Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Kristján Valur Ingólfsson

Gröfin - Þögnin - Upprisan

Laugardagur fyrir páska er dagur þagnarinnar. Þetta er kyrrasti dagur hinnar kyrru viku. Drottinn er í sínu heilaga musteri. Öll jörðin veri hljóð frammi fyrir honum. (Hab. 2.20).Heilög ritning geymir marga staði sem hvetja til þagnar.

Allt hold veri hljótt fyrir Drottni, því að hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað. (Sak.2,17.) Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hérum bil hálfa stund. (Opb.8.1.)

Það er musterið, Guðs hús, með sinni lotningarfullu þögn sem hvetur til þagnar. Aðrir staðir ritningarinnar minna á hversu orðin geta verið máttlítil:

Þá svaraði Job Drottni og sagði: Sjá ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér?. Ég legg hönd mína á munninn. Einu sinni hef ég talað og endutek það eigi - tvisvar og gjöri það ekki oftar. (Job. 40.3-5.)

Þetta er áminning um að frammi fyrir augliti Guðs stöndumst við ekki í trausti til okkar eign málsnilldar - og að ekkert hæfir þar betur en þögnin.

Síraksbók (42.1) talar um andstæðu þagnarinnar: blaðrið og lausmælgina, - þegar ekki er reynt að meta það sem eyrað nemur og kasta því sem ónýtt er eða skömm er að: Blygðast þín fyrir að bera út orðróm og ljóstra því upp sem leynt á að fara.

Sálin er ekkert markaðstorg, hversu mjög sem reynt er þó að gera hana að einhverju þessháttar. Sála vor er þögull garður, öruggur virkisturn, og læst herbergi eða hirsla.

Margir staðir í píslarsögunni greina frá þögn Jesú. Í þögninni rís hann upp úr múgnum. Árásir, lygar, háð og spott hrífa ekki á hann.

,,Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til þess að geta líflátið hann en fundu ekkert þótt margir ljúgvottar kæmu. Loks komu tveri og sögðu: Þessi maður sagði: Ég gert brotið niður musteri Guðs og reist það aftur á þrem dögum.
Þá stóð æðstipresturinn upp og sagði: Svarar þú því engu sem þessir vitna gegn þér. En Jesús þagði.” (Matt. 26, 60-62).

Heródes spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði honum engu. (Lúk, 23.9. )

Pílatus segir við Jesú: Hvaðan ertu? En hann veitti honum ekkert svar. (Jh.19.9.)

Jesús hylur sig með þögninni, eins og klæði. Þögn hans hvílir í þeirri fullvissu að við séum í Guðs hönd, og að ekkert hendi okkur nema það sem hann ætlast til eða leyfir að gerist - hversu undarlegt og erfitt sem það kann að vera. Hvað leyfir hann? Hversvegna leyfir hann að … ? Nánast daglega spyrjum við tíðindi sem stríða gegn því sem við teljum að hann ætti að leyfa.

Engir dagar tjá betur þann leyndardóm en bænadagar kyrruviku. Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað. (PS 39.10).

Fyrra Pétursbréf (3.10) og Jakobsbréf (1.19 og 3.1-12) gefa þögninni þá merkingu að þá skuli tungan tamin - :„tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri, segir Jakob.

Drottinn er í sínu heilaga musteri. Öll jörðin veri hljóð frammi fyrir honum.
Guð er að baki sköpun sinni, þögull.
Hann þegir í kyrrð hins stjörnubjarta himins.
Hann þegir bak við hádegissólina …
Stærstu undur lífsins verða til í þögn …
líkt og þegar blóm springur út og brumar á tré og runna.
Jafnvel fuglarnir og öldurnar hljóðna frammi fyrir undrinu þegar sólarlag og sólaruppkoma verða í sömu andrá hér við ysta haf.
Það vottar sá sem ritar.

Guð bíður og þegir. Svo talar hann.

Guð vor kemur og þegir ekki. Hann lætur okkur bíða eftir orði sínu. Hann talar úr þögninni. Og sá eða sú sem þegir heyrir orð hans.

Það var þessvegna sem Theresa frá Avila var eitt sinn svo óánægð með sjálfa sig og sagði: Ég get ekkert nema blaðrað.

En fyrst þurfum við að skilja að við getum ekkert nema blaðrað, - áður en lengra er haldið. Við þurfum að læra að varðveita leyndardóminn í þögninni. Aðeins fyrir þögina verða orð okkar mikils virði. Sá eða sú sem lengi hefur hlustað inn í eigið sjálf og heyrt grunntónana, Guðs rödd og samviskuna, hefur eitthvað að segja sem er þess virði að hlustað sé á það. Rétt að mæla hefur sá eða sú sem réttilega kann að þegja. Ræða okkar á að vaxa úr þögninni.

En þögnin er fyrst og fremst eitthvað sem þarf að æfa og iðka, til þess að skark heims/mgins setjist ekki að í garði sálarinnar.

Þögnin er tæki til að halda frá sér jafnt utanaðkomandi áreiti sem óróleika og erli eigin skilnings sem sjálfur býr til myndir og heila myndaflokka í huganum. Margar myndirnar byggja múr á milli Guðs og manns. Þessvegna skyldum við reyna að læra að meta rétt þær myndir sem við hlöðum inn í skilningsgeymsluna.

Í þögninni nær orðið að þroskast þangað til það lærir að miðla sannleika og kærleika. Þau sem kunna að þegja kunna líka að tala þá fyrst þegar orðin eru til hjálpar og til þjónustu.

Þau sýna öðrum bræðrum og systrum, virðingu með þögninni og með þögninni hylja þau ávirðingar. Þessvegna er þögnin svo sterkt afl til að yfirvinna hið illa.

Þögnin verndar - og þögnin kemur upp um hið illa. Hið illa uggir ekki að sér og kemur fram í dagsljósið - og verður þar að steini. Jesús þegir. Á dymbildögum hinnar kyrru viku standa hlið við hlið leyndardómur náðarinnar og illskunnar.

Það er laugardagur fyrir páska. Sabbatum sanctum.

Þetta er dagurinn þegar Drottinn hvílir í gröf sinni. Þetta er dagurinn þegar Drottinn dvelur með hinum látnu.

Þetta er dagurinn þegar Drottinn predikar fyrir öndunum í varðhaldinu og leysir þá. Drottinn dvelur í gröf sinni. Í dag er kyrrasti dagur hinnar kyrru viku. Sabbatum sanctum - hinn heilagi hvíldardagur.

Þögnin ríkir. Innan skamms verður henni létt af og fögnuður páskahátíðarinnar brýst út. Hvað færir þögnin okkur? Hvert leiðir hún?

Í dag er hulin dýrð Drottins.

„Herra minn, þú varst hulinn Guð,
þá hæðni leiðst og krossins nauð,
þó hafðir þú með hæstri dáð,
á himnaríki vald og ráð”. segir Hallgrímur Pétursson.

Í myndverkum kirkjunnar má sjá hvar Drottinn brýtur hlið Heljar og kallar fram hin látnu - eins og hann reisti upp Lasarus. Þar ganga fremst Adam og Eva, - því að sigrari dauðans hefur leyst þau öll sem dauðraríkið geymdi á öllum tímum, og einnig mig og þig, - þegar sú stund kemur.

Aðrar myndir sýna að á hausaskeljastað eða Golgata er krossinn reistur á þeim stað þar sem hauskúpa Adams leynist í jörðu. Helgisögnin segir að hauskúpa Adams hafi farið á flakk í Nóaflóðinu og sest að á Golgata, þars sem kross Krists var reistur. Blóð hins krossfesta Krists fellur á hana. Þannig leysir hinn nýi Adam hinn gamla Adam.

María stendur undir krossinum. Móðir hins nýja manns tekur við af Evu móður alls mannkyns. Og María verður fyrirmynd kirkjunnar, og trúarinnar:

Verði mér eftir orði þínu, segir María - segir trúin í brjósti þínu.

Jesús minn dvelur í ríki dauðans í dag til þess að vera þar þegar ég kem þangað, til þess að fylgja mér heim til himna, með englum sínum, svo ég geti starfað meðan dagur er enn hér meðal bræðra minna og systra í fullvissu þess að hann „sigrarinn dauðans sanni, (sem) sjálfur á krossi dó, mér svo aumum manni, eilift líf víst til bjó“.

Þú Drottinn Guð og Herra hár
ert hjálp mín ein um æviár
og huggun best í heimi
Mín stoð og vörn í veröld hér
sé vilji þinn, hann lýsi mér,
þín gæskan svo mín geymi.
Loks þegar ævin endi fær
þá ertu mér sem bróðir nær,
og fyrir degi dimman flýr
í dauða þínum lausn mín býr.
Heyr, Jesú minn, þá bæn ég bið
við banahlið
að hljóti ég þinn helga frið.

Þín líknarhöndin lífið mitt
mér léði fyrr, og orðið þitt
er svölun sálu minni.
Á kærleiksveg er kallar mig
þinn kross, gef störf mín lofi þig
og fyrirgefning finni.
Mig allri villu vernda frá,
lát vonsku ei mér búa hjá,
en hald mér við þinn helga kross
sem heiminn vann og leysti oss.
Þú Herra, Guð, ert hjálp í neyð
og huggun greið.
Vort líknarskjól í lífi og deyð.

Ó, Drottinn, lát, er lýkur hér
því lífi sem þú gefur mér,
þinn engil burt mig bera,
að hvílist ég í helgum frið
uns hljóminn dóms ég vakna við
sem allt mun endurgera.
Og laus frá dimmum dauða þá
á dýrðarstól þig fæ að sjá,
Guðs einkason, því elskan þín
er endurlausn og huggun mín.
Þér Drottinn Guð, og Herra hár
og hjálpin klár,
sé lof og dýrð um eilíf ár.
Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2868.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar