Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Ævar Kjartansson

Er leiðsagnar að vænta frá Jesú Kristi í uppbyggingarferlinu?

Í kreppu einsog við erum að upplifa hér á Íslandi, skjóta ýmsar spurningar upp kollinum og gerast áleitnar, spurningar sem legið hafa í dvala um langa hríð. Spurningar um lögmæti aðgerða yfirvalda, spurningar um hvað sé siðlegt, menn grípa jafnvel til gamalla hugmynda um dauðasyndirnar einsog ágirndarinnar. Menn eru að átta sig á að þótt ýmislegt í gerðum furstanna í viðskiptalífinu nái því að standast lög er margt siðlaust í þeirra gjörðum.

Löglegt en siðlaust, miðað við hvaða sið? Hvenær verður til dæmis launamunur ókristilegur? Eða flokkspólitískar ráðningar? Hvenær verður kristið fólk að segja stopp? Hingað og ekki lengra, það eru ekki bara bankastjórarnir sem glata sálu sinni heldur við öll, því hjarta okkar verður upptekið af siðleysinu, hugurinn dvelur þar.

Nú er nauðsynlegt að halda gagnrýnu viðhorfi Jesú vakandi, að láta ekki allt samfélagið verða að ræningjabæli, þora að hafa það viðhorf að græðgi og ágirnd séu óásættanleg einkenni á okkar samfélagi. Hættan er ekki sálarheill nokkurra auðkýfinga, heldur þau skilaboð sem lífstíll þeirra og afstaða senda til ungmenna í samfélagi okkar.

Að keyra áfram á óprúttinni græðgi, elur á fánýti og eirðarleysi. Við verðum að einfalda áherslurnar í lífi okkar, ef við ætlum að hafa okkur út úr kreppunni. Gríðarleg áhersla á neyslu heimilanna, endalaust dekur við hagsæld fjölskyldunnar kemur niður á faræld hennar.

Sjálfbær þróun samfélagsins er inngróin í kristna arfleifð. Og það sama gildir um afstöðuna til náttúrunnar, en fyrir fylgjendur Jesú Krists er erfitt ef of mikið bil verður á milli þeirra hugmynda um breytni sem hún hefur byggt á um aldir og þeirra réttlætishugmynda sem virðast ofan á í samfélaginu að öðru leyti. Umönnunarskyldan er rík í kristinni hefð. Viss stef hafa komið og farið í gyðingkristinni hefð í árþúsundir. Þegar kreppir að þarf að standa vörð um hag ekkjunnnar, munaðarleysingjans og útlendingsins, þótt það í fljótu bragði virðist ganga gegn hugmynd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð.

Ég er ekki að segja að Kristur sé á móti AGS en hann myndi vilja fara varlega í sakirnar. Hann myndi vilja segja ýmsum að selja eigur sínar og gefa fátækum, eða með okkar tækjum, að hækka skatt á hátekjufólki svo um munaði. Hér erum við komin út í hreina og klára pólitík, en ég held að fordæmi Jesú Krists bendi okkur á að það sé nauðsynlegt. Ekki flokkapólitík, heldur velferðarpólitík, enda er norræna velferðaríkið afurð kristins þjóðfélagsskilnings. Jesús horfði á auðmanninn með ástúð og það þarf samfélag okkar að gera núna, benda auðjöfrum okkar tíma ástúðlega á að kyrrsetja sjálfir eigur sínar og nota þær handa þeim sem glannaskapur þeirra hefur bitnað á.

Þjóðkirkjan á ekki að vera flokkspólitísk, en hún á ekki að hika við að taka þátt í lýðræðislegri umræðu um grundvallargildi í samfélaginu og ekki bara að vera með almenna vísun í kærleika og fyrirgefningu heldur þjóðfélagslegt réttlæti og félagslegan kærleika hér og nú í þeim anda sem Jesús frá Nasaret hefði lagt til í stöðunni.

Upphaflega flutt sem hluti af erindi á fræðslumorgni í Hallgrímskirkju, 1. febrúar 2009.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Er leiðsagnar að vænta frá Jesú Kristi í uppbyggingarferlinu?”

 1. Ragnheiður Jónsdóttir skrifar:

  þakka Ævari fyrir þennan góða pistil, sem veitir yfirsýn og huggun og bendir á leið í öldurótinu.

 2. Hörður Áskelsson skrifar:

  Kærar þakkir til Ævars fyrir þarfa hugvekju. Vert er að kirkjan skerpi sýn einmitt á þessi viðhorf Krists til auðsöfnunar og komi þeim til skila í umræðunni um uppgjörið mikla.

 3. Irma Sjöfn Óskarsdóttir skrifar:

  Þakka fyrir góðan pistil og í honum góð orð um viðbrögð og leiðsögn Þjóðkirkjunnar s.s.
  .”ekki að hika við að taka þátt í lýðræðislegri umræðu um grundvallargildi..” mikið er ég sammála þér og einnig “..ekki bara vera með almenna vísun í kærleika og fyrirgefningu..”

 4. Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir skrifar:

  Kærar þakkir, Ævar, fyrir frábært erindi og þarfa umfjöllun.Einnig hjartans þakkir fyrir vandaða og góða útvarpsþætti sem glatt hafa fjölda fólks og uppfrætt menn gegnum árin.
  Kirkjan á að vera rödd Krists, skjól nauðstaddra og málsvari þeirra sem líða og höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Til þess er hún, svo einfalt er það. Það þýðir að við kirkjan þurfum og verðum að þora að segja skoðun okkar, þótt það geti kostað okkur vinsældir. Við kirkja Krists verðum að taka hina bágstöddu í hönd og okkur við hlið og með potta og pönnur á friðsaman hátt mótmæla ríkjandi óréttlæti í landi okkar og við eigum að vera í broddi fylkingar. Þá getur það orðið svo að við verðum “flokkspólitísk,” en hafa ekki prestar pólitiskar skoðanir, kosningarrétt og sjálfstæðar réttlætishugsanir? Jesús og spámenn Gamla testamentisins sýndu oft réttláta reiði, börðu í borð og hrundu um borðum og stólum. Við kirkjan skulum gera slíkt hið sama og segja : Hingað og ekki lengra, við erum sett til að standa vörð um réttlæti þjóðfélagsins og tryggja að miskunn verði sýnd hinum bágstöddu. Við getum ekki bara staðið og horft þegjandi á án þess að segja okkar meiningu.
  Það getur kostað mikið og Guð forði okkur frá þeirri þögn og efli hugrekki okkar.
  Ég vona að öll þjóðin standi með hinni skörunglegu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem skipuð hefur verið forsætisráherra Íslands en sú kona vill lifa samkvæmt réttlætisboðskap bæði Gamla- og Nýja testamentisins og að öllum líkindum hefur hún verið kölluð til þessa starfs fyrir land og þjóð. Guð hefur heyrt grát og kvein þjóðar sinnar
  og sent sendiboða sinn.

 5. Þórir Kristinsson skrifar:

  pistillinn er ágætur. Hrunið hefði náttúrulega aldrei orðið ef menn hefðu haft Krist að leiðarljósi. Hinsvegar verða menn að fara afar varlega í að blanda saman pólítík og Kristinni trú. Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er mælti Frelsarinn. Hver og einn þarf að fylgja þeirri rödd sem á hjartað knýr
  en það að kalla Jóhönnu sendiboða Guðs eins Guðbjörg gerir er fáránlegt og ósmekklegt.
  Það voru prestar í Þýskalandi sem lofuðu Hitler með svipuðum hætti. Ekki flokkapólítík skrifar Ævar, höfum það hugfast.

 6. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ævar, hvað finnst Jesú um inngögu í ESB og stjórn Seðlabankans?

 7. Gunnþór Þ.Ingason skrifar:

  Greinargóður pistill,skorinorður og tímabær líkt og annað sem kemur frá Ævari í útvarpsþáttum og fjölmiðlum. Þakkir og blessunaróskir.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5188.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar