Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jóna Lovísa Jónsdóttir

Sá yðar, sem syndlaus er…

kasti fyrsta steininum. Eða ættum við að segja eggjunum?

Á fjórða þúsund manns tók þátt í mótmælum gegn ríkisstjórninni á Austurvelli í gær. Kastað var eggjum og tómötum í Alþingishúsið, auk þess sem fáni verslunarinnar Bónuss blakti þar við hún.
(Fréttablaðið 9. nóvember 2008, bls. 4)

Reiðin er mikil í þjóðfélaginu í dag.  Fólk leitar útrásar fyrir reiði sína.  Á laugardaginn safnaðist fólk saman á Austurvelli  til þess að mótmæla.  Mótmæla hverju, spurði undirrituð sig og las greinina.  Það stóð hvergi skýrum stöfum hverju verið væri að mótmæla.  Þó virtist sem sumir væru þar samankomnir til þess að tjá andstöðu sína við ríkisstjórnina, aðrir mótmæltu spillingu og enn aðrir virtust vilja lýsa óbeit sinni á Bónus eða Baugsmönnum.  Eggjum og tómötum var kastað í Alþingishúsið, lögregla var kölluð á vettvang og þurfti að hafa afskipti af fólki.  Hvað ætli það kosti að láta þrífa egg og tómata af Alþingishúsinu?  Hvað ætli það kosti að kalla til auka fólk á vakt lögreglunnar?
 
Reiði almennings er skiljanleg.  Almenningur vill fá svör, vill skilja hvers vegna ástandið er eins og raun ber vitni.  Almenningur vill vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera í málunum.  Hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við.  Ætla þau að hjálpa Jóni Jónssyni sem er u.þ.b. að missa húsið sitt eða verður hann, konan hans og börnin hans þrjú borin út?  Hún Gunna í næsta húsi er einstæð móðir.  Hún vann í bankanum, hafði keypt sér íbúð og var í góðum málum þar til fyrir tveim vikum síðan…er hún missti vinnuna.  Nú getur hún ekki borgað af lánunum, getur ekki greitt æfingagjöld fyrir börnin sín og verður að kaupa mat út á krít.  Gunna á orðið erfitt með svefn.
 
Reiði er ekki endilega neikvæð tilfinning.  Eðli reiðinnar er að leita útrásar – sem er gott ef að henni er beint í réttan farveg.  Reiði sem ekki fær útrás veldur biturð – sem er slæmt vegna þess að þar grasserar hún óáreitt og brýtur niður einstaklinginn.  Reiði sem brýst út með aðgerðum, með látum,  kallar á viðbrögð sem að vonandi eru þess eðlis að breyta því sem breyta þarf og þar með friðþægja þann er til reiðinnar fann – að einhverju leyti. 
 
Það er sorglegt að þurfa að kasta eggjum og tómötum til þess að vekja viðbrögð hjá ráðamönnum.  Það er eðlilegt að fólk krefjist skýringa á því ástandi sem ríkir í landinu.  Fólk á kröfu á því að vita hvers vegna efnahagskerfið hrundi og hvað verið sé að gera í málunum.  Það eru eflaust margir sem bera þunga ábyrgð á stöðu mála í dag og vonandi munu þeir aðilar axla þá ábyrgð á viðunandi hátt.
 
Og það er vonandi að fyrirgefningin verði þá ekki langt undan.
 
Krefjumst þess að fá svör, að ábyrgð sé öxluð en á sama tíma skulum við líta í eigin barm, axla okkar eigin ábyrgð, forðast dómhörku og hafa kærleikann að leiðarljósi í orðum okkar og gjörðum. 
 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2891.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar