Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Úlfar Guðmundsson

Hlutlaus kennari er ekki til

Mikil hríð hefur verið að undanförnu í blöðum af hálfu trúboða Siðmenntar og einhverra fleiri um hlutleysi kennara og skóla.

Ég þekki þessa hugsun þeirra vel og fylgdi henni nokkuð stranglega sjálfur meðan ég var við kennslu en ég kenndi í 25 ár frá 1972 til 1997. Að vísu kenndi ég minnst kristin fræði en þá alltaf dálítið og lagði ég mig fram um að kenna eins og hver annar kennari og að það kæmi ekki fram að ég væri prestur þó allir vissu það. Ég viðhafði aldrei tilbeiðslu í kennslustundum.

Ég hef hins vegar farið með bænir og faðir vor hafi ég verið kallaður sem prestur til skólans. Til dæmis að flytja ávörp við skólasetningu eða skólaslit eða þá að tala við bekki vegna andláts eða slysa sem tengdust nemendum skólans. Þá hef ég einnig verið í „prestafötum“ sem ég notaði yfirleitt aldrei í kennslu.

En með aldri, þroska og menntun hef ég linast í þessari hlutleysishugsun. Ég er sannfærður um að hún er vitleysa. Þess vegna er þessi umræða á nokkrum villigötum vegna þess að hlutlaus kennari er ekki til. Ég veit ekki betur en Kennaraháskólar viðurkenni það. Þetta er vegna þess að kennarinn getur aldrei kennt neitt annað en sjálfan sig. Kennarinn kennir ekki bækur eins og fólk heldur eða einhvern fróðleik. Hann kennir sjálfan sig og gefur af sjálfum sér og þar koma þau skilaboð sem skipta máli fyrir nemandann. Ég var í barnaskóla fyrir 55 árum. Ég man ekki hvað kennarinn sagði en ég man hvernig kennarinn var og fyrir hvað hann stóð. Ég er líka alveg sannfærður um að ef prestur og félagi í Siðmennt væru að kenna börnum, hvor í sinni stofunni og leggðu sig fram um að vera hlutlausir að þá hefðu þeir ekki lengi kennt áður en börnin hefðu það algjörlega á hreinu í sínum huga að presturinn væri trúaður maður en félagi siðmenntar væri ekki kristinnar trúar.

Börnin eru fljót að finna hvað að þeim snýr.

Þetta finnst mér vilja gleymast í þessari umræðu eða þá að fólk vanmeti þennan þátt.

Aðalatriði þessa máls er að bæði kennarar og nemendur komi til dyranna eins og þeir eru klæddir. Það er beinlínis óheiðarlegt gagnvart öðrum að villa á sér heimildir. Menn sýni síðan náunga sínum virðingu og geri ráð fyrir mismunandi lífsviðhorfi. Það gengur ekki að þvinga hlutleysi upp á fólk. Þannig eiga múslimastúlkur að klæðast eins og þær vilja og alveg út í hött að setja skorður við klæðaburði þeirra eins og gert hefur verið í Frakklandi og hugsanlega víðar. Nú er okkar samfélag að verða fjölþjóðlegt og því þurfum við að hugsa um þetta og vanda okkur í samskiptum hvert við annað. Þar fer best á því að hver og einn sé eins og hann er og vill vera. Annað verður bara vitleysa.

Við kristnir menn höfum því enga ástæðu til þess að fara í felur með þá hluti sem eru eðlilegir í okkar daglega lífi.

Um höfundinn21 viðbrögð við “Hlutlaus kennari er ekki til”

 1. Gunnlaugur Þór Briem skrifar:

  En með aldri, þroska og menntun hef ég linast í þessari hlutleysishugsun. Ég er sannfærður um að hún er vitleysa. Þess vegna er þessi umræða á nokkrum villigötum vegna þess að hlutlaus kennari er ekki til.

  Að ekki sé hægt að vera 100% hlutlaus rýrir ekki gildi þess að vera eins hlutlaus og hægt er, og er þannig ekki ástæða til að reyna ekki einu sinni.

  Jákvæðni þess að sýna skoðanahlutleysi í kennslu eftir fremsta megni er því enn óhrakin, sýnist mér, þótt sýnt sé að það sé vandi, og ómögulegt að uppfylla það ídeal að fullu.

  Að reyna að lita umfjöllunina sem minnst með eigin skoðunum hefur ekkert með það að gera að villa á sér heimildir eða fara í felur með hluti. Kennari segir „kristnir menn telja A, múslimar B“, ekki „tilfellið er A, þótt aðrir telji B“ ef honum er nokkuð annt um sjálfstæða hugsun nemandans.

  Alveg er ég þó sammála þér um að ekki skuli skikka nemendur úr flíkum sem þeir kjósa, nema helst ef velsæmisnauðsyn krefur. : )

  Ég er bara á því að hlutleysi í skólum eigi að ná lengra en til fatavals.

 2. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  sæll Úlfar

  Ég vil gera örlitla athugasemd við grein þína. Ég skrifaði á sínum tíma Vantrúargreinina Innræting þagnarinnar þar sem ég gagnrýndi álíka orð Biskups.

  Villa ykkar beggja liggur í því að þið virðist ekki gera ykkur grein fyrir því að það eru ekki bara tveir kostir í stöðunni, þ.e.a.s. hlutlaus kennsla um trúarbrögð og jákvæða kennsla um trúarbrögð frá sjónarhóli Kirkjunnar.

  Þriðja leiðin, gagnrýnin kennsla um trúarbrögð er nefnilega líka til. Kannski er kominn tími til að ég og aðrir trúleysingjar krefjumst þess að í barnaskólum, allt frá fyrsta bekk, fari fram gagnrýnin kennsla um trúarbrögð þar sem sýnt væri fram á að þau snúast að miklu leyti um hindurvitni og óskhyggju, fullyrðingar þeirra stangast á við þá þekkingu sem við höfum afla. Við gætum krafist þess að grunnskólabörnum væri kennt að flestar sögurnar af Jesús byggja á eldri mýtum. Við gætum kennt þeim að kraftaverkin eru ekki raunverulegir atburðir heldur ótrúverðugar frásagnir. Við gætum krafist þess að ítarlega væri fjallað um öll þau grimmdarverk sem kristnar kirkjur hafa staðið á bak við eða stutt síðustu tuttugu aldir.

  En við gerum það ekki. Við sýnum trúmönnum þá virðingu að fara einungis fram á að skólar séu hlutlausir þegar kemur að trúmálum.

  Hvernig væri að þið takið okkur til fyrirmyndar?

 3. Bolli P. skrifar:

  Hér skrifar maður með augljósa reynslu, kærar þakkir fyrir þennan mjög svo góða pistil Úlfar, það er raunin að kennarinn verður að kenna sjálfan sig ef hann ætlar fyrir það fyrsta að ná til nemenda. Hvernig kennari er það eiginlega, sem er án lífsskoðana?

 4. Svanur Sigurbjörnsson skrifar:

  Líkt og Gunnlaugur Þór skrifar hér að ofan vil ég segja að erfitt að vera 100% hlutlaus 100% af tímanum en það réttlætir ekkert að hafa starfsmann í skóla sem er á vegum trúfélags þegar við vitum að það er ekki rétt nálgun að hlutleysi.

  Af skrifum þínu að dæma Úlfar virðist þú tilbúinn að gefa hlutleysi uppá bátinn af því að þú sérð ekki leið til að gulltryggja það. Þetta er dæmigert fyrir uppgjöf fólks á faglegri nálgun vandamála vegna þess að það hefur ekki lært nægjanlega gildi og útfærslu vísindalegra aðferða.

  Vísindalegar aðferðir ganga út á það að greina raunveruleikann frá valkvæmri hugsun og óskhyggju. Vísindaleg kennsla byggir á því að kynna nemandanum heiminn út frá öllum sjónarhornum, gefa nemandunum tækifæri á að safna sem mestum upplýsingum og kenna honum ýmsa aðferðafræði til að hann verði sem hæfastur að taka eigin ákvarðanir í framtíðinni. Kenndar eru aðferðir greinandi og gagnrýnnar hugsunar. Kennt er að draga ekki ályktanir út frá tilfinningalegu viðbragði, heldur vandlegri skoðun allra hliða og rökrænu hugsanaferli. Góður kennari leggur því sig fram við að kynna allar hliðar, líka þær sem hann er ósammála. Þannig yrði t.d. kristinfræði kennd frá sjónarhóli þess sem er að kynna sér trúarbrögð með orðalagi eins og “Kristnir menn telja að Jesús hafi gert kraftaverk” í stað “Jesús gerði kraftaverk”. Þá skiptir miklu máli að bækur séu skrifaðar á þennan hlutlausa máta. Það þarf að koma fram að sumir trúi á flest í biblíunni, sumir mun minna og aðrir nær engu og af hverju það er svo.

  Það eru margar gildar kennsluaðferðir til sem hjálpa verulega við að halda kennslunni sem mest hlutlausri og allir kennarar með góða menntun hljóta að kunna það í meira eða minna mæli. Vissulega getur hver sem er tileinkað sér slíka kennsluhætti, prestar líka, en það er ekki rétt að vera á vegum trúfélags þegar slík kennsla fer fram. Þetta er mikilvægt formsatriði sem gefur þau skilaboð að viðkomandi kennari hefur hlotið þjálfun í hlutlausri kennslu og tileinkar sig henni í starfi. Þar skiptir ekki máli hvort kennarinn er Snorri í Betel eða Jóhann Björnsson stjórnarmaður í Siðmennt. Sem kennarar eiga þeir að hafa fagleg vinnubrögð hlutleysis að markmiði.

  Hlutverk prests er varla að vera hlutlaus um trúmál og því er ekki hægt að bjóða uppá trúlausa kennslu eða leiðbeiningu prests þegar hann vinnur sem slíkur. Afneiti prestar trúarlegum þætti sálgæsluviðtala eru þeir hreinlega að vinna eitthvað annað en prestsverk. Það er hlutverk sálfræðinga, geðlækna, námsráðgjafa og félagsráðgjafa að hjálpa börnum með líkamlega og huglæga vanlíðan. Prestar geta séð um “trúarlegar krísur” utan skólanna.

  Fyrir mér er þetta kristaltært. Við erum skyldug að kenna börnum okkar um veröldina út frá sjónarhóli þess sem horfir utan frá og er óháður. Vitanlega mun sá siðræni rammi sem kennslan fer fram í og takmarkanir okkar í að vera hlutlaus alltaf hafa áhrif en bjóðum börnunum uppá það besta sem við þekkjum hverju sinni - annað er ekki verjandi.

 5. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Ég þakka kærlega fram komnar athugasemdir. Það var mjög gott að fá fram viðhorf Gunnlaugs og Svans því það gefur mér tækifæri til þess að árétta að ég geri ekki ágreining við skoðanir þeirra. Það er að segja ég lít svo á að kennari sé aldrei hlutlaus en sjálfsagt er að allar skoðanir og raddir heyrist óbrenglaðar. Það er sannfæring mín að þjóðkirkjuprestar fylgi þeirri forskrift. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að svo sé ekki. En þegar krakkarnir spyrja hvað finnst þér? Þá er rétt að kennarinn segi bara hreint út það sem honum finnst, hvað svo sem það nú er. Kennari getur samt stundum þurft að tala þvert á sínar trúar eða stjórnmálaskoðanir. Ég hef gert það í kennslu og komið t.d. einum nemanda til hjálpar ef krakkarnir voru öll ósammála honum og ætluðu að kaffæra hann vegna skoðana sem hann hafði fengið frá sínum foreldrahúsum. Ég hef þá leitt nemendum fyrir sjónir að málstaður þessa eina ætti rétt á því að fá að hljóma þó við værum því ekki sammála og hann hefði kannski fleira til síns máls en þau gerðu sér grein fyrir. Ég held að enginn vantrúarmaður þurfi að hafa áhyggjur af þjóðkirkjuprestunum en ég treysti mér ekki til að svara fyrir aðra.

  Það er nú ein ósanngirnin í umræðunni að setja öll trúarbrögð og allar kirkjudeildir í sama hattinn eins og um sama fyrirbrigði sé að ræða. það er að sjálfsögðu mjög óvísindalegt og einungis loddarar gera það eins og sá sem kom hér í heimsókn í sumar. Ekki er einu sinni hægt að setja þá sem kenna sig við Lúther í sömu skúffuna.
  Þjóðkirkjan íslenska t.d. á lítið sameiginlegt með Lúthersku Missouri Synodunni í Bandaríkjunum.

  Varðandi athugasemd Matthíasar þá er ég alveg hissa að honum skuli detta í hug að ég þekki ekki þriðju leiðina sem hann kallar svo. Ég þekki hana mjög vel ( og biskupinn ekki síður) og kynni hana fyrir mínum fermingarbörnum. Ég bendi þeim þá hugsanlega einnig á að þetta séu fordómar sem ekki styðjist við vísindi og sögulegar falsanir sem engum manni séu sæmandi. Sannleikurinn er að kristnir menn urðu þegar í öndverðu fyrir gagnrýni. Jesús Kristur var krossfestur rúmlega þrítugur og kristnir menn ofsóttir af miskunnarlausri grimmd fram yfir aldamótin 300. Í raun hefur engin sérstök gagnrýni komið fram á trúna sem ekki hafði komið fram þegar í fornöld en þetta endurtekur sig með eitthvað breyttum formerkjum hverrar aldar. Ég svara spurningu Matthíasar í lokin neitandi. Við eigum ekki að fela okkur undir neinni hlutleysis grímu. Við eigum að láta skoðanir okkar beggja hljóma óhindrað. Við verðum að sættast á að vera ósammála Matthías þar til Guði hentar að gefa þér trúna sem ég vona og bið að verði og hugur þinn og hjarta opnist fyrir sannleikanum.

  Að lokum vil ég stinga því að vantrúarmönnum að kennari sem ekki gætir sanngirni varðandi skoðanir annarra þó hann sé ósammála er ekki eins hættulegur og þeir halda vegna þess að hann nær ekki árangri með sinni kennslu. Hann spillir bara fyrir sínum málstað. En það er auðvitað almennt slæmt þegar kennari nær ekki árangri í starfi.

 6. Gunnlaugur Þór Briem skrifar:

  Enginn ágreiningur við skoðanir okkar? Má skilja þetta sem svo að þér þyki hlutleysishugsjónin í kennslu þá ekki „vitleysa“ eins og þú sagðir í greininni? Sást þú þig um hönd? :-) Eða var þetta ofsagt til að byrja með?

  Að hinn hlutdrægi kennari hafi ekki erindi sem erfiði hljómar vel … of vel. Það hljómar eins og helber óskhyggja. Með kænsku getur hann gróðursett skoðanir sínar með djúpum rótum í huga barnanna sem honum er treyst fyrir — það er að miklu leyti það sem orðið „barn“ þýðir. Það á víst að varast slíka menn, hvort sem þeir eru boðberar fagnaðarerindisins eins og þú, eða „loddarar“ eins og ég og Dawkins.

  (Vel á minnst: ef nemandi spyrði þig um skoðanir Dawkins, myndi svar þitt snúast að miklu leyti um orðið „loddari“ eða myndir þú muna þessi orð þín: „sjálfsagt er að allar skoðanir og raddir heyrist óbrenglaðar?“)

 7. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Það er nú ein ósanngirnin í umræðunni að setja öll trúarbrögð og allar kirkjudeildir í sama hattinn eins og um sama fyrirbrigði sé að ræða. það er að sjálfsögðu mjög óvísindalegt og einungis loddarar gera það eins og sá sem kom hér í heimsókn í sumar.

  Þó að þetta tengist ekki aðalatriði umræðunnar, þá langar mig að vita að hvaða leyti “sá sem kom hér í heimsókn í sumar” hafi sett allar kirkjudeildir í sama hatt.

 8. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Sæll og blessaður Gunnlaugur og þakka þér fyrir þetta.
  Ég tel mig hafa svarað þessum spurningum þínum en mér er ljúft að reyna að tjá mig skýrar svo ekki sé misskilningur milli okkar.
  Ég tel að við séum sammála um að allar skoðanir og raddir heyrist eftir því sem hægt er.
  Líka að kennara beri að setja þær fram af sanngirni og með eins hlutlausum hætti og hann getur. Kennarinn er samt ekki hlutlaus. Hann hefur persónuleika sem hefur áhrif á barnið og hann hefur skoðanir. Þegar ég tala um að ég sé að linast í hlutleysishugsuninni þá hef ég þetta í huga og að mér finnst að kennari geti tjáð nemendum skoðanir sínar ef þeir spyrja þótt þær standi ekki í kennslubókinni. Mér finnst vitleysa ef hann þykist vera skoðanalaus. En hann á þá að segja þeim að þetta séu hans skoðanir. Einnig er ég ekki orðinn eins viðkvæmur fyrir því og ég var að fara með bæn ef ég er kallaður til sem prestur í skóla. Ég hef gert það síðustu árin. Allt er þetta gott til umhugsunar.
  Ég er á móti því að flokka kennara eftir skoðunum. Hvort það eru trúmál, lífsviðhorf eða stjórnmál. Allir þessir menn geta kennt, prestar líka. Ég hef traust á þjóðkirkjuprestunum umfram þig held ég og erum við þar trúlega ekki sammála. .
  Við erum sammála um að trúboð hins vegar á best heima á heimilum og í trúfélögum.

  Í þessu sambandi má spyrja hvort skóli geti verið hlutlaus eða námsefni. Það er nú verið að reyna það en ég held það takist ekki og sé jafnvel ekki raunhæft markmið. Þá meina ég í þeim skilningi að skólinn verður alltaf að velja og hafna. Trúarbrögð hafa ekki fengið jafnan tíma í skólum enda væri það ekki framkvæmanlegt held ég. Það er alltaf að verða erfiðara að koma þekkingunni milli kynslóðanna því þekkingin vex svo ört.

  Loddari er í mínum huga sá sem beitir sjónhverfingum eða blekkingum. Ég nefni þarna ákveðið skýrt dæmi um það sem mér finnast vera óvönduð vinnubrögð í nafni vísinda, nefni alhæfingu sem ég kalla blekkingu.

  Ef við færum að ræða skoðanir Dawkins þá væri það nú efni í aðra umræðu. Kannski tökum við hana einhvern tíma.

 9. Matti skrifar:

  Varðandi athugasemd Matthíasar þá er ég alveg hissa að honum skuli detta í hug að ég þekki ekki þriðju leiðina sem hann kallar svo. Ég þekki hana mjög vel ( og biskupinn ekki síður) og kynni hana fyrir mínum fermingarbörnum.

  Mér þykir leiðinlegt að segja það Úlfar, en ég trúi þér ekki. Geturðu vísað á eitthvað efni frá þér eða biskup sem staðfestir þetta?

  Við verðum að sættast á að vera ósammála Matthías þar til Guði hentar að gefa þér trúna sem ég vona og bið að verði og hugur þinn og hjarta opnist fyrir sannleikanum.

  Já, ætli við verðum ekki ósammála þar til þú lætur af óskhyggju þinni um himnadrauga og lærir að meta raunveruleikann fyrir það sem hann er, byrjar að sjá fegurðina í náttúrunni, gleðina í börnunum og ástina í samfélaginu án þess að flækja inn í það hefnigjörnum og óskiljanlegum Gvuði á himnum.

 10. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Mér er ljúft að svara fyrirspurn Hjalta Rúnars Ómarssonar þó það sé fyrir utan þessa umræðu enda gaf ég tilefni til þess.

  Ég nafngreindi nú ekki þennan mann í upphafi en Gunnlaugur Þór gerði það og það er rétt að ég hafði Dawkins í huga. Ekki er ég nú þar með að gera lítið úr öðru sem hann hefur ritað eða telja hann lakan líffræðing. Ég fór nú reyndar ekki á ráðstefnu sem haldin var en las einhverjar blaðagreinar og sá viðtal við hann í sjónvarpi. Þau gögn eru mér nú ekki alveg tiltæk en ég varð fyrir þessum áhrifum af orðum hans, sem ég hér hef lýst, varðandi trúarbrögðin að hann afgreiði allar kirkjudeildir og trúarbögð eins og um sama fyrirbærið sé að ræða. Þetta finnst mér óvísindalegt og ósanngjarnt og held að þetta þætti ekki góð predikun hjá okkur prestunum en ég upplifi þetta sem predikun af hans hálfu.

  Í mínum huga flokka ég vantrú með trúarbrögðum, alla vega með lífsskoðunum og geri ekki mikinn mun þar á. Það er sannfæring mín að vantrúarmenn geti ekki frekar rökstutt skoðanir sínar vísindalegum gögnum en við trúmennirnir.

  En nóg um það. Til að benda þér á tilvitnanir úr orðum Dawkins sem lýsa einmitt því viðhorfi hans, sem ég gagnrýndi, þá fór ég inn á vefsíðu og sótti nokkrar tilvitnanir.

  http://www.simonyi.ox.ac.uk/dawkins/WorldOfDawkins-archive/Catalano/quotes.shtml#short

  “Scientific beliefs are supported by evidence, and they get results. Myths and faiths are not and do not.”

  “I am against religion because it teaches us to be satisfied with not understanding the world.”

  Í þessari tilvitnun er fullyrðing sem alls ekki á við Þjóðkirkju Íslands. Við viljum gjarnan efla allar vísindalegar rannsóknir og reyna að skilja veröldina sem best. Vísindi rekast hvergi á við þá trú sem ég boða og predika og hef sjálfur og samræmist minni skynsemi. Svipað má segja um næstu tilvitnanir þær eiga ekki við Þjóðkirkju Íslands.

  “Religions do make claims about the universe–the same kinds of claims that scientists make, except they’re usually false.”

  “Certainly I see the scientific view of the world as incompatible with religion, but that is not what is interesting about it. It is also incompatible with magic, but that also is not worth stressing. What is interesting about the scientific world view is that it is true, inspiring, remarkable and that it unites a whole lot of phenomena under a single heading.”

  “Faith is the great cop-out, the great excuse to evade the need to think and evaluate evidence. Faith is belief in spite of, even perhaps because of, the lack of evidence.”

  Í öllum ofangreindum tilvitnunum finnst mér Dawkins setja trúarbrögð í einn hatt og afgreiða þau í einu lagi þótt þau séu vissulega mjög ólík að allri gerð.

  Í næstu tilvitnun hefur hann reyndar þrjá flokka en það tekur samt lítið betra við því þeir þrír flokkar duga engan veginn til þess að lýsa trúuðu fólki.

  “Religious people split into three main groups when faced with science. I shall label them the “know-nothings”, the “know-alls”, and the “no-contests””

  Mér finnast ofangreindar tilvitnanir skýra fyllilega hvað ég á við með orðum mínum um óvísindalegar alhæfingar sem ég flokka með blekkingum.

  Ég get síðan bætt við annarri tilvitnun í Dawkins sem mér finnst betri til umhugsunar fyrir trúað folk og vantrúað til þess að telja ekki eingöngu upp neikvæðar tilvitnanir í hann og “leyfa rödd hans að hljóma skýrar.”

  ”it is a telling fact that, the world over, the vast majority of children follow the religion of their parents rather than any of the other available religions.”

  Matti skrifar:

  Mér þykir leiðinlegt að segja það Úlfar, en ég trúi þér ekki. Geturðu vísað á eitthvað efni frá þér eða biskup sem staðfestir þetta?

  Það er nú ekki von að þú trúir mér fyrst þú trúir ekki Jesú Kristi ;-)

  Ég kynni að sjálfsögðu vantrúna fyrir mínum fermingarbörnum annars myndu ekki “allar raddir hljóma” en það fær vissulega ekki sama tíma. Eins og ég hef bent á hafa vantrúaðir menn verið á öllum öldum og ekki síst í upphafi í fornöldinni. Þetta er nú kannski að mestu leyti munnlegt en gefin eru tilefni til þess í bókum sem notaðar hafa verið í fermingarfræðslu. Til dæmis í þeirri bók sem ég hef notað undanfarin ár og er mikið notuð. Það er fermingarfræðslubókin Líf með Jesú. Þar er á bls. 2 eftirfarandi texta að finna:

  “Lífið má líka sjá á mismunandi vegu: Með Guði og án hans. Jón og Gunna búa í sama bæ. Þau vinna sömu vinnu, eru á sama aldri og hafa sömu menntun. Þau lifa að miklu leyti eins lífi. En Jón trúir á Guð. Það gerir Gunna ekki. Jón sér ýmsar vísbendingar um Guð í lífi sínu, Gunna ekki.”

  Þetta er tilefni til umræðu. Síðan hef ég þegar ég kynni börnum Biblíuna einnig sýnt þeim t.d. Kóraninn. Baghvad Gita, Mormónabókina, Bókina um veginn svo eitthvað sé nefnt bara til þess að þau viti að fleiri bækur eru til sem teljast vera grunnur að trúarbrögðum. Í Líf með Jesú eru á bls. 4 nefndar þrjár Guðshugmyndir sem ekki eru kristnar:

  “Forlagaguðinn, Guð hefndar og endurgjalds og Viðlagaguðinn.”

  Þegar þú Matti telur mig: “flækja inn í það hefnigjörnum og óskiljanlegum Gvuði á himnum.” þá eru það hreinir fordómar af þinni hálfu og algjör vitleysa. Þessi Guð sem þú lýsir er bara alls ekki boðaður af Þjóðkirkju Íslands. Þar er tekið fram á bls. 4 í fermingarfræðslubókinni að kristin trú er ekki trú á Guð hefndar og endurgjalds, heldur á Guðs son sem frelsar og fyrirgefur. “Faðir fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra.” segir Jesús um þá sem krossfestu hann. Fleira væri víst hægt að tína til. En Matthías ! Mikið erum við sammála þegar þú lýsir fegurðinni í náttúrunni, gleðinni í börnunum og ástinni í samfélaginu þó hún sé nú reyndar ekki alltaf áberandi í fréttum.

  Hvað um það sköpunin, vistkerfið er að sjálfsögðu eitt undursamlegt kraftaverk. Hvernig getur þér þá dottið í hug að það sé hugsunarlaus sápukúla út í loftið? Ég dreg þá ályktun og það er í samræmi við mína skynsemi að á bak við hina mjög svo nákvæmt skipulögðu veröld og náttúrulögmál sé einhver hugsun eða vit. Alla vega er það ekki vitleysa. Ég kalla þessa hugsun eða vit Guð. það er að sjálfsögðu bara nafn. því erum við kannski ekki svo ósammála þegar á allt er litið og ég hef góða von fyrir þig Matthías. Páll postuli var á leiðinni til Damaskus að handtaka kristna menn þegar hann snerist um 180°.

 11. Matti skrifar:

  og ég hef góða von fyrir þig Matthías. Páll postuli var á leiðinni til Damaskus að handtaka kristna menn þegar hann snerist um 180°.

  Ég vildi að ég gæti sagt það sama, en því miður, mér sýnist þetta vonlítið. Þú heldur fast í óskhyggju þína og draumóra.

  Ég vildi bara að þú gætir tekið undir það með okkur að það er ekki rétt að reyna að kenna börnum mýtur og hindurvitni eins og um staðreyndir sé að ræða. Það hlýtur allt sanngjarnt fólk að geta tekið undir þá einföldu ósk.

 12. Gunnlaugur Þór Briem skrifar:

  Gott og vel Úlfar — mér fannst einhvern veginn eins og þú hefðir sagst vera sannfærður um að þessi hlutleysishugsun væri vitleysa, en það hefur þá verið misskilningur minn.

  Við erum þá sammála um að kennsla barna eigi að fara fram með eins hlutlausum hætti og unnt er. En við neyðumst líklega til að vera áfram ósammála um prestar séu eins líklegir og aðrir til að sýna hlutleysi í kennslu um trúarbrögð.

  Það er gott að kirkjan boðar ekki þennan vanstillta guð sem Matti vísaði til. Illu heilli er honum samt lýst í Biblíunni (guðinum alltsvo, ekki Matta mér vitanlega!) og ekki gefið til kynna að þar sé átt við annan guð; það veldur kannski þessum leiða misskilningi. Er til einhver ein greinargóð samantekt á því hvaða hluta Biblíunnar kirkjan telur ekki samrýmast boðun sinni?

 13. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Ágætu lesendur.

  Ég tel mig nú hafa tjáð mig um upphaflegt efni þessa pistils: “Hlutlaus kennari er ekki til.” eins vel og ég get og hef litlu við það að bæta. Ég vil þakka viðmælendum mínum á þessum vefþræði fyrir þeirra viðbrögð og fyrirspurnir og vil að lokum koma til móts við síðustu spurningu Gunnlaugs Þórs:
  “Er til einhver ein greinargóð samantekt á því hvaða hluta Biblíunnar kirkjan telur ekki samrýmast boðun sinni?”

  Biblían er rituð á löngum tíma - einum 1000 árum - og Guðshugmynd manna var ekki sú sama á ritunartíma Biblíunnar. Hún mildast og þroskast eftir því sem árin líða. Besta viðmiðunin til þess að lesa er að spyrja sig hvernig boðar ritið eða textinn Jesúm Krist. Það er sú leiðbeining sem ég get gefið í stuttu máli. Er textinn í samræmi við Jesúm Krist og boðun hans.

  Áhugasömum lesendum þessa þráðar færi ég þakkir mínar og blessunaróskir.

 14. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég vil nú ekki afvegaleiða umræðuna og fara að ræða um þessar tilvitnanir í Dawkins sem þú fannst í tilvitnanasafni, en mér sýnist nú sumar þeirra alls ekki lýsa því sem þú talaðir um, td sú staðhæfing hans að vísindalegar skoðanir séu byggðar á gögnum (e. evidence) og skili árangri, en goðsagnir og blind trú (e. faith) geri hvorugt.

  Og ein stutt athugasemd:

  Þegar þú Matti telur mig: “flækja inn í það hefnigjörnum og óskiljanlegum Gvuði á himnum.” þá eru það hreinir fordómar af þinni hálfu og algjör vitleysa. Þessi Guð sem þú lýsir er bara alls ekki boðaður af Þjóðkirkju Íslands.

  Reyndar kemur fram í Ásborgarjátningunni að guð Þjóðkirkjunnar muni fordæma guðlausa menn, að þeir kveljist að eilífu. Ég held að það sé óhætt að kalla þann guð hefnigjarnan.

 15. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  P.S.
  Ég hef áður tekið fram að íslenska Þjóðkirkjan virðir vísindalegar skoðanir, byggðar á gögnum og tekur tillit til þeirra. Ég hef einnig lýst því yfir að mín trú rekst mér vitanlega ekki á neinar vísindalegar sannanir sem svo eru kallaðar.

  Íslenska Þjóðkirkjan hefur heldur ekki túlkað Ágsborgarjátninguna með þeim hætti sem Hjalti Rúnar gerir. Ég vitna til bókarinnar “Kirkjan játar” Játningarrit íslensku Þjóðkirkjunnar með inngangi og skýringum eftir dr. Einar Sigurbjörnsson, prófessor í trúfræði við Háskóla Íslands. Bókaútgáfan Salt h/f 1980.
  Ég vitna til skýringa við 1. grein bls. 80. t.d. bls 82 þar sem segir: “Hið sterka orð, fordæming, merkir ekki, að fylgismenn viðkomandi stefna séu dæmdir til helvítis, heldur merkir fordæmingin, að stefnurnar séu metnar vera í andstöðu við trúna og þ.a.l. eigi undirskrifendur játningarinnar ekki samleið með þeim sem nefndir eru heldur séu þeir útilokaðir frá samfélagi mótmælenda eins og þeir eru útilokaðir frá samfélagi rómversk - kaþólskra. Er þetta aðeins annar háttur á að tjá samstöðuna með hinni almennu kirkju.”
  Ég vitna einnig til skýringa við 2. grein bls. 85 og síðan sérstaklega vitna ég til skýringa við 9. greinina á bls. 109 og næstu bls. Þar segir m.a. bls. 111: “Sú skoðun heyrist býsna oft, að 9. gr. haldi því fram að óskírð börn glatist og sé það því kenning lútherskrar kirkju. En því er ekki haldið fram í 9. gr. að óskírð börn glatist, enda hefur það aldrei verið kenning lútherskrar kirkju.” og á bls. 112: “Gagnvart skírninni hefur lútherska kirkjan ætðið haldið því fram, að hún væri bundin skírninni sem hjálpræðisskilyrði, en Guð væri henni á sama hátt ekki bundinn. Enginn eignast tryggingu fyrir hjálpræði með því að þiggja skírn og enginn má heldur dæma annan fyrir að vera óskírður.”

  Svo mörg eru þau orð og fleiri í tilvitnaðri bók sem lýsir grundvelli Þjóðkirkjunnar.

  Ég þræti hins vegar ekki fyrir það að Jesús slær oftsinnis alvarlegan tón. Fávísu meyjarnar fimm sem sagt var frá í guðspjalli síðasta helgidags voru lokaðar úti. Persónulega á ég von fyrir alla menn og bið Guð að finna leiðir fyrir þá og trúi því að hann geri sitt besta til þess en það verður kannski enginn píndur í himaríki gegn vilja sínum. Það er þá trúlega bara í samræmi við Darwin: Hinir hæfustu lifa.

 16. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég vitna til skýringa við 1. grein bls. 80. t.d. bls 82 þar sem segir: “Hið sterka orð, fordæming, merkir ekki, að fylgismenn viðkomandi stefna séu dæmdir til helvítis, heldur merkir fordæmingin, að stefnurnar séu metnar vera í andstöðu við trúna og þ.a.l. eigi undirskrifendur játningarinnar ekki samleið með þeim sem nefndir eru heldur séu þeir útilokaðir frá samfélagi mótmælenda eins og þeir eru útilokaðir frá samfélagi rómversk - kaþólskra. Er þetta aðeins annar háttur á að tjá samstöðuna með hinni almennu kirkju.”

  Ég skil ekki alveg hvernig þetta tengist því sem ég vísaði á. Þarna er greinilega verið að tala um hluta greinanna þar sem villukenningar eru fordæmdar. Í tilviki 17. greinarinnar eru það meðal annars þeir “, sem álíta, að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna.”. Í það sem ég er að benda á er að Jesús fordæmir guðlausa menn að þeir kveljist eilíflega.

  Svo mörg eru þau orð. Ef það er einhver staðar tekið fram í þessari ágætu bók (sem ég hef lesið) að þessi orð þýði ekki það sem þau þýða augljóslega, þá máttu endilega benda mér á það.

  Sá guð sem lætur fólk kveljast eilíflega fyrir að trúa ekki á hann er hefnigjarn. Þessi guð er boðaður í játningum kirkjunnar. Þannig að það eru alls ekki “fordómar” og “algjör vitleysa” að halda því fram að Þjóðkirkjan boði þennan guð.

 17. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Það liggur nú fyrir ef þú Hjalti Rúnar hlustar á predikanir þjóðkirkjuprestanna að þeir boða Guð kærleika, sem elskar og fyrirgefur, en ekki Guð hefndar og endurgjalds. Það gengur ekki að ætla okkur þjóðkirkjuprestunum allt annað en við boðum. Þú biður mig að finna því stað í bókinni sem ég vitnaði til og í því sambandi má einmitt líka vitna í skýringar dr. Einars við 17. greinina sem þú nefnir.

  Þar segir á bls. 130: “Það sem kennt er í 17. gr. er ósjaldan nefnt “helvítiskenningin” eða “útskúfunarkenningin” Það er þó tæpast réttnefni. Hafa verður í huga að 17. gr. er niðurstaða þess sem á undan er komið og grundvöllurinn sem játningin í heild hvílir á
  eru 1. - 3. gr. Ef svo er, að Guð er faðir, sonur og heilagur andi og hefur skapað allt (1.gr.), ef svo er, að Guð í stað þess að láta manninn renna skeið sitt til glötunar óhindrað (2. gr.) valdi að frelsa manninn með því að láta soninn verða mann (3.gr.), þá er spurningin um frelsun og dóm ekki atriði til að skeggræða um eða brjóta heilann yfir, heldur boðskapur til trúar (4.-6.gr.) Hér er m.ö.o. ekki haldið fram að einungis þeir sem kalla sig trúaða frelsist og allir aðrir glatist, heldur er hér ítrekað, að frelsunin sé í hendi Guðs eins, sem hefur falið syninum í hendur framkvæmdina. Ef kirkjan játar þetta sem grundvöll játningar sinnar, þá getur hún ekki lagt annan grundvöll. Grundvöllur hennar er leyndardómur kærleika Guðs. Í ljósi þess leyndardóms kemur leyndardómur mannsins fram, að hann er ábyrgur gagnvart Guði. Hverjir verða í hópi hinna útvöldu er ekki fullyrt hér og er heldur aldrei hægt að fullyrða. Trúin treystir aðeins fyrirheitunum og hún getur beðið þess, að þau nái til allra, því að Guð vill, að allir verði hólpnir og hann hefur sjálfur kennt oss að biðja: Verði þinn vilji.”

 18. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég hef lesið þessa ágætu bók sem þú vitnar í og fór vel og vandlega yfir það sem höfundurinn hafði að segja um 17. greinina. Hvergi í henni afneitar hann því að fólkið sem Jesús mun fordæma muni kveljast að eilífu. Þetta er (augljóslega) kennt í játningunni og þar sem kirkjan játar þessa játningu boðar hún hefnigjarnan guð.

 19. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Ég hef nú verið bundinn við önnur störf að undanförnu en einnig þá finnst mér að ég geti kannski ekki bætt miklu við frá mér án þess að endurtaka mig.

  Ég sem sagt stend við það sem ég hef sagt sem þýðir þá að ég hef ekki skipt um skoðun. Ég er hins vegar hugsanlega tilbúinn til þess ef ég fæ rök sem á mig bíta.

  Ég fullyrði að Þjóðkirkjan boði ekki hefnigjarnan Guð og ég geri það ekki. Ég dreg ekki sömu ályktun af þessum orðum Ágsborgarjátningarinnar og þú “að fólkið sem Jesús mun fordæma muni kveljast að eilífu.” Því sé Guð hefnigjarn.

  Nú er ég að sjálfsögðu aðeins að lýsa mínum skoðunum og ég er enginn dómari yfir skoðunum annarra né heldur hef ég hugmynd um hvað gerist á efsta degi. En það er samt allt í lagi að velta vöngum yfir því.

  En eins og ég hef áður vikið að á þessum þræði þá slær Jesús oftsinnis alvarlegan tón í þeim efnum. Ég dreg því ekkert úr játningu Ágsborgarjátningarinnar þó ég hugsanlega noti önnur orð. Ég sé hins vegar að biskupinn hefur talið játninguna barn sins tíma í svari við spurningu um fordæmingar í Ágsborgarjátningunni.

  En ég vil koma til móts við þig Hjalti Rúnar og lesendur og reyna að tjá hvernig ég skil þessi orð: “kveljast að eilífu.”

  Nú veit ég ekkert um það hvort Jesús muni fordæma nokkurn. Ég er bara ekki viss um það og á jafnvel síður von á því en möguleikinn er fyrir hendi. Vegna þess að Guð vill að allir verði hólpnir þá er ekki um fordæmingu eða hefnd að ræða. Ég skil það svo að ef það verður þá sé það eitthvað sem ræðst ekki við. Guð hlakkar ekki yfir því og það er ekki hans vilji. Þvert á móti kvelst hann þá jafnmikið og sá sem úti er vegna hæfileika hans til þess að renna algjörlega í annarra aðstæður.

  Þetta er svipað og er í náttúrunni í kring um okkur. Við prestarnir þurfum stundum að jarðsyngja börn sem deyja saklaus vegna slysa eða sjúkdóma. Ég segi ekki í slíkri jarðarför eins og stundum er ritað í minningargreinar: Þeir sem Guð elskar deyja ungir. Það er mín trú og skoðun að þetta sé þvert á vilja Guðs. Guð vill ekki slys, sjúkdóma eða hörmungar. Ég á hins vegar þá von að slíkir vegir sem okkur finnast sannarlega óréttlátir verði með einhverjum hætti jafnaðir. Ég leyfi mér aldrei að efast um réttlæti Guðs.

  Mér finnst oft gott að líta í kring um mig í náttúrunni. Þess vegna hef ég vitnað áður í þróunarkenningu Darwins á þessum þræði. Það er öllum ljóst að það eru víða mikil afföll í náttúrunni. Ekki verða öll hrogn að fiskum, svo eitthvað sé nefnt, Það er einfaldlega stundum þannig að sumir reynast ekki hæfir og þeir hverfa. Ég hef engan líffræðing heyrt tala um einhverjar hefndaraðgerðir í því sambandi. Það er bara þannig. En það er einnig ekki þannig að “hver sé sinnar gæfu smiður” eða ógæfu þegar allt er skoðað, enda er það stóuspeki og ekki úr Biblíunni. Veröldin er flóknari en svo.

  Ekki get ég dæmt neinn guðleysingja enda er það að mínum skilningi Guð sem gefur trúna og því verður engum um það kennt að hann sé trúlaus. Ekki á ég heldur von á inngöngu í nýtt ríki, sem Guð gefur, vegna neins sem ég hef gert eða framkvæmt. Það er sú Lútherska kenning Þjóðkirkjunnar að mínu viti að allir eiga allt undir Guðs náð og þeir frelsast fyrir trúna eina. Ég á því síður von á guðlausum mönnum í nýju ríki Guðs. Þeir eru þar sennilega ekki hæfir.

  Trúlega skil ég orðin að kveljast að eilífu með öðrum hætti en þú. Kvölin er að mínu viti að reynast ekki hæfur og fá ekki að vera með. Að fara á mis við samfélagið við Guð í nýrri veröld sem hann gefur. Skilyrði til inngöngu í þá veröld er að mínu viti trú á Guð. Hann getur þó haft leiðir fyrir vantrúaða sem ég þekki ekki mín vegna og vona ég það og bið þess í mínum bænum. Að eilífu merkir í mínum huga ekki endalausan tíma. Tíminn er veraldlegur í mínum skilningi og tilheyrir þeirri sköpun Guðs sem við lifum í. Ef ný veröld verður okkur gefin við enda tímans þá er hún tímalaus eða það er með einhverjum öðrum hætti.

  Ég vil halda þessari spennu í minni boðun vegna þess að ég trúi að trúin skipti máli og við eigum að hugsa þannig og einnig að lifa undir formerki skátanna að vera ávallt viðbúin. Lifa hverja stund þannig að við séum tilbúin til þess að leggja hana fram fyrir Guð. Þetta er heilbrigð hugsun.

  Þar er að finna öflugan slagkraft til góðra verka sem við og allur heimur þarf á að halda. En þau verk vinnum við í gleði fyrir Guð vegna þess að hann hefur elskað okkur óverðug.

  “Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.”
  (Jóh. 3:16)

  Gleðileg jól.

 20. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég hef lítið við innleggið þitt að athuga, enda ertu einungis að segja frá órökstuddum skoðunum þínum um ímyndaðan heimsendi og ímyndað líf eftir dauðann.

  Til dæmis skiptir það mig engu máli að þú haldir að Jesús muni ekki fordæma neinn, í Ásborgarjátningunni stendur skýrum stöfum að Jesús muni koma við endi veraldar og fordæma guðlausa menn og djöflana. Ég held að játningar Þjóðkirkjunnar segi meira um trú hennar heldur en persónulegt álit þitt, og við erum að ræða um trú kirkjunnar.

  Þú segist ekki draga neitt úr játningu Ágsborgarjátningarinnar, einungis nota önnur orð. En í Ásborgarjátningunni er talað um að Jesús fordæmi guðlausa menn, refsi þeim með eilífri kvöl og pínu. Þú ert augljóslega ekki sammála því, að þínu mati eru þeir bara leiðir af því að þeir “fá ekki að vera memm”.

  En mikið óskaplega er guðinn sem þú sagðir frá í þessari athugasemd óréttlátur. Samkvæmt þér þá er það guð sem gefur trúna og þá er það ekki á ábyrgð guðleysingjans að hann trúir ekki á guð, en samt mun guðinn þinn láta okkur kveljast að eilífu vegna þess að við trúum ekki. Finnst þér þetta réttlátt?

  Guð vill ekki slys, sjúkdóma eða hörmungar.

  Ef guð er til þá vill hann augljóslega sjúkdóma. Hann bjó þá til, er það ekki? Hann getur læknað hvern einasta sjúkdóm sem er til, en velur að gera það ekki. Hann vill augljóslega sjúkdóma.

  Svo vill hann augljóslega líka hörmungar og slys. Hann getur komið í veg fyrir þetta en ákveður að gera það ekki, þannig að augljóslega vill hann þessa hluti. Eða getur guð kannski ekki komið í veg fyrir þetta?

 21. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Gott og vel Hjalti Rúnar. Við komumst trúlega ekki mikið lengra með þetta enda komnir nokkuð langt frá hlutlausum kennara sem reyndar er ekki til.
  Varðandi þau atriði sem þú nefnir og spyrð um þá finnst mér dæmisaga Jesú Krists í Matteusarguðspjalli 13: 24 - 30 góð til umhugsunar. Þar kemur það fram að illgresið er ekki komið að vilja húsbóndans, Það er hins vegar svo samofið að erfitt er að greina það og þjónar hans eru ekki færir um það. Það er, þeir eru ekki í dómarasæti. Það gæti óvart eitthvað af hveitinu farið með. Hins vegar þegar upp er staðið verður illgresinu brennt en hveitið eitt í hlöðunni.

  Guð blessi þig Hjalti Rúnar og kveiki hjá þér ljós.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4963.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar