Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Hryggðin og vonin

Sól á bak við ský
Pólitíkusarnir og sérfræðingarnir talar þvers og kruss og hinn almenni borgari stendur sig að því að vera alltaf sammála síðasta ræðumanni og sveiflast til og frá í afstöðu sinni til mögulegra lausna.

Sú mynd sem daglega er dregin upp í fjölmiðlum og í samtölum fólks af þjóðfélaginu er óviss og óskýr hryggðarmynd.

Þar sem fólk á almennt erfitt með að búa við óvissu hættir því gjarnan til þess að fylla upp í heildarmyndina með ímyndunaraflinu. Það fyllir okkur kvíða að dvelja með hugann í óljósri framtíðinni. Velta vöngum og hræða sjálfan sig: Hvað ef… hvernig verður.. munum við…?

Að sumu leyti er eins og yfir landinu hvíli þykk, drungaleg ský hryggðar, reiði og vonleysis. Og ef mér missýnist ekki, þá er meira að segja býsna lágskýjað yfir mörgum.

Eitt hádegið sem ég var í minni daglegu gönguferð á Laugaveginum, hellirigndi. Himininn var dökkur og drungalegur.„Dæmigert” hugsaði ég og um leið var mér litið inn um gapandi tóman búðarglugga.

Ætli það komi ekki til með að rigna í allt sumar, hugsa ég með mér og bæti svo við að góðæris sumrin hafi verið svo góðviðrissöm. Það var í góðærinu sem við gátum sest við borð fyrir utan kaffihúsin dag eftir dag. Þetta verður örugglega ekki svona í kreppunni! Dimmviðrasamt í pyngjunni, sálinni og í veðurkortunum!

Ég hafði varla sleppt hugsuninni þegar það stytti upp. Mér var litið upp. Það mátti sjá glitta í bláan himininn í gegnum lítið gat á skýjahulunni. Hugurinn leitaði upp fyrir skýin.

Þar er alltaf sólskin.

Sólin brýst alltaf í gegnum skýin um síðir þótt það þykkni upp um tíma.

Það er náttúrulögmál. Rétt eins og dagur fylgir nóttu.

Ósjálfrátt færði ég þessa hugsun yfir á ástandið í þjóðfélaginu og líðan þjóðarinnar.

Það er ekki hollt að láta ímyndunaraflið fylla upp í þá hugmynd sem við höfum um ástand mála í framtíðinni. Það er mikilvægara að leggja rækt við vonina og bjartsýnina. Hugsa í möguleikum og lausnum. Er okkur ekki bent á það í hinni góðu bók að líta á liljur vallarins og sjá að Guð hefur búið hverja þeirra þannig úr garði að hún geti lifað.

Leyfum hryggðinni ekki að festast á okkur. Verum minnug þess að Guð hefur útbúið okkur öll með þann hæfileika að aðlagast breytingum og finna færar leiðir til betra lífs.

Dustum hryggðina af okkur, höldum í vonina og göngum á móti hækkandi sól.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Hryggðin og vonin”

  1. Sigrún Löve skrifar:

    Þetta er mjög björt og góð hugvekja.
    Öll él styttir upp um síðir, segir gamalt máltæki. En það er gott að rfja það upp á þessum síðustu og verstu tímum, ekki veitir af.
    Kærar þakkir.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4270.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar