Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Jóhannesson

Enn um trú, guðleysi og kærleika

Í greininni Biskup Íslands, trúleysi og kærleikur (Mbl 17. feb.) gerir Viktor Vigfússon biskup Íslands að umtalsefni og meint ummæli hans um siðleysi guðleysingja og mannskemmandi áhrif guðleysis. Þótt ég telji Vigfús ekki draga réttmætar ályktanir af orðum biskups er ætlun mín ekki að svara fyrir þau. Hins vegar tæpir Viktor á grundvallaratriðum sem koma æ oftar fyrir í neikvæðri umræðu um kristna trú. Við þeim vil ég bregðast.

Siðferðileg sjálfshyggja

Enginn kristinn maður „hafna[r] þeim möguleika að náungakærleikur sé okkur eðlislægur“, eins og Viktor virðist halda. Kærleikurinn – líkt og aðrar dyggðir – er okkur sannarlega eðlislægur vegna þess að við eru sköpuð af kærleiksríkum Guði og í hans mynd. Kristið fólk hefur aldrei talið sig hafa einkarétt á manngæsku. Þvert á móti er lögmál Guðs skráð á hjörtu allra (sbr. Jer 24.7; 31.33; Rm 2.14-15).

Viktor spyr „hvers vegna [biskup ríghaldi] í þá vissu að gott siðferði sé háð trú á æðri máttarvöld“. Sjálfur tel ég siðferði háð æðra máttarvaldi óháð trú fólks á það. Ég tel að biskup sé því sammála. Þegar sagt er að „guðstrú sé grundvöllur siðferðisins“ þá er litið svo á að guðlaus heimsskoðun geti ekki lagt okkur siðferðilegar skyldur á herðar. Sé maðurinn ekkert annað en efni og orka sem eru mótuð af tilviljanakenndri og blindri þróun er erfitt að sjá að til sé algilt siðferði sem okkur beri að fylgja.

Þegar litið er á manninn sem mælikvarða sjálfs sín – þ.e. að ekkert sé honum æðra – þá setjum við siðferðið undir afstæðishyggju. Öll raunveruleg mæri milli rétts og rangs, góðs og ills, leysast upp og verða sjálfshyggju (subjectivism) að bráð. Guðleysinginn hefur því ekkert að halda í nema sjálfan sig. Hvernig hann færir þá rök fyrir þeirri augljósu staðreynd að hið góða stendur okkur nær en hið vonda er vandséð; hvað þá að okkur beri skylda að ganga fram í ljósi þess. Hann getur m.ö.o. ekki grundvallað siðferði sitt á öðru en eigin viðhorfum og persónulegu skoðunum.

Sjálfshyggja er mesta böl okkar daga og mun án efa gera út af við okkur. Hún er komin langt með að útrýma vitund okkar um raunverulegan sannleika og viðmið í lífinu. Hún er að þurrka upp aldingarðinn og breyta honum í hrjóstruga eyðimörk þar sem maðurinn er að skrælna upp að innan. Ég tel þá siðferðilegu afstæðishyggju sem plagar hinn vestræna heim rökrétta afleiðingu af undanhaldi guðstrúar. Það er engu líkara en að við höfum rifið úr okkur augun til þess að sjá þau betur.

En með þessu er ekki sagt að guðlaus maður sé siðlaus. Þótt það falli ekki að rétthugsun dagsins lítur kristinn maður eðlilega svo á að sá sem hafnar Guði fari villur vegar og skemmi fyrir sér – mögulega um alla eilífð. Í þeim skilningi er guðleysi sannarlega „mannskemmandi“ og „sálardeyðandi“. En hér er ekki um að ræða persónulegan dóm yfir viðkomandi eða manngildi hans. Samkvæmt kristinni trú eru allir siðferðilega takmarkaðir að meira eða minna leyti. Kristur kom ekki til þess eins að gera vonda menn góða, eða góða menn betri. (Allir geta endurspeglað Guð með góðvild sinni þótt þeir trúi ekki á hann.) Jesús kom til að lífga við þann sem er dauður í afstöðu sinni til Guðs; til þess að færa hann nær Guði, nær rótum sjálfs sín og tilgangi lífs síns. Hlutverk kirkjunnar – sem Viktor segir að sé til staðar – er fyrst og fremst að stuðla að þeirri „endurfæðingu“. En hvernig kirkjan á að gera það ef hún má ekki lengur benda á meinið er vandséð.

Hin vonda trú

Þeir sem tala hæst gegn kristinni trú eru ekki feimnir við að alhæfa að kristin trú – og trú yfirleitt – sé ekki aðeins „mannskemmandi“ og hættuleg heldur jafnvel rót alls ills. Viktor gengur ekki svo langt en segir að „jákvæð áhrif trúar [séu] umdeilanleg.“ Það sem er óumdeilt í mínum huga er að allt sem maðurinn kemur nærri getur haft áhrif til góðs eða ills. Það á við trú sem annað, m.a. vísindi. Því verður samt ekki neitað að fengi kristin trú að dafna, ef hver og einn gengi fram í ljósi kærleiksboðskapar Krists, þá væri heimurinn fallegur staður.

Engu að síður skulum við fara afar gætilega í að draga ályktanir um gildi kristinnar trúar á grundvelli dapurlegra tímabila í sögu hennar. Þegar litið er til þeirra – hvort sem það eru ofsóknir, krossferðir eða annað – þá verður fólk að skilja að það sem fyrir augu ber endurspeglar alls ekki boðskap Jesú Krists. Um er að ræða misnotkun fagnaðarerindisins, framgöngu sem er ekki rökrétt afleiðing kristinnar trúar. Þegar fólk lagar kristna trú og kristinn boðskap að eigin hagsmunum og löngunum, þegar fólk gengur fram með ofbeldi og gerir trúna að valdstæki í höndum sér, þá hefur það þegar sagt skilið við Krist.

Maðurinn getur notað hendur sínar til margra hluta. Hann getur ýmist neglt nagla í Krist eða lofað hann; hann getur í senn smíðað ljósaperu og rafmagnsstól. En ef hugsað er eftir þessum brautum þá skal þess minnst að hryllilegar gjörðir hafa verið drýgðar í nafni guðleysis, með skelfilegum afleiðingum fyrir milljónir manna, gjörðir sem á stundum leiddi mjög eðlilega af þeim grundvallarviðhorfum sem guðleysi byggir á.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5597.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar