Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Sigurður Hafþórsson

Er það satt sem stendur í Gamla testamentinu?

Öðru hvoru vakna upp spurningar hjá fólki um hvað Biblían sé í raun og veru. Margir telja hana aðeins venjulega bók, aðrir bók sem hefur mikil áhrif á líf okkar og enn aðrir telja hana vera skrifaða beint eða óbeint af Guði almáttugum sjálfum.

Hér spyr ég spurningarinnar, er það satt sem stendur í Gamla testamentinu? Hugtakið „satt“ er hægt að nota í tvennskonar merkingu. Annars vegar í merkingunni hvað er raunverulegt í augum eins manns, en kannski ekki annars, þótt þar sé í raun trú betra orð. Hins vegar er hægt að nota hugtakið í merkingunni fyrir hverju hægt er að færa fram gild rök og/eða sanna á vísindalegan hátt. Ég ætla að halda mig við hið seinna, röklegan eða vísindalegan sannleika, þótt hið fyrra sé engu síður áhugavert viðfangsefni.

Áreiðanleiki hins sögulega efnis Gamla testamentisins fer að mörgu leiti eftir því hvaða tegund efnis um er að ræða. Sagnfræðingurinn gæti skipt efninu gróflega í fjóra flokka:

 1. Goðsögur fjalla oftast um sköpun og atburði í guðaheimum. Sköpunarsagan og syndaflóðssagan teljast til goðsagna. Oft er um að ræða útskýringar manna á fyrirbærum í náttúrunni sem þeim tekst ekki að útskýra á aðra vegu.
 2. Þjóðsögur eru oft hetjusögur, sögur af mönnum sem framkvæma það sem teljast verður einstakt eða framúrskarandi. Oft eru atburðir sögunnar á sviði hins yfirnáttúrulega eða á mörkunum að teljast trúlegir. Sögurnar af brottför Ísraels úr Egyptalandi, sögurnar af visku Salómons og allar kraftaverkasögur Elísa í 2. Konungabók eru þjóðsögur. Ólíkt goðsögunum getur hugsast að í sumum tilfellum liggi sögulegir atburðir að baki þjóðsagna.
 3. Sögulegir atburðir teljast frásögur sem  eru að mestu lausar við yfirnáttúrulegt efni. Oftast eru atburðirnir túlkaðir og litaðir af hugmyndafræði höfundanna. Þó að þessar sögur séu verðmætar heimildir um sögu Ísraels er alls ekki víst að þær segi frá sannsögulegum atburðum. Algent er að sagnfræðingar meti hvort atburðirnir hafi getað gerst eða hvort líklegt sé að þeir hafi átt sér stað ef tillit er tekið til þeirrar þekkingar á sögu og samfélagi sem við ráðum yfir.
 4. Stuttar þurrar athugasemdir um atburði, gjarnan án sterkra tenglsa við þá atburðarrás sem verið er að skrifa um verða að teljast áreiðanlegustu textanarir frá sögulegu sjónarhorni. Oft er um að ræða aukaatriði som höfundur hefur engan sérstakan áhuga á að koma á framfæri.

Þegar skrifað er um sögu Ísraels er að mínu mati er bestur kostur að leggja þjóðsögurnar til hliðar ásamt goðsögunum og nota fyrst og fremst stuttu athugasemdirnar og „sögulegu atburðina“. Að vísu er hætta á að sagan verður mun leiðinlegri en hún verður a. m. k. áreiðanlegri og ekki eins miklu haldið fram um þá hluti sem i raun engar heimildir eru til um. Síðan má af sjálfsögðu koma með ýmsar kenningar um þá atburði sem við vitum ekki mikið um en ef slíkar kenningar eru kynntar samhliða áreiðanlegri heimildum sýnir sagan okkur að þessar kenningar verða oft að staðreyndum í huga lesenda eftir ákveðin tíma.

Mig langar til að taka nokkur dæmi úr sögum Gamla testamentisins og athuga sannleiksgildi þeirra úr nokkrum áttum.

Jakobsglíman

Í 1. Mósebók 32 er sagt frá því að Jakob er á leið heim frá löndum forfeðra sinna í norðurhluta Mesópótamíu. Hann sendir fólk sitt og fé á undan sér yfir ána Jabbok en þvínæst er sagt frá, án augljóss samhengis við fyrri atburðarrás, að hann glími við mann alla nóttina. Maður þessi kemst undan Jakobi að því skilyrði uppfylltu að hann blessi Jakob. Í ljós kemur svo að maður þessi er Guð eða sendiboði hans. Jakob gefur að lokum þessum stað nafnið Penúel - „andlit Guðs“ eða „andspænis Guði“ - því að hann sá Guð augliti til auglitis.

Er þessi saga sönn? Samkvæmt kröfum nútíma sagnfræði væri fráleitt að halda því fram þar sem önnur aðalpersóna hennar er Guð eða engill hans, þ.e.a.s. yfirnáttúruleg vera. Sömuleiðis er erfitt að ímynda sér að skipta út hinu yfirnáttúrulega fyrir náttúrulega atburði, að Jakob sé í raun og veru að glíma við manneskju sem ekki vill að hann fari yfir ána þegar allt hans fylgdarlið er þegar komið yfir. Að lokum er hægt að segja að erfitt er að sjá einfalda allegóríu þar sem sagan er slitrótt og að öllum líkindum samansett úr nokkrum heimildum.

Elísa blindar Arameana

Í þessari sögu í 2. Konungabók 6 segir frá því þegar her andstæðinga Ísraelsmanna, Aramear frá Damaskus, gera skyndiárás á borgina Dothan í norðurhluta Ísrael til að ræna spámanninum Elísa sem var Arameunum erfiður vegna þess að hann sá fyrir leynilegar hernaðaráætlanir þeirra gegn Ísrael. Svo fór að Elísa bað til guðs Ísraelsmanna sem þá sló Arameana með blindu og leiddi Elísa þá síðan til höfuðborgarinnar þar sem þeir voru umkringdir af her Ísraelsmanna.

Þrátt fyrir að hér er um að ræða kraftaverkasögu hafa ýmsir fræðimenn vilja sjá sögulega atburði á bak við söguna, t.d. að Aramear gera árás á Dothan en að Elísa á einhvern hátt leiðir þá í umsátur sem þeir sjá ekki, þ.e.a.s. að blinda þeirra sé myndhverfing. Þarna getur samkvæmt þeim verið á ferð heimild um að Aramear hafi gert misheppnaða árás á Dothan. Þar er ég þó ósammála vegna þess að sagan er heilsteypt og ekki er hægt að fjarlægja yfirnáttúrulegu atburðina úr frásögninni eða útskýra þá sem myndhvörf án þess að hún falli öll og verði illskiljanleg.
Árás Sanheríbs á Jerúsalem

2. Konungabók 18-19 og Jesaja 36-37 innihalda nær orðrétt sömu frásögn af því þegar Sanheríb Assýríukonungur réðst gegn Jerúsalem. Svo bar til að tuttugu árum eftir að norðurríkið Ísrael féll fyrir Assýringum var röðin komin að suðurríkinu Júda. Her Sanheríbs Assýríukonungs vann allar víggirtar borgir í Júda, kom loks til Jerúsalem og umkringdi hana. Sagt er frá hvernig konungur Júda leitar ráða hjá Jesaja spámanni sem lýkur orðum ræðu sinnar um ástandið á að segja að Drottinn vilji vernda Jerúsalem og frelsa hana. Fer svo að engill Drottins fer yfir herbúðir Assýríumanna og fellir hundrað áttatíu og fimm þúsund manns. Í kjölfarið tók Sanheríb sig upp og snéri aftur heim till Assýríu.

Frásögn þessi samanstendur af bæði sennilegum og yfirnáttúrulegum atburðum. Við vitum að Assýríumenn gerðu mikið af því að fara í herferðir gegn löndum á þessu svæði en hinsvegar kemur engillinn sem yfirnáttúruleg vera og leysir vandann fyrir Jerúsalembúa. Þar að auki sýnir samanburður við aðrar heimildir að það er ótrúlegt að svo margir hermenn (a.m.k. 185.000) hafi tekið þátt í umsátri gegn nokkurri borg á þessum tíma á þessu svæði. Þó er hægt að skipta út hinu yfirnáttúrulega og ótrúlega fyrir náttúrulega atburði án þess að sagan kúvendist. Fræðimenn hafa m.a. stungið upp á því að einhver skaðræðispest hafi riðið yfir í herbúðunum og höggvið stórt skarð í lið Assýringa. Útskýringar af því tagi að Júdamenn hafi borið sigurorð af Assýringum verða að teljast ólíklegar, stærðarmunurinn á þessum tveimur ríkjum ætti að gera árás Assýringa á Júda að leik kattarins við músina. Stærð Assýríuhers má útskýra með ýkjum. Mjög algengt er að stærðir herja séu ýktar, bæði í Gamla testamentinu og assýrískum textum.

Samt er alveg ljóst að Assýringar fóru í herferð um Júda. Fornleifar í öðrum borgum í Júda hafa sýnt greinileg merki umsáturs og assýrískir textar segja frá umsátrinu um Jerúsalem. Ekki er þó farið mörgum orðum um hvernig því lauk annað en að Júdakonungur borgaði Assýringum e.k. lausnargjald. Ef sagnir um ferðir Assýríuhers um þessar mundir eru raktar kemur einnig í ljós að herinn hefur líklega þurft að hverfa frá Júda vegna vandræða heima fyrir.

Er Gamla testamentið áreiðanlegt?

Þegar við höfum lesið um þessi dæmi hér að ofan er rétt að reyna að mynda sér skoðun á því hvort það sem stendur í sögum Gamla testamentisins sé satt eða ekki. Svarið er bæði einfalt og flókið: Já og nei! Ástæðan fyrir tvíræðninni er að spurningin er ekki sú besta að spyrja þegar um er að ræða svo samansett efni sem sögur Gamla testamentisins eru. Sömuleiðis er erfitt að svara annaðhvort já eða nei vegna þess að menn hafa mismunandi hugmyndir um hvað átt er við með hugtakinu „satt“.

Við verðum, m.ö.o. að byrja á því að skilgreina nánar hvaða hluta, jafnvel einstaka sögu í Gamla testamentinu, við eigum við þegar við spyrjum um sannleiksgildið. Því næst verðum við að skilgreina hvort við séum að leita eftir t. d. sögulegum staðreyndum eða sannleika í yfirfærðri merkingu, þ. e. að sagan sé ekki sögulega sönn heldur að hugmyndin sem lögð er fram í henni sé almennt sönn.

Ef við lítum á sögurnar hér að ofan með þetta í huga sjáum við að Jakobsglíman og sagan af Elías og Arameunum geta ekki talist sögulegar í sagnfræðilegum skilningi en geta engu að síður verið sannar fyrir þá sem trúa á að Guð hafi ákveðið hlutverk á sögusviði mannkyns. Sögurnar geta þá annaðhvort verið sögulega sannar eða dæmi um það hvernig guðstrúin geti haft áhrif á raunverulega atburði. Síðasta sagan er blönduð frá sagnfræðilegu sjónarhorni. Annarsvegar segir hún frá atburðum sem hægt er að staðfesta með öðrum óháðum heimildum en hinsvegar útskýrir hún atburðina og lýsir smáatriðum sem ekki er hægt að telja söguleg á sagnfræðilegan hátt.

Hér er einn aðalvandi þeirra sem rannsaka Gamla testamentið sem sögulega heimild að meta hvar á að draga línuna milli sögulegra atburða og hugmyndafræðilegra útskýringa þeirra og ónákvæmrar lýsingar á smáatriðum. Dæmin hér að ofan hafa sýnt okkur að jafnvel þótt við finnum heimildir sem styðja atburðina sem sagt er frá í sögum Gamla testamentisins er ekki víst að farið sé rétt með allt sem greint er frá. Velur maður hins vegar að líta eftir annars konar staðreyndum í  sögunum t. d. sannleika í aðalhugmynd sögunnar er nauðsynlegt að það sé tekið fram þannig að þessum tveim sannleikshugtökum sé ekki ruglað saman.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Er það satt sem stendur í Gamla testamentinu?”

 1. Helgi Guðnason skrifar:

  Þakkir fyrir áhugaverða grein.
  Ég alveg sammála þér að saga sem aldrei gerðist getur verið ’sönn’. Það fer þó algerlega eftir sögunni, þ.e. tilbúin saga um hvernig grundvallaregla virkar í daglegu lífi, en sagan er þá sögð á þeirri forsendu að báðir viti að hún hafi aldrei “gerst” bókstaflega.
  Þegar kemur að e-u sem á að vera sagnfræðileg staðreynd get ég ekki séð hvernig hægt er að segja að saga sé ’sönn’ ef hún er að miklu leyti ýkt eða uppspuni.
  T.d. skil ég ekki hvernig sagan af Jakob getur talist ’sönn’ ef hún aldrei gerðist, því hún er sett fram sem raunverulegur atburður. Vissulega er hún þrungin táknrænu gildi, en sá sem trúir á raunverulegan Guð sem getur gripið inní söguna á ekki erfitt með að trúa því að hann geti gert það á táknrænan hátt.
  Er það því ekki framsetning sögunar sem ákvarðar með hvaða hætti það dæmist hvort hún er sönn eða ekki? Ef sagan af Jakob er ‘goðsaga’ er hún ósönn, þó hún kunni að hafa ákveðið táknrænt gildi. Þegar fólk spyr hvort Gamla Testamentið sé “satt” er spurningin yfirleitt hvort það sé sagnfræðilega áreiðanlegt, því í mörgum tilfellum er framsetningin söguleg. Dæmisaga er kannski ekki sönn, líklega frekar ‘góð’.
  Svarið við spurningunni hvort Gamla Testamentið sé ’satt’ ætti því frekar að vera “nei, en það er gott”.

  Persónulega er ég reyndar á þeirri skoðun að það sé bæði satt og gott;)
  Bestu kveðjur.
  Helgi.

 2. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Takk fyrir þennan pistil Sigurður, þetta er fróðleg lesning og áhugavert efni.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4395.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar