Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Lydía Geirsdóttir

Gleymd neyð

Í 20 ár hafa íbúar í Norður-Úganda verið fórnarlömb einna grimmustu uppreisnarmanna heims. Sú mannvonska sem býr í „the Lord’s Resistance Army, LRA” er sjaldséð og hefur haft í för með sér að nær 2 milljónir manna hafa flúið heimili sín.

Að breyta barni í drápsvél

Á þeim tíma sem þessi uppreisn hefur staðið yfir er reiknað með að meira en 20.000 börnum hafi verið rænt frá foreldrum sínum og þau neydd til að gerast barnahermenn í LRA. Hryllingur glæpanna sem börnin hafa verið neydd til að fremja er ólýsanlegur. Til þess að brjóta þau niður hafa þau jafnvel verið neydd til að myrða sína foreldra eða systkini – eða velja að vera drepin sjálf. Þau eru notuð sem þrælar í herbúðunum, kynferðislega misnotuð og þjálfuð í að verða drápsmaskínur. En sorglegra er að mottóið virðist vera „því yngri, því betra”.

Árið 2002 ákvað úgandíska ríkisstjórnin að herða árásirnar á LRA með það að markmiði að útrýma uppreisnarmönnum. LRA hefndi sín með því að ræna á stuttum tíma um 10.000 börnum. Í kjölfarið fóru börn í þessum sveitum að ganga marga kílómetra á hverju kvöldin í öryggið inni í bæjum af ótta við að vera drepin eða numin á brott. Þar nutu þau verndar stjórnarhersins og gátu sofið óhult. Allt að 100.000 börn gerðu þetta á hverju einasta kvöldi í nær 5 ár.

Einn Stykkishólmur á viku

Allt að 90% íbúa Norður-Úganda búa enn í flóttamannabúðum 20 árum eftir að uppreisnin hófst. Það eru um 1,8 milljónir manna. Flóttamenn dreifast á um 200 flóttamannabúðir þar sem hvorki er hægt að veita lágmarks aðstoð né tryggja öryggi. Í búðunum vantar nægilegan aðgang að hreinu vatni, matur er af skornum skammti, aðgangur að menntun er í lágmarki, heilsufar lélegt með tíðum farsóttum og fullorðnir og börn líða vegna sálrænna áfalla. Það er áætlað að á hverri viku deyi um 1000 manns vegna ofbeldis eða sjúkdóma sem geisa í búðunum. Það er einn Stykkishólmur á viku.

Ísland hjálpar

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að styrkja Hjálparstarf kirkjunnar með 100.000 dollara framlagi til þess að veita neyðaraðstoð í Norður-Úganda. Hjálparstarfið vinnur á svæðinu með ACT / Alþjóðaneyðarhjálp kirkna og ætlun ACT er að veita flóttafólki í fimm héruðum á svæðinu neyðaraðstoð, en þar er þörfin gríðarleg. Tryggja á fólki í flóttamannabúðum skjól, bæta fæðuöryggi, sinna grunn heilsugæslu, útvega aðgang að vatni og auka þar með hreinlæti og veita áfallahjálp. ACT hefur veitt neyðaraðstoð í Norður-Úganda síðan 1979 og býr því yfir mikilli þekkingu á vandanum og hefur mikla reynslu af aðstæðum á svæðinu.

Í ágúst 2006 var samið um vopnahlé milli LRA og ríkistjórnar Úganda sem hefur vakið vonir um frið innan tíðar. Þó ríkir mikið óöryggi um niðurstöðu viðræðna og ljóst að flóttamenn muni ekki snúa heim til sín á þessu ári. Hjálparstarf kirkjunnar leggur mikla áherslu á að neyð manna gleymist aldrei hversu lengi sem hún varir. Við þurfum að vera til staðar eins lengi og einhver þarf á okkur að halda. Hjálparstarfið sendir innilega þakkarkveðju til utanríkisráðherra fyrir að gera okkur kleift að gleyma ekki.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3039.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar