Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigfús Kristjánsson

Sumar með skátum

Nú í sumarbyrjun er skemmtilegt að rifja örlítið upp óvenjulegt verkefni sem kom í minn hlut síðasta sumar. Að fara með rúmlega fjögu rhundruð íslenskum skátum á alheimsmót skáta í Englandi. Þegar ljóst var að fjöldi skáta yrði svo mikil frá Íslandi reyndi fararstjórn að sjá til þess að með hópnum færi góður hópur skáta sem gæti tekist á við flest þau verkefni sem upp gætu komið. Það fór því svo að fararstjóri hópsins fór þess á leit við Biskupsstofu að prestur kæmi með í ferðina. Þeirri málaleitan var vel tekið og kom þetta verkefni í mínar hendur vegna nokkurrar reynslu af skátastörfum.

Á þessu móti komu saman rúmlega 40 þúsund skátar frá öllum heimshornum, um 180 löndum. Allir bjuggu þeir í tjöldum á risastóru tjaldstæði í Hylands Park sem er rétt hjá bænum Chelmsford sem er í u.þ.b. þriggja klukkutíma akstursfjarlægð frá London. Í íslenska hópnum voru margir skátar á ýmsum aldri, allt frá 14 ára og þeir elstu á eftirlaunaaldri. Á þessu móti tóku skátarnir þátt í vandaðri dagskrá og nutu þess að kynnast skátasystkinum sínum frá ólíkum löndum. Stórt svæði á þessu tjaldstæði var tileinkað trúariðkun og voru þar tjöld með bænaaðstöðu frá mörgum trúfélögum og þar gat að líta mikla fjölbreytni.

Það var einstaklega gaman að fylgjast með þessu móti og sjá þetta fjölþjóðlega og litríka samfélag verða til. Ísland var með stórt kynningartjald þar sem voru einnig höfuðstöðvar íslenska hópsins. Næstu nágrannar okkar á tjaldsvæðinu voru Saudi-Arabar, Tékkar og Kínverjar. Þarna komu allir saman í bróðerni og virðing var borin fyrir siðum og venjum annarra. Líklega getur samfélag manna í heiminum lært mikið af samkomu sem þessari og vonandi var þarna innsýn í framtíð friðar og samkenndar.

Það var sérstaklega tilkomumikið að fylgjast með þeirri stund þegar allir þessir skátar komu saman á 100 ára afmæli hreyfingarinnar og fóru saman með skátaheitið, hver á sínu tungumáli. Slagorð mótsins var: Einn heimur, eitt heiti.

Það má segja að flestir sem upplifðu hafi fyllst bjartsýni og nýrri trú á það að mannkyn allt gæti sannarlega lifað saman í sátt og samlyndi. Það er mikil vinna að setja saman mót sem þetta og nú býður þátttakenda sú skemmtilega vinna að viðhalda nýjum vinaböndum. En sú vinna er virkilega mikils virði og mun gera þátttakendur að ríkari einstaklingum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3125.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar