Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Yfirvinna fyrir jólin?

Við berum okkur vel, Íslendingar og getum vel við unað, eigum fleiri sjónvörp per haus en nokkur önnur þjóð í veröldinni og óvíða er algengara að heimili hafi tvo bíla til umráða en hér á Fróni. Reyndar höfum við mikið fyrir þessum eignum. Íslendingar leggja hart að sér í þeirra þágu. Við vinnum langa vinnudaga, tökum flestum þjóðum fram í því, enda er iðjusemi kristin dyggð og vinnan hefur ekki bara gildi að því leyti að af henni höfum við lifibrauð.

Vinnan er hluti af sjálfsskilningi okkar. Það þekkja þeir trúlega best sem verið hafa atvinnulausir í langan tíma. Mikilvægi vinnunnar er augljóst.

Hitt er ef til vill ekki jafnljóst að enda þótt manninum sé mikilvægt að vinna er það honum ekki síður dýrmætt að vinna ekki.

„Það sem mér hefur virst gott og fagurt er að maðurinn eti og drekki og njóti fagnaðar af öllu striti sínu því er hann streitist við undir sólinni alla ævidaga sína, þá er Guð gefur honum, því það er hlutdeild hans,“ segir í Prédikaranum.

Einmitt það gerum við þegar við bregðum okkur í betri fötin og höldum veislu eða hátíð. Þá erum við að njóta fagnaðar af striti okkar - hvert sem það er.

Sú þjóð telst rík sem á nóg af bílum í heimreiðunum og sjónvarpstækjum í stofunum en það land er fátækt og aumkunarvert sem ekki kann að njóta fagnaðar af vinnu sinni og gera sér dagamun. Margar þjóðir eru fátækari en við á Íslandi. Engin þjóð er þó svo fátæk og aum að þar þekkist ekki veislur eða hátíðir, líka þótt veisluföng séu oft af skornum skammti.

Hátíðirnar eru til að minna okkur á að við lifum ekki til þess að vinna heldur vinnum við til að lifa.

Við þurfum ekki að vinna til að geta tekið okkur almennilegt frí eða gert okkur dagamun sómasamlega. Þessu er þveröfugt farið.

Við höldum hátíð til að sjá tilganginn í striti okkar, amstri og handtökum.

Umræður um þennan pistil fara fram á annál Svavars Alfreðs.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2259.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar