Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Guð og mammón I: Áhyggjur og áhyggjuleysi

„Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón“ (Mt 6.24).

Orðin eru skýr, maðurinn stendur á milli Guðs og mammóns. Hann verður að binda hjarta sitt við annan hvorn. Nú á dögum virðist þessi staða hrjá fólk og þær spurningar sem tengjast henni brenna á mönnum. En þessar aðstæður eru ekki nýjar. Siðbótarmaðurnn Marteinn Lúther fjallar um þennan vanda í útleggingu á þessum orðum Jesú. Hann tengir umfjöllun sína við grundvallarhugtök: Áhyggjur og/eða áhyggjuleysi, traust og blessun. Umfjöllun hans á ef til vill erindi við okkur. Í þremur pistlum um Guð og mammón verður leitast við að varpa ljósi á umfjöllun Lúther út frá þessum hugtökum.

I. Áhyggjur og áhyggjuleysi

Lúther segir að eðlilegt ástand mannsins sé áhyggjuleysið. Áhyggjurnar eru manninum framandi og þær hrífa hann frá grundvallartrausti sínu til Guðs. Lúther bendir á að allir menn treysti Guði ómeðvitað. Þetta er stórmerkileg áhersla ef hugað er að hve ítarlega Lúther fjallar um tilvistarlegan ótta mannins í þverstæðum veruleikans. Hann skrifar:

Ef mér skjátlast ekki, á maður erfitt með að trúa því að maðurinn treysti ekki Guði. Hann sem getur hvorki stjórnað lífi og limum af eigin geðþótta. Í þessu samhengi má gæta að korninu. Maðurinn felur Guði það á vald stærstan hluta ársins. Smá hluta þess vill hann sjá um kornið, en þá treystir hann ekki Guði. Svo lengi sem kornið er á akrinum, trúir hann, en um leið og það er komið heim í hlöðu, þá fyllist maðurinn ótta. Hann treystir Guði fyrir víðáttunni, en þegar hann er kominn með eitthvað heim, í mun minna rými, þá reiðir hann sig ekki lengur á Guð.

Maðurinn trúir sem sé Guði fyrir lífi og limum, og allri veröldinni. Hann lifir í ómeðvituðu grunntrausti til Guðs og gengur til sinna starfs í því trausti. Um leið og gæðin sem Guð gefur honum eru komin heim í hús og hann lítur á þau sem sína séreign, þá koma áhyggjurnar. Uppruna þeirra er að leita í því að maðurinn bindur traust sitt við gjafirnar en ekki gefandann. Þessi afstaða er heimska, sem maðurinn afneitar stöðugt og ómeðvitað í daglegu lífi sínu. Hann eyðir nefnilega stærstum hluta lífs síns í áhyggjuleysi. „Sofum við ekki nærri helming lífs okkar? Og hver sér um sjálfan sig er hann sefur?“ spyr Lúther. Maðurinn hefur sem sé í daglegu lífi sínu hvorki tíma né ástæðu til áhyggna. „Ef maður veltir þessu fyrir sér, þá kemur í ljós, að … mestan hluta ævi sinnar verður maðurinn að láta áhyggjurnar eiga sig.“ Grunnstaða mannsins er sem sé áhyggjuleysið, því einungis smá hluta ævi sinnar fellur hann í vantrú og lætur áhyggjurnar á þann stað sem áhyggjuleysið og ómeðvitað traust til Guðs á að vera.

Þverstæða mannlegs lífs er að maðurinn treystir Guði í stóru en ekki litlu. Vantrúin lætur hann flýja á náðir eigna sinna og í eigin dugnað og hann leggur á sig kross áhyggna og þjáningar. Trú og traust víkja fyrir óöryggi og nísku. Þetta á sérstaklega við þegar menn binda traust sitt við fé, þá breytist áhyggjuleysi skjótt í áhyggjur og traust í vantraust. Þannig þrykkir mammón mynd sinni á þjóna sína. Það er því undur fyrir þjóna mammóns að með fagnaðarerindinu skuli þeim vera boðað áhyggjuleysi.

Samkvæmt Lúther verður maðurinn að læra að staðsetja áhyggjur sínar. Líf og eðli kristinnar trúar samanstendur af tvennu, trú og kærleika. „Hið fyrra snýr að Guði, en hið síðara að náunganum. Hið fyrra sést ekki, en hið síðara sést. Það er kærleikurinn sem við eigum að sýna náunga okkar. Áhyggjur sem vaxa af þeim kærleika eru leyfðar, en áhyggjur sem stilla sér upp við hlið trúarinnar eru bannaðar.“

Að Guð sjái um sína, eru áhyggjurnar sem trúin heldur sér í. Hún hengir sig í áhyggjur Guðs um velferð mannsins. Hitt eru áhyggjur kærleikans sem snúa að velferð náungans. Þær koma þegar öðrum er sinnt í starfi og með fé okkar. Hér gildir eftirfarandi: „Guð segir: Hafðu ekki áhyggjur um hvað þú færð, hvað þú átt að gera. Láttu mig um áhyggjurnar, ég mun veita þér það sem þú þarfnast.“ Þannig er áhyggjuleysið manninum áskapað og í fagnaðarerindinu kallar Guð manninn til sjálfs síns sem er staða áhyggjuleysis. Í trúnni endurskapar Guð manninn með því að endurreisa Guðsmynd sína í honum og veitir honum á ný áhyggjuleysið. Mammón aftur á móti heldur manninum föstum í áhyggjunum. Hann gerir umhyggju fyrir sér og sínum og daglegt starf, að amstri og þunga.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4154.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar