sem spyrja?

 19. Teitur Atlason skrifar:

  Ég er ekki alveg sammála Birni í því að gagnrýnar spurningar þurfi endilega að vera “punk” á einhvern máta. Ég lít t.d ekki á að spurning mín til Hildar sé “punk”. Þetta er ekkert smáræðis fullyrðing hjá henni. Þetta er jú spurningin eina.

  -Hversvegna varð heimurinn til?

  Mér þykir ekkert óeðlilegt að fá svar við þessari spurningu hjá Hildi. Andinn í þessari spurningu er ekkert fjandsamlegur. Mig, og örugglega miklu fleirum, langar til að fá svar við þessari spurningu.

  Bjarni bendir einnig á vandann varðandi túlkun á trúarritinu, hvort eigi að notast við bókstaflega túlkun eða túlkun í “anda” verksins. Þetta er fróðleg og skemmtileg umræða og snýst þegar öllu er á botning hvolft um hugtakið kennivald. Sumt hefur kennivald en annað ekki. “Andi” verksins hefur s.s kennivald (að mati Bjarna og fleirum). það er ágæt lausn. En ef sú afstaða er tekin þá er alltaf verið að klessa á, því í predikunum og trúarréttlætingum er alltaf verið að vísa í ákveðin orð, ákveðina ritningarstaði en ekkert endilega í “anda” verksins. Þarna skapast strax þversögn.

  Nú veit ég að margir prestar eru prýðilegir trúvarnarmenn og gætu alveg stutt heimsmynd sína ágætum rökum. Því er það mér hálfgerð ráðgáta að prestar neita að ræða trúmál við trúleysingja. Það hafa margir gaman að slíkum umræðum svo fremi sem þær eru sómasamlegar. Nú skal það viðurkennt að vantrúaðir hafa ekkert alltaf verið til sóma hvað það varðar, en það á alls ekkert við um alla. Mér þykja t.d spurningar Hjalta Rúnar vera prýðilegar, sömuleiðs svör hans og rökleiðsla.

  Bjarni kemur inn á athyglisverðan punkt þegar hann segir: “[T]rúin er alltaf reynsla, opinberun, persónuleg tengsl við Guð og menn. Trú er skyld þakklæti fremur en vitneskju, hún er gleðiviðbrögð en ekki skipulögð stefna.”

  Þarna kemur Bjarni t.d með fínan punkt gegn ríkiskirkjufyrirkomulaginu. Trúin er eitthvað sem einstaklingur á við sjálfan sig. Trú er ekki eitthvað sem heilt samfélag getur borið ábyrgð á ef svo má að orði komast.

  Þannig er nefnilega með samfélög að þau eru ekkert endilega sammála um stóru málin. Hvað þá eilífðarmálin.

  Persónulega finnst mér að ríkiskirkjan ætti að spýta í lófana og taka frumkvæðið í trúmálaumræðu af Vantrú. Það verður ekki gert nema með hreinskiptum samræðum. Nú er lag að skapa almennilegan vetvang fyrir slíkt samtal.

  bestu kveðjur.

  Teitur Atlason

 20. Bjarni Karlsson skrifar:

  Matthías og Teitur

  Erindi kristinnar kirkju snýr að fólki og þörfum þess. Kjarni trúarinnar er ekki að menn haldi eitthvaðum Guð, því ef til er alvitur og alnálægur Guð þá getur skilningur okkar á honum aldrei flokkast sem neitt annað en misskilningur. Þess vegna eru trúmálaumræður að minni hyggju gagnslítil iðja en getur haft visst skemmtanagildi eins og Teitur bendir réttilega á. En orka þeirra sem vígð eru til þjónustu við fólk í nafni Krists er ekki lengur einkaeign heldur skal hún beinast að verki Jesú, verki Guðs á jörð. Guð á ekki það erindi við fólk að það haldi eitthvað um hann. Erindi Guðs við menn er fagnaðarerindi, feginsboðskapur. Þið getið ekki búist við því að prestar kirkjunnar sem flestir vinna myrkranna á milli við að svara kalli umhverfisins um kirkjulega þjónustu og kalli heilags anda um að standa með þeim sem fara halloka í samfélagi okkar sitji við löngum stundum til þess að skemmta fólki með trúmálaumræðu því hún frelsar engan mann, leiðir engan út úr myrkrinu. Vantrú vinnur þarft verk með því að halda úti þessari síðu fyrir áhugafólk og þjóðkirkjan myndi aldrei taka við því hlutverki sem þar er gegnt ekki frekar en hún færi að taka upp þráðinn við fluguhnýtingar eða kenna skylmingar.

  Það er hluti af tilvist Jesú Krists og kirkju hans í þessum heimi að hvoru tveggja sé bölvað og það gagnrýnt í strimla. Það er löng hefð fyrir því í kristinni hugsun að líta svo á að þeir sem mest atyrða fagnaðarerindið séu einhverjir dyggustu þjónar þess, því að hvar sem nafn Jesú er nefnt, m.a.s. inni á vantru.is þar ryður það sér til rúms því að persónan sem ber þetta nafn er upprisinn lifandi frelsari.

  Þannig lít ég svo á að þið báðir Matthías og Teitur séuð þjónar Jesú Krists. Þið boðið hann og lofsyngið nafn hans á meðal Íslenskrar þjóðar með því að þið leitist við að skrumskæla, snúa útúr og finna allar hugsanlegar og óhugsanlegar veilur í lífi og verki kirkjunnar. Aðhald ykkar er hressandi og heilnæmt og það er ekki hægt að þakka ykkur nógsamlega.

  Nú veit ég að þið haldið að ég sé að hæða ykkur en ég meina alveg heiðarlega það sem ég er að segja. Guð blessi Vantrú og hennar vef og hennar þjóna í Jesú nafni. Amen.

 21. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Til að eyða ekki dýrmætum tíma prestanna hér hef ég ákveðið að ræða þetta tiltekna mál frekar á bloggsíðu minni. Þangað eruð þið öll velkomin óháð lífsskoðunum og megið tjá ykkur eins og þið viljið. Ég mun sýna ykkur þá kurteisi að svara spurningum ykkar eftir bestu getu.

  http://www.orvitinn.com/2009/11/04/23.00/

 22. Teitur Atlason skrifar:

  Takk fyrir ágætis svar Bjarni.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 9401.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar