Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Ljós og andi jólanna

Ég kom á dögunum í Borgartún í Reykjavík þar sem jólaúthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar og Rauða kross Íslands stóð yfir. Fjöldi sjálfboðaliða var þar á þönum við að fylla á poka og aðstoða fólk sem þurfti á aðstoð að halda fyrir þessi jól. Hjálparumsóknir frá 2300 fjölskyldum höfðu þá borist, fleiri en nokkru sinni og enn var að bætast við.

Það var í senn dapurlegt og ánægjulegt að verða vitni að þessu. Og það gaf von. Dapurlegt er að vita af öllum þeim fjölda fólks sem neyðist til að leita sér hjálpar. Ekki síst að sjá unga foreldra með lítil börn, og skynja þá neyð sem að baki býr. En gleðilegt að vita til að hægt er að koma til móts við þá neyð vegna svo ótrúlegrar velvildar og örlætis einstaklinga og fyrirtækja.

Sjálfboðaliðarnir eru úr ýmsum áttum og á ýmsum aldri, unglingar úr æskulýðsstarfi kirkjunnar þar á meðal, og starfsfólk Símans og Straums sem fékk frí til að taka þátt í úthlutuninni. Það var mikið að gera, ys og erill, en ánægja og þakklæti í ásjónum fólksins. Jólagleði er gleði gjafmildinnar, umhyggjunnar, kærleikans, sem lýkur upp hliðum vonarinnar um tíð og tíma þar sem þeir þættir fá að ráða í mannlífinu.

Fyrir ýmsum eru jólin tími streitu og spennu, öðrum eru þau tími einsemdar og sorgar. Afar mörgum tími eru þau eyðslu og neyslu. En umfram allt eru jólin tími umhyggju um eigin dýpstu þarfir, um náungann og þau sem með einum eða öðrum hætti fara halloka í lífinu. Jólin hræra við innstu hjartastrengjum með löngun eftir friði, gleði og góðvild. Sál og andi sér og skynjar þar ótal tákn hins góða og fagra, vonar og gleði þar sem fólk er að leitast við að gera öðrum gott, gleðja, styðja, líkna, hjálpa. Þess vegna eru jólin engu lík. Það er engin tilviljun. Það er vegna jólabarnsins, barnsins í jötunni, frelsarans Jesú Krists.

Öll finnum við undrun og lotningu er við lítum nýfætt barn. Jólamyndin af barninu í jötunni snertir við þann streng í sálu okkar. Og er hann ómar þá er vitund okkar beint til þess sem er handan við það sem augun sjá og sálin skynjar, það er Guð sem gefur allt sem er gott og fagurt. Hann er að lækna þennan heim og lífið allt. Leyfðu orði hans að snerta þig og ljósi hans anda að leiða og blessa þig.

Gleðileg jól

Karl Sigurbjörnsson

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2830.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar