Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arna Grétarsdóttir

Ljós, steinar og rósir

Hvelfing Tøyen kirkju fylltist af fögrum tónum þetta fallega haustkvöld í Ósló. Ég sat á kirkjubekk sem búið var að raða í hring svo ekki var komist hjá því að horfa framan í aðra kirkjugesti. Ég var þreytt, úrvinda, kom beint af flugvellinum og nennti eiginlega ekki að vera þarna. Vildi miklu heldur fara heim í faðm fjölskyldunnar og fyllast orku við þá gleði sem myndi mæta mér við heimkomu mína eftir nokkra daga fjarveru. Ég var víst búin að lofa því að mæta svo við það varð að standa.

RósirÉg horfði í kringum mig og heilsaði kunnuglegum andlitum, skiptist á orðum við einhverja og settist svo niður. Við mér blasti altaristaflan sem gerð var af Emanuel Vigeland; Jesús geislum prýddur og þreyttir, þreklausir menn við fætur hans. Áletrunin á bogadregnum veggnum framan við kórinn gerði útslagið: Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.(Matt.11.28).

Fallegur kór stillti sér upp fyrir miðri kirkju og undur fagrir tónar fylltu sálar sali. Móðurmálið ylhýra hljómaði framandi, seiðandi og sefandi. Það var Ískórinn sem söng undir styrkri stjórn fjögurra stjórnanda sem hafa leitt syngjandi Íslendinga í Noregi í tuttugu ár.

Kórinn færði sig nær kór kirkjunnar og við blasti þau þrjú áhrifamiklu tákn sem Tøyen kirkjan er þekkt fyrir. Tákn sem tala svo ósegjanlega sterkt inn í ótal aðstæður.

Ljósið er tákn vonarinnar, trúar og bænar. Í gegnum hugann fer bæði hin orðlausa og orðaða bæn. Vonin birtist í ljósinu sem lýsir upp dimm skúmaskot bæði hið innra sem ytra. Trúin fær að brenna sem eldur í hjarta þeirra sem íhuga og meðtaka Jesú sem ljós lífsins.

Múrsteinar eru tákn fyrir götuna eða götulífið. Öll reynsla lífsins, hversdagurinn, allur vanmáttur, gleði og sorg, fær sinn stað í kirkjunni. Gatan sem við reikum um, hlaupum á eða ökum um þekkir hvert okkar spor. Það líf sem við lifum er tekið með inn í helgidóminn og þar er lífið í öllum sínum myndum helgað og hreinsað.

Rósirnar eru tákn kærleikans. Rauðar og fallega útsprungnar rósirnar hlýja hið innra. Fram koma myndir af ástvinum, foreldrum, systkynum, maka og börnum. Rósirnar minna bæði á kærleika Guðs og manna. Þær segja sögu um þá miklu ást sem Guð sýndi mannkyni í syni sínum á krossinum.

Nærvera þessara sýnilegu tákna eru kraftmikil í sínu látleysi. Predikun á orða. Heilög helgistund í Tøyen kirkju sem kveður hvern gest með óvenjulegri en áhrifaríkri blessun:

Blessuð veri augu þín, svo þú sjáir skýrt,

Blessaður veri munnur þinn, svo þú segir satt ,

Blessuð veri eyru þín, svo þú heyrir það sem sagt er við þig,

Blessað veri hjarta þitt, svo þú fyllist af kærleika,

Blessaðir veri fætur þínir, svo þú megir finna og ganga þann veg sem er sá rétti fyrir þig.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4078.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar