Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Örn Bárður Jónsson

U-beygja alltaf leyfð!

Iðrun, fyrirgefning og yfirbót eru sígild fyrirbrigði og hafa verið í umræðunni hér á landi um nokkurt skeið enda þótt önnur hugtök kunni að hafa verið notuð um þau.

Þegar mönnum verður alvarlega á í lífinu hefst margslungið ferli.

Í fyrsta lagi er um að ræða lagalegt ferli. Dómstólar fjalla um brot einstaklinga og verða að grundvalla afgreiðslu sína á ýtrasta réttlæti og samkvæmt ríkjandi lögum. Dómstólar dæma menn hvort sem þeir iðrast eða ekki. Dómur fellur jafnt yfir iðrunarlausum og harðsvíruðum mönnum og þeim sem gráta iðrunartárum. Dómstólum er ætlað að dæma á grundvelli hlutlægrar skoðunar og mega alls ekki vera hlutdrægir. Þeim er jafnan mikill vandi á höndum.

Í öðru lagi er ferli sem snýr að almenningi og getur verið óháð afgreiðslu dómstóla. Almenningur getur auðvitað dæmt á sömu forsendum og dómstólar eða svipuðum en hann getur líka dæmt á allt öðrum. Almenningur getur fyrirgefið en það gera dómstólar varla enda þótt þeir geti samt talið vissa hegðun eða atvik máls vera brotamanni til málsbóta. Almenningur getur hins vegar fyrirgefið einhliða og gefið mönnum upp sakir enda þótt dómstóll geri það ekki. En svo getur almenningur líka dæmt fólk harkalega og mun harðar en dómstólar. Þegar slíkt gerist er oft talað um dómstól götunnar. Almenningur rekur engin fangelsi en getur þó haldið mönnum föngnum svo árum skiptir og það löngu eftir að menn hafa aflánað sinn fangelsisdóm. Almenningsálitið er sterkt og getur annars vegar frelsað menn og á hinn bóginn haldið þeim í fjötrum. Og almenningur dæmir ekki allur á sama hátt. Meðal almennings kunna að vera mörg sérálit, bæði innan meirihluta og minnihluta. Tiltekinn hópur getur litið svo á að ávirðingar einstaklings skipti litlu máli á meðan annar hópur lítur svo á að þær séu mjög alvarlegar. Eins og dómstólum er almenningi jafnan vandi á höndum þegar dæma skal eða taka afstöðu til brota manna. Enda þótt dómstólar geti ekki sleppt mönnum á grundvelli iðrunar getur almenningur gert það. Almenningur leitar oftast eftir sannri iðrun og eftirsjá.

Í þriðja lagi skiptir máli hvernig Guð tekur á misgjörðum en afstaða hans tekur þó hvorki mið af landslögum né áliti almennings. Lög hans eru önnur og æðri enda þótt landslög geti hvílt á grunni guðslaga. Samkvæmt Biblíunni lætur Guð sig það varða hver afstaða brotamanns er til eigin gjörða. Hjá Guði skiptir iðrun öllu máli. Samkvæmt hinni kristnu hefð fær sá ekki fyrirgefning sem iðrast ekki. Fyrirgefningin er einnig háð því að við séum reiðubúin að fyrirgefa samferðafólki okkar. Þetta þekkjum við úr bæninni Faðir vor: „Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ Í beinu framhaldi af bæninni segir Jesús: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ (Matt 6.14-15) Þetta er erfið krafa en um leið mjög skiljanleg og sanngjörn. Við viljum líklega láta fyrirgefa okkur og því snýr sú krafa upp á okkur sjálf um leið. Hún er í fullkomnu samræmi við Gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri iður það skuluð þér og þeim gjöra.“

Styrkur kristinnar trúar liggur öðrum þræði í því að grunngildi hennar eru varðveitt í hrífandi sögum og stuttum, einföldum reglum, en ekki í flóknum heimspekilegum og siðfræðilegum kenningarkerfum. Sögur Gamla testamentisins um persónur eins og Jósef og bræður hans lifa í menningunni meðan þeim er haldið við og þær fluttar frá einni kynslóð til annarrar. Í þrjú til fjögurþúsund ár hafa þessar sögur lifað með stórum hluta mannkyns, sögur með djúpa siðferðilega skírskotun, sögur sem lifa í undirmeðvitund fólks og mynda þar grunn sem hefur áhrif á hegðun og afstöðuna til náungans og alls sem er. Sagan um Jósef og bræður hans er hrífandi saga. Hún fjallar um öfund og svik, um það hvernig Guð snýr illu til góðs, fær menn til að taka u-beygju og snúa frá villu síns vegar og inn á veg elsku. Lesa má þessa mögnuðu sögu í I. Mósebók 37. kafla og næstu köflum á eftir og reyndar á undan líka. Rifjum upp þessa sögu og fleiri með því að lesa alla I. Mósebók. Umrædd u-beygja heitir á máli Biblíunnar, iðrun. Iðrun merkir að snúa við, snúa frá villu og til þess sem rétt er. Sagan um Týnda soninn er eitt sterkasta dæmi úr sagnaarfi veraldar um viðsnúning frá villu til visku, frá böli til blessunar, saga um mann sem gekk í sig og iðraðist af heilu hjarta.

Speki Biblíunnar er ómetanlegur fjársjóður sem gagnast hverri kynslóð í flókinni umræðu um sekt eða sakleysi, iðrun, fyrirgefningu og yfirbót. Gætum þess að glata ekki þessum dýra arfi. Hann er í raun undirstaða heilbrigðs þjóðfélags sem dæmir réttláta dóma á sviði dómstóla og fyrirgefur mönnum misgjörðir á grundvelli sannrar iðrunar, reisir þá upp og gefur ný tækifæri. Í öllu þessu skiptir u-beygjan mestu, að snúa frá villu síns vegar. Á vegi misgjörðanna er u-beygja alltaf leyfð.

Um höfundinn2 viðbrögð við “U-beygja alltaf leyfð!”

 1. Einar Vilhjálmsson skrifar:

  Takk fyrir sérlega góðan pistil - rakst á hann í dagsins önn eftir umræðu á vinnustaðnum eftir að 2 starfsmenn höfðu valið að skrá sig úr þjóðkirkjunni. Við lesturinn var mér hugsað til þess hvort ástæða væri til að leggja sérstaklega áherslu á annan lið -fjórða liðinn - þótt vonandi væri að liðirnir þrír að ofan næðu að fanga hann einnig. Hér er ég að hugsað um mikilvægi þess að einstaklingurinn fyrirgefi sjálfum sér með kjarnlægum hætti og öðlist gæfu til að nýta afl einlægrar iðrunar til að knýja hinn sjálfbæra rafal his kærleiksra sjálfs sem í sérhverjum býr- einlæg og virk yfirbót einstaklingsins gagnvart sjálfum sér er nauðsynleg og má ekki gleymast í yfirbótarferlinu gagnvart ytra umhverfi. Þörfin á uppgjöri einstaklingsins gagnvart misgjörðum sínum er eflaust ærin - ekki í þeim skilningi að losa sig alfarið við söguna heldur öðlast gæfu til að losa grjóti úr þverpokum sínum í vörður á veg lífsins.

  1000 þakkir
  Einar Vilhjálmsson

 2. Örn Bárður Jónsson skrifar:

  Kæri Einar. Þakka þér góð viðbrögð. Já, að fyrirgefa sjálfum sér er líklega það flóknasta í þessu ferli. Það sem Guð hefur fyrirgefið er ekki lengur til! Stundum erum menn að biðja Guð aftur og aftur um fyrirgefningu á því sem hann er löngu búinn að gleyma! Ástæðan er sú að menn eiga svo erfitt með að fyrirgefa sjálfum sér.
  Þakka þér enn og aftur fyrir.

  B.kv.
  Örn B

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4077.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar