Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Lydía Geirsdóttir

E-korthafar gefa Katushabe heimili

Nýlega fór ég í eftirlitsferð til Úganda þar sem Hjálparstarf kirkjunnar styður verkefni fyrir munaðarlaus börn sem hafa misst foreldra sína úr alnæmi. Börnin fá hjálp til að fóta sig án foreldra sinna, aðstoð svo þau geti séð um sig sjálf. Hjálpin er margþætt, allt frá því að fá góð hús, vatnstank til að safna rigningarvatni, stuðning við að borga skólagjöld, HIV-fræðslu og mikilvægast af öllu; tilfinningarlegan stuðning, leiðsögn og kærleika frá fullorðnum.

Ein í heiminum

Í Rakaí-héraði þar sem Hjálparstarf kirkjunnar starfar eru um 20% íbúanna smituð af HIV og um 15% af öllum börnum eru munaðarlaus. Rakaí er dreifbýlt, allt að þriggja tíma akstur er á milli býla og þess vegna er enn meiri hætta á því en ella að ekki náist til allra barna sem hjálp þurfa. Þegar fyrst er haft upp á munaðarlausum börnum er hægt að lýsa þeim sem börnum sem eru hætt að vera börn. Það býr engin gleði eða leikur í augum þeirra, einungis hræðsla og tómleiki. En þegar hjálpin berst og lífsbaráttan verður viðráðanlegri þá verða þau smám saman eins og öll börn eiga rétt á að vera í heiminum, björt, brosandi og dásamleg.

Þegar fullorðnir bregðast

Eitt af því erfiðasta í þessari heimsókn var að hitta Katushabe og fjögur systkini hennar. Katushabe er 15 ára stelpa og ber ábyrgð á systkinum sínum. Faðir þeirra dó úr alnæmi og móðir þeirra á við alvarleg geðræn vandamál að stríða. Hún hverfur stundum í nokkra mánuði og kemur svo aftur og þegar það gerist þarf Katushabe að sjá um hana líka. Móðir þeirra fær enga læknishjálp svo börnin verða að bjarga sér eins vel og þau geta. Systkinin eru á aldrinum 6 til 15 ára og þrátt fyrir harða lífsbaráttu eru þau öll í skóla, einnig Katushabe þegar hún kemst frá heimilinu. Þau ganga um 6 km í skólann á hverjum degi, 2 tíma hvora leið. Þegar ég kom og heimsótti fjölskylduna var nýlega búið að hafa upp á þeim. Það er mjög langt í næsta heimili og þau eru mjög einangruð. Það sem var svo erfitt að sjá var ekki bara þær óhugnanlegu aðstæður sem þau búa við heldur einnig augnaráð þeirra. Aldrei hef ég hitt daufari börn, uppgefin og tóm. Ekkert barn á skilið að lifa á þann hátt.

E-korthafar hjálpa

En lífið mun breytast fyrir Katushabe og systkini hennar. E-korthafar hafa safnað einni milljón króna og fyrir þann pening mun Katushabe og sjö aðrar barnafjölskyldur í sömu stöðu fá nýtt heimili, vatnstank og stuðning frá fullorðnum. Þeim verður fylgt eftir og þau hafa einhvern að sækja til þegar illa gengur, einhvern að tala við. Nýja húsinu er hægt að læsa, þau verða öruggari fyrir óboðnum gestum en í moldarkofanum. Þeim verður séð fyrir húsbúnaði, fötum og því sem þau vantar, fá mataraðstoð ef þau þurfa en líka aðstoð við að koma ræktun á stað svo að þau geti séð fyrir eigin matarþörf. Hver veit nema þau fái nokkrar geitur líka!

Aðstoð vel varið

Við hjá Hjálparstarfi kirkjunnar þökkum ykkur öllum, E-korthöfum, fyrir stuðninginn og fyrir það að þið skulið láta ykkur málefni barnanna varða. Við vonum að þið séuð ánægð með hvernig framlagi ykkar verður varið og að þið haldið áfram að styrkja börnin í Rakaí og Sembabule með endurgreiðslu þessa árs. Þeirra fjármuna er beðið með eftirvæntingu, þau eru enn of mörg börnin sem lifa eins og Katushabe og þurfa á okkar hjálp að halda.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2654.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar