Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigfinnur Þorleifsson

Jólin og sorgin

I

Hversu oft hef ég ekki staðið hér á þessum stað og talað yfir moldum manna. Og hversu oft hef ég ekki síðan gengið að gröf og snúið þaðan aftur til daglegs lífs. Í hvert eitt sinn verður mér hugsað til þess hvenær kemur að því að ég verð eftir en aðrir ganga í burtu. Og mér verður æ ljósara að lífið er stutt og líðun manns líkt draumi hverfur skjótt líkt og það hljómar af vörum Bólu-Hjálmars. Að hvert skref sem er stigið er skrefinu nær þeirri óumflýjanlegu staðreynd sem dauði minn er. Ég þykist vita að margir kannist við áþekkar hugsanir, sem tengjast þessum fallega stað þar sem von eilífs lífs er borin fram í tali og tónum og myndum. Og hingað og héðan aftur hafa mörg sporin verið þung eins og blý. Þannig getur það reynst mörgum erfitt að koma til kirkju eins og hér í kvöld, þá kunna að rifjast upp sárar stundir rétt eins það getur líka verið erfitt fyrir syrgjendur að nálgast það sem áður vakti gleði eins og jólin, þau minna á allt sem einu sinni var og verður aldrei með sama hætti aftur.

II

Þegar ég var prestur í sveit þar sem ég þjónaði í rúman áratug frá árinu 1974, þá var það nokkuð víst að þeir sem höfðu fylgt nánum ástvini til grafar komu til kirkju næst þegar messað var eftir útförina. Í sveitinni háttar þannig til yfirleitt, að kirkjugarðurinn umlykur kirkjuna á alla vegu. Sá sem vitjar grafarinnar kemur þar af leiðandi til kirkjunnar. Ég held að þessi staðreynd hafi auðveldað fólki að stíga þetta erfiða skref að koma aftur til kirkju eftir útför. Rétt eins og það getur auðveldað öllum að setjast saman að einu borði við erfiðdrykkjuna. Og það sem er sérstaklega þungt og sárt í byrjun verður þá örlítið auðveldara næst. Þannig held ég að við getum skref fyrir skref gengið í gegnum þá reynslu, sem aldrei verður farið framhjá. Vissar stundir geta orðið öðrum stundum erfiðari í lífi syrgjenda. Það er mikilvægt fyrir alla , að gera sér grein fyrir þessu og búa sig út fyrir það, sem verða vill. Í stað þess að forðast þesssar stundir er mögulegt að gera þær að vettvangi þar sem við nálgumst enn og aftur söknuðinn með því að tala saman, með upprifjun minninganna, sem framkalla bæði tár og bros. Ákveðin tímamót geta jafnvel alla ævina út dregið fram gamalkunnan sársauka, sem að öðru jöfnu var farinn að svifa burt og linast. Þegar ár er liðið frá missi er ekki óalgengt, að alls konar tilfinningar segi til sín, einnig í kringum t.d. dánardaga og afmælisdaga. Þá er þörfin oft sérstaklega brýn fyrir stuðning vina, fjölskyldu, prests eða annarra, sem hafa slegist í för syrgjenda með einum eða öðrum hætti. Mörgum reynast frídagar og hátíðir sérstaklega þung í skauti. Það getur verið áhrifaríkt, ef hægt er að auðvelda syrgjendum að gera ráð fyrir þessu og þeir þar með undirbúið sig í tíma fyrir það sem verður. Og það leiðir hugann sérstaklega að jólunum, sem geta orðið vegna þess sem misst er árvisst kvíðaefni í stað þeirrar tilhlökkunar, sem flestir eiga að venjast. Ung ekkja lýsti því, hvernig hún notaði aðventuna með börnum sínum til þess að rifja upp í orðum og myndum og verkum það sem þau voru vön að gera sem fjölskylda á meðan faðirinn lifði. Það var mér mikill styrkur, sagði hún, að hafa aðventuna til þess að hugsa um jólin áður en jólin runnu upp. Hún gat m.ö.o. notað tímann með börnunum til þess að minnast alls þess, sem þau söknuðu sárt. Þannig veitum við hvert öðru viðurkenningu á því sem innra fyrir býr og veldur okkur sárum og tárum. Því samtal er sorgarléttir.

III

Besta leiðin til að losa um það sem innra fyrir býr er að setja orð á tilfinningarnar. Það er til yndisleg lýsing á gildi samtalsins í einni af perlum Íslendingasagnanna. Raunar elsta dæmið, sem ég þekki um samtalsmeðferð. Í Ívars þætti Ingimundarsonar segir frá samskiptum Ívars og Eysteins konungs. Ívar, sem var íslenskur að ætt og stórættaður að kyni, vitur maður og skáld gott eins og segir þar, var við hirð konungs og í miklummetum. Þorfinnur bróðir Ívars fór utan til Eysteins og naut vinsælda bróður síns við hirðina og þótti það miður að þykja ekki jafnmenni hans. Yfir hann kom öfundaróyndi og hann þoldi ekki við og hélt aftur til Íslands. Áður hafði Ívar beðið bróður sinn að bera þau orð Oddnýju Jónasdóttur, að hún biði hans og giftist eigi, enda léti hann sér um hana mest kvenna. Og með það fer Þorfinnur og tekur það ráð heimkominn að hann biður Oddnýju sér til handa og fær hana.

Þegar Ívar fréttir þetta tekur hann ógleði mikla. Konungur spyr hvað valdi en Ívar svarar því til að það geti hann ekki sagt honum. Konungur reynir þá að geta sér það til. Þar kemur að hann spyr hann hvort nokkrar konur séu á landi hans er honum sé eftirsjá að. Ívar svarar að svo sé. Þá segir konungur: Ver eigi þar um hugsjúkur. Og síðan býðst hann til að nota vald sitt til að fá honum konuna með vinmælum eða ógnarorðum. Ívar segir að það munu ekki ganga þar sem bróðir hans eigi nú konuna. Konungur býðst þá til að útvega honum aðra konu enda sé af nógu að taka og margar kurteisar konur til. Þá svarar Ívar: Herra því þungligar er komið mínu máli, að jafnan er ég sé fagrar konur þá minnir mig þessar konu, og er æ því meiri minn harmur. Konungur vill þá hjálpa honum til að gleyma með því að fá honum lausafé að hann geti farið í kaupferðir, en allt kemur fyrir ekki, Ívar lætur ekki huggast. Þá mælir konungur: Vandast mér nú heldur, því að eftir hefi ég nú leitað sem ég kann. Og er nú einn eftir hluturinn og er sá alllítil virði hjá þessum er ég hef boðið þér, en þó kann eigi geta hvað helst hlýðir. Far þú nú hvern dag, þá er borð eru uppi á fund minn og ég sit eigi um nauðsynjamálum og mun ég hjala við þig. Skulum við ræða um konu þessa alla vegu, þá er þú vilt og má í hug koma, og mun ég gefa mér tóm til þessa, því að það verður stundum, að mönnum verður harms síns að léttara, er um er rætt. Þá svarar Ívar: þetta vil ég, herra, og haf þökk fyrir eftirleitunina.

Og þetta gera þeir síðan og eins og stendur þar: bættist nú Ívari harms síns vonum bráðara.

IV

Það sem hér kemur fram þótt fornt sé er í fullu gildi enn í dag. Það er mikilvægi þess að fá viðurkenningu á því sem misst er áður en hafist er handa við að bæta missinn með einhverju, sem þó kemur aldrei í staðinn fyrir það sem ekki verður bætt. Að fá að tala um það sem einu sinni var en er ekki lengur á alla vegu og finna fyrir hinum nauðsynlega sársauka. Þetta er eitthvert stærsta skrefið á vegi aðlögunar þar sem markmiðið er ekki að gleyma heldur að endurheimta kraftana til að lifa og njóta. Sorgin er þar af leiðandi aldrei afmörkuð af tíma og rúmi, það er að segja við tökum ekki þessa erfiðu reynslu og setjum hana aftur fyrir okkur í eitt skipti fyrir öll. Markmiðið er ekki að fjarlægjast þá sem eru dánir, heldur þvert á móti að varðveita þau tilfinningalegu bönd, sem tengja okkur þeim sem við höfum misst og aðlagast um leið gjörbreyttri tilveru án þeirra. Það sem á sér stað innra með okkur birtist á margan hátt hið ytra. Við kveikjum á kertum og lýsum upp mynd þeirra sem við söknum, við göngum að gröfinni og varðveitum minninguna á marga vegu ekki síst á jólum. Allt er þetta tjáning fyrir sterkar tilfinningar, fyrir djúpa þörf sem hnýtir þráðinn á milli heimanna tveggja. Um leið er það ljóst að við hljótum að finna fyrir sárum söknuði sem hnígur að og frá líkt og flóð og fjara. Og það er ekkert sem fær þessu breytt, því þannig er að njóta, elska og missa.

V

Að þessu sögðu þá kemur mér í hug Tómas, sem nefndur var tvíburi, og hvernig hann brást við fráfalli Frelsarans. Kristur, ljós heimsins, hafði borið mikla birtu inn í líf þessa trausta og góða drengs. Því Tómasi kemur þannig fyrir sjónir, skv. vitnisburð guðspjallanna, að hann virðist hafa verið sérstaklega raungóður og raunsær og ekki hvikað í hættu eða neyð. Þannig lýsir hann því til dæmis yfir þegar Jesús talar um veg þjáningarinnar, sem hann verður að ganga til að opna okkur mönnunum leiðina til eilífs lífs, að sjálfur vilji hann fylgja Kristi í dauðann. Það er eftirtektarvert að sjá hvernig Tómasi er svo öllum lokið þegar föstudagurinn langi rennur upp. Og það er í fullu samræmi við persónugerðina, að hann tekur sársaukann inn á sig undanbragðalaust. Og þegar vinirnir einn af öðrum fá að sjá Drottinn upprisinn þá verður gleði þeirra tilefni þess að Tómas finnur æ meir fyrir eigin missi. Líkt og Ívar hefur orð á við konung í sambandi við fagrar konur sem minna hann á þá konu sem hann ann en er ekki lengur. Og hver er þá leið Tómasar til huggunar? Sú sama og kynslóðirnar hafa farið æ til þessa. Fyrsta skrefið á þeim langa vegi er viðurkenning á sársaukanum. Eða skyldi það vera hendingu háð, að þegar Tómas fær að líta sárin Lausnarans, þá segir hann Drottinn minn og Guð minn. Því fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir segir í spádómsorði um Krist. Og þannig eru það sárin og tárin, sem græða og hugga. Þetta skulum við reyna að hugfesta í nálægð heilagra jóla. Þegar við lútum við lágan stall þá nálgumst við barnið, sem er jafnframt bróðir okkar á krossinum. Við skulum leyfa barninu í okkur að brjótast fram í tjáningu tilfinninganna til þess að huggunin sem yfirleitt gefst á löngum tíma fyrir dýrmætar minningar og fyrir heilaga trú megi veita okkur endurnýjaðan þrótt til að lifa.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3222.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar