Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Hörður Áskelsson

Heyr himna smiður

Á þessu ári minnumst við þess að 800 ár eru liðin síðan Kolbeinn Tumason orti sálminn Heyr himna smiður, elsta sálm okkar Íslendinga og elsta sálm á norrænni tungu sem sunginn er í dag. Það má staðhæfa að þessi magnaði texti í samspili við lag Þorkels Sigurbjörnssonar sé sannkölluð „meistarasmíð“. Hvernig má það vera að flétta tveggja listamanna frá gjörólíkum skeiðum í sögunni hafi náð þeirri stöðu, að vera óumdeilanlega ein skærasta perlan í sálmasafni Íslands? Ómögulegt er að svara þeirri spurningu með einföldum hætti.

Velta má fyrir sér hvað sé góður sálmur.

Sálmur í messuskráÉg geri tillögu að skilgreiningu sem gæti verið skynsamleg: Góður sálmur er vel ort ljóð, á góðu skiljanlegu máli, með lagi sem gott er að syngja, auðvelt að læra. Góður sálmur þolir mikla endurtekningu. Stenst Heyr himna smiður slíka skilgreiningu? Skoðum þetta betur.

Texti Kolbeins Tumasonar er sannanlega vel ort ljóð. Það er innblásið, hátíðlegt með skáldlegum líkingum. Það bregður fyrir nokkrum orðum, sem nútíma fólki eru framandi, “röðla gramur”, “mildingur” og “meyjar mögur”. Hér er sem sagt á ferðinni gott mál en ekki auðskiljanlegt venjulegu nútímafólki. Lagið sem Þorkell Sigurbjörnsson gerði við hinn forna texta fyrir meir en þrjátíu árum, hefur gert textann lifandi og lyft honum í hæðir. Það er innblásin tónsmíð, sem nær að sameina gamalt og nýtt á meistaralegan hátt. Varla fellur það samt undir skilgreininguna “auðvelt að læra”, bæði laglínan og tóntegundin eru ekki auðveld fyrir almennan kirkjugest. Í laglínunni koma fyrir hrynmótíf sem ekki eru auðsyngjanleg lítt lærðum söngvurum. Ósamræmi stuðlasetningar í versunum þremur kallar á tilfærslu á áherslum sem er ruglandi þegar öll versin eru sungin.

Ég hef haldið því fram að lag Þorkels í sinni fögru fjögurra radda útsetningu sé fyrst og fremst frábært kórsöngslag, vinsældir þess og viðurkenning í röðum kórfólks eru enda slík að vart finnst hliðstæða. Sjálfur hef ég stýrt kórum við flutning þessa sálms óteljandi sinnum og get borið vitni um óþrjótandi töfra hans, hver einasta endurtekning kallar fram sterk hughrif lotningar og fegurðar. Ég hef verið á þeirri skoðun að lag Þorkels sé ekki vel fallið til almenns einraddaðs söngs.

Nýleg upplifun á prestastefnu í Reykjavík, þar sem fjöldi presta, karla og kvenna, söng fyrsta vers sálmsins, einraddað og undirleikslaust og sálmurinn náði töfrandi flugi, breytti skoðun minni. Þvert gegn rökum mínum um óæskilega eiginleika lagsins til almenns söngs hljómaði söngurinn kröftugur, fagur og sannfærandi í þessum samstillta prestasöfnuði. Ég hefði viljað heyra þennan söfnuð syngja öll versin þrjú.

Niðurstaða hugleiðinga minna hér er sú að erfitt sé að búa til skilgreiningu fyrir góðan sálm. Heyr himna smiður, sem samkvæmt almennri skilgreiningu um góðan safnaðarsálm er gallaður sálmur, hefur sannað sig á aðalvettvangi sálmanna í lifandi samspili litúrgíu og safnaðar sem frábær sálmur. Þá er ég að tala um sálminn sem samþættingu ljóðs og lags.

Það er gleðiefni að skriður skuli vera kominn á vinnu sálmabókarnefndar þjóðkirkjunnar undir forystu dr. Einars Sigurbjörnssonar. Stefnt er að nýrri sálmabók á næstu árum. Hvernig skyldi sálmabókarnefndin skilgreina sálminn? Hvernig metur nefndin gæði sálms? Hvort vegur þyngra gæði ljóðs eða lags? Á sálmur þá aðeins tilverurétt í sálmabók að hann sé vel fallinn til almenns söngs? Þetta eru dæmi um spurningar sem Sálmbókarnefnd hlýtur að velta fyrir sér, þegar hún stillir upp nýju sálmaliði.

Í Tónlistarstefnu kirkjunnar er sálmabókin sett í virðingarsæti í helgihaldi kirkjunnar við hliðina á Handbókinni og Biblíunni. Í Tónlistarstefnunni er líka áberandi áhersla á þátttöku almennings í sálmasöngnum. Í samræmi við það finnst mér að allir sálmar í sálmbókinni eigi að vera prentaðir með nótum, sem undirstrikar þá skilgreiningu að sálmabókin sé söngbók.

Ég tel að gera eigi jafnar gæðakröfur til bæði lags og texta, þannig að einungis sé stillt upp sálmum, þar sem bæði atriðin standist lágmarkskröfur. Ljóst er að sálmabókarnefnd og ráðgjafahópum hennar er vandi á höndum.

Framangreind reynsla af sálmi Kolbeins og Þorkels á vettvangi iðkunarinnar, sýnir að almenn skilgreining á eiginleikum góðs sálms er ekki öruggur mælikvarði á hvaða sálmar raunverulega lifna og lifa á vörum safnaðarfólks. Eitt er víst að sálmurinn sem í sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar frá 1996 ber töluna 308 og var ortur árið 1208 á Hólum í Hjaltadal verður áfram í nýrri sálmabók þjóðkirkjunnar. Heyr himnasmiður verður hugsanlega enn sunginn á Íslandi eftir önnur 800 ár.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7107.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar