Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Íris Kristjánsdóttir

Hugleiðingar mótorhjólakonu

Ég held ég hafi verið 5 ára þegar ég lærði að hjóla. Mikið svakalega var tilfinningin góð, að finna vindinn leika um sig er maður flaug eins og fuglinn um stéttir og götur. Um 12 árum seinna settist ég svo fyrst á mótorhjól og hugtakið frelsi fékk nýja merkingu í mínum huga.

Í dag er ég stoltur eigandi 1300 kúbika mótorhjóls og aldrei glaðari en hjólandi einhver staðar á vegum landsins, í beinu sambandi við Guð og náttúruna.

Hjólamennska er í raun eins og hver önnur útivist. Að vísu felur hún ekki í sér mikla líkamlega hreyfingu en nærvera við náttúruna er ekki minni en þegar klifið er upp á fjallstind eða gengið um í Heiðmörk. Á ferð á mótorhjóli tekur líkami og sál á móti öllu því sem náttúran hefur upp á að bjóða, maður andar að sér andrúmsloftinu á nýja hátt og öðlast með því annan skilning og tengsl við sköpunarverkið.

Vitnisburður náttúrunnar er sá sem að mínu mati útskýrir einna best tilveru Guðs í heiminum. Hversu mikið sem við mannfólkið reynum þá tekst okkur aldrei að koma orðum að því sem Guð opinberar sjálfur í sköpunarverkinu. Þá getur verið gott að fá smá aðstoð frá hlutum sem hannaðir hafa verið okkur mannfólkinu til gagns og gamans, hlutum eins og mótorhjólum sem gera manni kleift að sjá lífið og tilveruna í allt öðru ljósi. Þessi hlutur hefur hentað mér vel í tilraun minni til að færast örlítið nær skaparanum og verkum hans. Og stöðugt geri ég nýjar uppgötvanir á vettvangi trúarinnar í hjólaferðum mínum um landið. Í sumar skruppum við t.d. nokkrar dömur í kvenhjólaklúbbnum Skutlurnar hringinn í kringum landið á fákunum okkar. Þetta gerðum við einnig fyrir ári síðan og nutum okkar út í ystu æsar á þjóðvegum landsins.
Ferðir þessar voru mér sannkölluð trúarreynsla. Þarna upplifði ég samfélag með skemmtilegu fólki í gleði og sorgum þess, öðlaðist nýja sýn á landi og þjóð og fann þessa unaðslegu tengingu við hið skapaða.
Að ferð lokinni kom ég svo heim, glöð og endurnærð, bæði vegna samfélagsins við félaga mína en einnig samfélagsins við Guð í náttúrunni.

Að sjá, finna og skilja eru hugtök sem fá nýja merkingu þegar ekið er um á mótorfáki. Skilningarvitin nema ekki einungis það sem er á ytra borðinu heldur einnig því innra. Þess vegna held ég áfram að hjóla.
Með því móti endurnýjast og endurnærist trú mín í gegnum verk Guðs allt í kring. Fyrir það er ég þakklát.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3236.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar