Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Óskar Hafsteinn Óskarsson

Ljós og lampi handa fermingarbörnum

Landlæknir hefur varað við notkun ungs fólks á ljósalömpum til sólbaða. Um leið og ástæða er til að taka undir þá viðvörun má minna á bók sem bæði hefur að geyma ljós og lampa. Lampinn sá er að vísu ekki líklegur til brúnku en er hins vegar lykill að menningu okkar og hefur reynst mörgum ljós fyrir sálina. Hér er að sjálfssögðu átt við bók bókanna, Biblíuna, sem kom út í nýrri þýðingu nú á haustdögum. Eins og við mátti búast hafa orðið skiptar skoðanir um þýðinguna.

Varúð: Ný Biblía!

Foreldri fermingarbarns spurði mig á dögunum: „Er óhætt að kaupa þessa nýju Biblíu?”
Spurningin vakti mig til umhugsunar. Getur verið að gagnrýni og umræður um einstök vers og orð í nýrri þýðingu séu að skyggja á heildarmyndina og jafnvel fæla frá? Enginn vafi er á því að margt orkar tvímælis við þýðingu á fornum textum en niðurstaðan er engu að síður glæsileg útgáfa af Biblíunni sem fylgja mun þjóðinni inn í 21. öldina. Ekki verður betur séð en að textar nýju þýðingarinnar séu settir fram á lipurri og læsilegri nútíma íslensku. Í mörgu er þýðingin áþekk útgáfu Biblíunnar frá 1981 og þær smávægilegu breytingar á orðalagi sem ég hef rekist á virðast yfirleitt til bóta. Sum rit Gamla testamentisins eru reyndar nokkuð breytt frá fyrri þýðingu sem undirstrikar vel sérkenni nýrrar biblíuútgáfu.

Aðgengilegri textar

Nokkur atriði í nýju Biblíunni frá 2007, sem einkum lúta að framsetningu textanna, er einnig ástæða til að nefna sérstaklega. Stuttur inngangur fyrir hvert rit Biblíunnar þar sem fjallað er um innihald og megin efnisskiptingu er mjög hjálplegur leiðarvísir fyrir lesandann. Uppsetning á ljóðum spámannaritanna í Gamla testamentinu er sömuleiðis verulega til skilningsauka við lesturinn. Þá er mikill fengur í Apókrýfu bókunum inn í íslensku Biblíuna og leyfi ég mér að benda á Síraksbók fremsta þar meðal jafningja. Sérstakt ánægjuefni er að sjá hvernig orðfæri textanna í bréfum Nýja testamentisins hefur verið snúið yfir á mál beggja kynja í nýju biblíuþýðingunni. Þannig eru bræður ekki aðeins ávarpaðir þegar lesið er úr bréfum Páls postula í helgihaldi sunnudagsins heldur bræður og systur, systkin eða söfnuður. Allar þessar breytingar, og fleiri til, gera hina fornu texta aðgengilegri og áheyrilegri en áður, ekki síst fyrir yngra fólk. Það er því ekki aðeins óhætt að lesa nýja útgáfu Biblíunnar heldur er beinlínis ástæða til að mæla með lestrinum.

Gjafir sem gleðja

Fermingar eru nú framundan í kirkjum landsins. Fjölskyldur halda hátíð og gleðjast enda full ástæða til að fagna. Jáið sem gefið er á þessum tímamótum skiptir máli. Þar er vegur valinn. Gjarnan er reynt að efast um heilindi fermingarbarnanna í ákvörðun sinni með því til dæmis að halda því talsvert á lofti að tilstandið snúist eingöngu um gjafirnar. Ekki var ég spurður út í það 25 ára gamall hvort ég væri að halda upp á afmælið bara til að fá pakkana og í brúðkaupsveislunni var heldur ekki spurt hvort ástæða hátíðarinnar væri gjafagræðgi. Við efnum til vinafunda við ýmis tilefni á lífsleiðinni og gefum gjafir til að gleðja. Þegar kemur að veislum og gjöfum í neyslusamfélagi samtímans er hollt að hafa í huga varnaðarorð Síraksbókar: „Ofátið veldur vanheilsu, óhóf í mat iðrakveisu. Óhóf varð mörgum að aldurtila en hófsemdarmaður lengir lífið.” (Sír 37:30-31)

Eiguleg fermingargjöf

Orð Biblíunnar hefur svo sannarlega orðið kynslóðunum lampi og ljós á vegi svo vitnað sé í vers úr Davíðssálmum (Sálm. 119:105) og engin ástæða er til að efast um að svo verði áfram. Biblía 21. aldarinnar er eiguleg fermingargjöf sem mun reynast heilladrjúgt veganesti fyrir fólk framtíðarinnar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3382.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar