Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ingólfur Hartvigsson

Jesús stendur við dyrnar og knýr á

Piparkökur

Jólin eru að koma og flest okkar eru langt komin með að undirbúa okkur og heimili okkar fyrir komu hins háa gests. Gesturinn er Guð sjálfur og hvert fátækt hreysi höll nú er, því Guð er sjálfur gestur hér. Guð verður gestur á hverju heimili um jólin.

Ekki bara í kirkjunni heldur á sérhverju heimili þar sem beðið er eftir komu Jesúbarnsins. Þá skiptir það ekki máli hvort um hreysi eða höll er að ræða. Yfir jólanóttina verða öll heimili að höllum og sönnum helgidómum. Á aðventunni er mikilvægt að átta sig á því að það er gesturinn en ekki gestgjafinn sem gerir hvert hreysi að höll. Það þarf að ekki breyta húsinu sínu í skínandi ljósaskilti til þess að jesúbarnið rati þangað. Það er ekki þess konar undirbúningur sem er nauðsynlegur fyrir komu barnsins. Jesús er nú þegar hjá okkur. Við þurfum ekki að leita frelsarans eins og vitringarnir forðum. Heldur aðeins að opna dyrnar og hleypa honum inn.

Það er gott að hafa þetta í huga þegar aðeins nokkrir dagar eru til jóla og margt sem þarf að huga að. Ef við erum sein fyrir þá er hættan sú að verkin verði íþyngjandi. Þá fer allt úr skorðum og hversdagslegar venjur fjölskyldunar vilja gleymast. Það getur oft verið erfitt sérstaklega ef börn eru á heimilinu. Það er nauðsynlegt að átta sig á því að við getum valið og hafnað. Hafnað því sem er íþyngjandi og valið það sem gerir aðventuna gleðilega. Við þurfum að spyrja okkur sjálf að því hvað kemur okkur í jólaskap. Hinar hversdagslegu venjur umturnast þá ekki heldur breytast aðeins lítillega.

Jesús er ekki jólaskraut sem við finnum fyrir jól og setjum á sinn stað í stofunni til þess að komast í jólaskap. Jesús Kristur er sonur Guðs og frelsari mannanna á öllum tímum og allstaðar. Margt af því jólaskrauti sem við notum minnir okkur einmitt á þá gjöf sem Guð gaf okkur hverju og einu og englarnir sögðu frá: Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn. Þess vegna fögnum við um jól. Þess vegna undirbúum við heimili okkar og okkur sjálf á aðventunni. En gjöfin gildir allt árið, alltaf. Jesús sagði ekki: Og sjá ég er hjá yður um jólin. Heldur: Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3001.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar