Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ágúst Einarsson

Boðorðin 10 í jákvæðri túlkun

Boðorðin 10 rekja uppruna sinn til sáttmála sem gerður var á Sínaífjalli fyrir meira en 3 þúsund árum. Samkvæmt II Mósebók 20. kafla bárust þessi boðorð Móse til eyrna frá Drottni Guði sjálfum. Móse flutti þjóð sinni boðorð Guðs og síðan hafa þau borist um víða veröld. Þessi gömlu boðorð hafa haft gildi langt út fyrir sitt trúarlega samhengi og hafa verið notuð sem fyrirmynd að siðferði, lögum og reglum mannlegs samfélags á öllum tímum.

Vissulega standa boðorðin 10 fyrir sínu eins og þau eru skráð í Heilagri ritningu. En eins og sést best á síðasta boðorðinu þurfa þau eins og aðrir biblíutextar, túlkun og heimfærslu til breyttra aðstæðna í nútímanum.

Við tökum einnig eftir því að boðorðin eru mörg hver með neikvæðum formerkjum ”þú skalt ekki…”. Hér eru skýr skilaboð á ferðinni um það sem ber að varast. En þegar hugað er að uppeldi er kennslufræðilega áhrifaríkara að fá leiðbeiningu með jákvæðum formerkjum. Þar liggja sömu lögmál að baki eins og þegar verið er að kenna barni að hjóla. Best er að ”horfa á veginn” í stað þess að einblína á hætturnar til beggja hliða.

Þess vegna er áhugavert að skoða boðorðin eins og þau eru umorðuð hér að neðan. Í jákvæðri túlkun boðorðanna er áherslan á sjálft verkefnið, hvernig lifa skuli eftir þeim.

Boðorðin 10 hafa reynst vel sem andlegur spegill til að skoða sinn innri mann. Hvernig get ég bætt mig í listinni að lifa rétt? Horfum nú í ”spegilinn” frá tveimur hliðum:

Boðorðin 10 og Boðorðin 10 í jákvæðri túlkun

1. Ég er Drottinn, Guð þinn, þú skal ekki aðra guði hafa
1. Gerðu upp við hjáguðina og lifðu fyrir og í kærleika Guðs.

2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
2. Notaðu fúslega nafn Guðs og biddu um styrk hans – en til góðra verka.

3. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
3. Unntu þér reglulegrar hvíldar og tíma til andlegrar íhugunar.

4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
4. Auðsýndu foreldrum þínum virðingu og kærleika. Láttu börnin þín njóta þess sama.

5. Þú skalt ekki mann deyða.
5. Verndaðu lífið og hlúðu að því í öllum myndum.

6. Þú skalt ekki drýgja hór.
6. Vertu maka þínum trú/r.

7. Þú skalt ekki stela.
7. Berðu virðingu fyrir eigum og réttindum annarra.

8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
8. Vertu áreiðanleg/ur í hugsunum, orðum og verkum. Efndu loforð þín og baktalaðu engan.

9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
9. Berstu gegn öfund og löngun til að eignast alla hluti.

10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.
10. Samfagnaðu meðbróður þínum þegar honum vegnar vel í lífinu.

Þegar við skoðum líf okkar í ljósi þessara góðu og gildu lífsreglna fáum við mælistiku á rétt og rangt. Við fáum viðmið sem við finnum að hollt er draga fram, bera sig saman við og læra af. Jákvæða túlkunin boðar engin ný sannindi en hún dregur fram merkingu í boðorðunum sem gefur bein svör við mikilvægum spurningum á borð við:

 • Hver er tilgangur lífsins?
 • Hvernig á ég að lifa?

Boðorðin 10 eru lífsreglur sem fjalla um samband einstaklingsins við Guð og menn. Með því að setja fram grundvallaratriði og vara við hættum segja boðorðin okkur einfaldlega hvernig mannlegt líf ætti að vera. Þó hver byltingin reki aðra í ytra tilliti, virðist mannlegt eðli ekki breytast mikið. Boðorðin eru því jafn þörf áminning hverri kynslóð.

Þessi nýja framsetning boðorðanna er byggð á texta sænska biskupsins Lennarts Koskinen í bókinni Nya Lilla Katekesen þar sem hann setur fram Fræðin minni í Lútherskum anda fyrir nýja tíma.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Boðorðin 10 í jákvæðri túlkun”

 1. Tinna Ágústsdóttir skrifar:

  hæhæ
  mjög góður pistill hjá þér…opnar alveg nýja sýn á boðorðin 10 fyrir mér:)
  takk:)
  b.kv.Tinna

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 10105.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar