Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Þrælahald nútímans

Ein þeirra bóka sem ég les þessa dagana er „Amazing Grace. William Wilberforce and the Heroic Campaign to end Slavery“ eftir Eric Metaxas. Wilberforce beitti sér fyrir afnámi þrælasölu í heimalandi sínu, Englandi, en á þessu ári eru tvær aldir liðnar frá því að sá áfangi náðist. Er þess minnst með mörgu móti og meðal annars var nýlega frumsýnd kvikmynd um Wilberforce sem einnig heitir „Amazing Grace“. Vonandi stendur hún íslenskum bíógestum til boða fyrr en síðar.

Enn er langt í land með að þrælar heyri sögunni til. Fólk er selt mansali úr fátækum löndum í ríkari þar sem það er látið vinna fyrir nánast engin laun. Talið er að um 800.000 manns fái þau örlög í veröldinni árlega. Bandaríska alríkislögreglan áætlar að ársvelta þrælamangs nútímans sé 9.5 billjónir dollara. Aðrar stofnanir segja hana miklu hærri og hafa verið nefndar upphæðir allt upp í 32 billjónir bandaríkjadala. Þarna eru miklir peningar í húfi og ljóst að hægt er að græða fljótt og vel á því að meðhöndla fólk eins og hvert annað búðagóss.

Í skýrslu sem unnin var af Sameinuðu þjóðunum er sagt að tíu milljón börn hneppist á ári hverju í fjötra þrælsins. Barnaþrælkun er óhuggulega algengt fyrirbæri. Í Indónesíu einni eru samkvæmt skýrslunni 700.000 barnaþrælar, 559.000 í Brasilíu, 250.000 á Haíti og 200.000 í Keníu, svo nokkur dæmi séu tekin. Gjarnan er þessi hópur ósýnilegur, falinn í kjöllurunum og nýtur hvorki þess að geta lært né þeirra grundvallarmannréttinda allra barna að leika sér. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur reiknað út að um ein milljón barna séu á þessu ári neydd í vændi eða aðra kynlífsþrælkun. Um 300.000 börn eru látin berjast í stríðum. Mörg þeirra eru innan við 10 ára gömul.

Þrælar veraldarinnar eru hvorki fleiri né færri en 27 milljónir. Stór hluti þeirra eru skuldaþrælar sem eru látnir eru vinna kauplaust upp í eigin skuldir eða náinna ættingja. Í Pakistan, Indlandi, Bangladesh og Nepal eru 15 milljónir skuldaþræla.

Baráttan fyrir afnámi þrælahalds stendur því enn og nauðsynlegt að hafa það í huga þegar við minnumst hugsjónamanna á borð við William Wilberforce.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2993.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar