Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Sigurður Ægisson

Stærsta fréttin

Atburðirnir fyrir 2000 árum í Jerúsalem, á fyrsta hvítasunnudag, eru merkilegri og stórkostlegri en nokkur orð fá tjáð.

Þetta var 50 dögum eftir páska, 10 dögum eftir uppstigninguna og himnaförina. Lærisveinarnir ellefu höfðu að mestu verið í felum eftir atburðina á Golgata, enda leituðu yfirvöld þeirra og vildu meiða. En þessi dagur átti eftir að verða einstakur í gjörvallri mannkynssögunni. Skömmu áður en Jesús varð uppnuminn og hvarf þeim sjónum, bað hann þá um að fara ekki strax úr Jerúsalem, heldur – eins og segir í Postulasögunni, 1. kafla –

bíða eftir fyrirheiti föðurins, „sem þér,“ sagði hann, „hafið heyrt mig tala um. Því að Jóhannes skírði með vatni, en …þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“

Og þetta gerðu þeir, hlýddu meistara sínum og urðu um kyrrt. Í millitíðinni völdu þeir tólfta lærisveininn í hópinn, í stað Júdasar Ískaríots. Mattías nokkurn. En að þeir hafi svo átt von á því sem næst henti er ólíklegt, enda var það eitthvað sem enn er erfitt að útskýra með tækjum og ráðum vísindanna. Um þetta segir í Postulasögunni, 2. kafla:

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala? Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál? Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs.“ Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: „Hvað getur þetta verið?“

Það sem hér er verið að lýsa, er, að menn sem kunnu ekki nema arameisku og e.t.v. eitthvað í hebresku, grísku og latínu, fara að prédika á öðrum tungumálum, afskekktra og framandi landa. Nú á tímum yrði slíkt vel þegið fréttaefni prent- og ljósvakamiðla um heim allan, og fengi örugglega umfjöllun í þættinum „60 mínútur“. En við, sem lesið höfum textann svo oft, náum þessu ekki alveg, eða finnst þetta kannski eðlilegt. Sem það er sko ekki. Þetta var allt annað en normalt. Þarna snerti nefnilega himinninn jörðina í orðsins fyllstu merkingu. Þess vegna gátu postularnir talað eins og þeir gerðu. Og 3000 manns gengu Kristi á hönd, rétt sisona.

Og fleira var þeim gefið, postulunum, sem einnig hefur farið ofan garðs og neðan hjá nútímamanninum, eflaust vegna þessa sama og áður er nefnt. Það myndi líka hafa fengið inni í öllum betri fjölmiðlum og einnig virtustu læknaritum, hefði það bara gerst í núinu. Og hvað var það? Jú, nú gátu þeir læknað sjúka með bæn og handayfirlagningu, jafnvel kallað til lífsins aftur þá sem dánir voru. Stundum þurfti ekki mikið til, eins og þessi orð í Postulasögunni, 5. kafla, sýna:

Menn báru jafnvel sjúka út á strætin og lögðu þá á rekkjur og börur, ef verða mætti, er Pétur gengi hjá, að alltént skugginn af honum félli á einhvern þeirra. Einnig kom fjöldi fólks frá borgunum umhverfis Jerúsalem og flutti með sér sjúka menn og þjáða af óhreinum öndum. Þeir læknuðust allir.

Svona gerist ekki upp úr þurru. Engan veginn. Það er ekki mögulegt. Nei, á bak við slíkt er kraftur, meiri og sterkari en allt sem við getum látið okkur detta í hug, óendanlegur máttur sem á uppsprettu í öðrum heimi, og er andstæðingur myrkurs, kulda og dauða; þetta er hvítasta ljós sem fyrirfinnst í veröldinni allri, hinni sýnilegu og ósýnilegu, bjartara himinhnöttunum öllum til samans, og eru þeir hvorki litlir allir né daufir á að líta.

Þessu verður ekki jafnað við neitt.

Áðurnefndir vinir Krists fengu snert af þessu gríðarlega afli á hvítasunnudaginn forðum í Jerúsalem, það kyssti hvern og einn þeirra létt á vangann, sem gerði það að verkum, að þeim tókst hið ógerlega, þessum örfáu, ómenntuðu hræðum, að koma fagnaðarerindinu út til þjóðanna, á óslitna sigurför. En það reyndist dýrkeypt, því allir nema einn fórnuðu lífi sínu til að þetta mætti verða. Og Páll og fleiri að auki. En það var samt gert óhikað og með gleði. Í dag eru kristnir menn þriðjungur allra jarðabúa, rúmir tveir milljarðar.

Við hljótum að þakka Guði almáttugum, skipsherra lífsskútu okkar, inngripið forðum. Og taka ofan fyrir hásetunum tólf, sem fyrstir munstruðu sig á fleyið. Og hinum, sem á eftir komu. Þeir eru okkur besta fyrirmyndin. Hefði þetta ekki komið til, væri ásjóna mannkynsins óneitanlega dálítið öðruvísi en hún nú er.

Og heilagur andi er – vel að merkja – enn að starfi, í upphafi 21. aldar. Það er e.t.v. stærsta fréttin.

Til hamingju með afmælið, gott fólk.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3162.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar