Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Stefán Einar Stefánsson

Sú þjóð sem í myrkri gengur

Löngum hef ég staðið sjálfan mig að því að efast um þær mögnuðu og oft og tíðum hörmulegu frásagnir sem finna má í ritum spámanna Gamla testamentisins og lúta að örlögum Ísraels. Hefur mér fundist sem lýsingarnar gangi of langt og lýsi öðru en raunveruleikanum. En nú er viðhorf mitt breytt og þegar ég les vitnisburð Jesaja spámanns virðist hvert einasta orð miðla til mín sönnum minningum um löngu liðna atburði sem snertu fólk af holdi og blóði. En afhverju hefur þessi afstaða mín breyst?

Það er ekki vegna þess að ég hafi sjálfur lent í viðlíka atburðum og ekki er það vegna frekari sönnunargagna um sannleiksgildi frásagnanna. Þetta nýja viðhorf mitt byggir mun frekar á því að mín eigin þjóð, mitt eigið fólk horfist nú í augu við erfiðleika sem ganga nærri fólki og marka djúp spor í sögu þjóðarinnar. Ég fullyrði að ástand mála hérlendis sé ekki líkt því sem Jesaja lýsir enda er ekki um líf og dauða að tefla, en þjáning er þjáning þó dauðinn sé ekki endilega í augsýn og hún getur lagst þungt á fólk. Hún verður svo enn áþreifanlegri þegar hún gengur yfir heila þjóð, samfélag, án þess að nokkur sé undanskilinn.

Í nýútkominni bók sinni, Nýja Ísland. Listin að týna sjálfum sér, fjallar Guðmundur Magnússon um þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa hérlendis á síðustu áratugum. Þar er á ferðinni ádeila þar sem hann varpar fram þeirri sýn að ýmislegt í grundvallargildum íslensks þjóðfélags hafi hopað fyrir nýjum straumum og stefnum - oft miður góðum. Það sem gerir bók Guðmundar ekki síst sérstaka er sú staðreynd að handrit hennar var tilbúið vikum fyrir hið mikla fall bankanna og því ekki rituð inn í þær aðstæður sem slíkar, heldur til þjóðar sem villst hefur af leið og stefnir í ranga átt. Hún er spádómur, hún lýsir ástandi sem er bogið; líkast ör sem missir marks.

Eftir að bankarnir hrundu og landið einangraðist og enginn virtist ætla að koma hinni smáu þjóð til hjálpar, hafa menn keppst um að tala um það hörmungarástand sem upp er komið og hversu mjög það mun skerða lífskjör okkar allra. Er engu líkara en að menn líti svo á að þjóðin gangi um dimman dal. Guðmundur Magnússon heldur því hins vegar fram að myrkrið hafi fyrir löngu skollið á; spurningin er því sú hvort fallið mikla í október síðastliðnum hafi verið forsenda þess að þjóðin sjái ljósið að nýju?

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3843.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar