Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Á grænum grundum

Leikvangur þýska knattspyrnuliðsins Schalke 04 var byggður árið 2001. Áhangendur félagsins telja heimavöll sinn þann flottasta, alla vega í Evrópu. Fleiri geta tekið undir það, enda er leikvangurinn eiginlega heill heimur, tækniundur með hreyfanlegum grasvelli, veitingastöðum, ráðstefnumiðstöð og aðstöðu fyrir blaðamenn, svo nokkuð sé nefnt.

Auk þess er þar kapella. Í Evrópu eru það aðeins Gelsenkirchen, heimaborg Schalke, og knattspyrnuborgin Barcelona, sem hafa vígðan stað á fótboltavelli.

Kapellan á Veltins-leikvanginum (nefndur eftir bjórgerð) í Gelsenkirchen var hönnuð af þýska listamanninum Alexander Jokisch. Að innan er hún öll svört og hvít eins og fótbolti. Altaristaflan er mörg þúsund svört strik sem mynda ótal litla krossa á hvítum fleti. Krossavefurinn gæti auðvitað líka verið net í marki. Við altarið eru ellefu súlur, jafnmargar og leikmenn í fótboltaliði. Súlurnar plús presturinn, þegar hann er kominn fyrir altarið, er annað lið, sjálfur lærisveinahópurinn.

Í kapellunni fer fram samkirkjulegt helgihald og þar er bæði skírt og gift, en helgidómurinn er líka griðastaður í síharðnandi heimi alþjóðlegrar atvinnuknattspyrnu, þar sem óskaplega mikið er í húfi, fyrir leikmenn, þjálfara, eigendur, dómara, blaðamenn og áhangendur. Kapellan er gott og áþreifanlegt dæmi um samvinnu kirkjunnar og íþróttahreyfingarinnar. Hún er samt langt frá því að vera það eina trúarlega á þessum leikvangi.

Það má nefnilega með góðu móti flokka knattspyrnu til trúarbragða. Jafnvel þótt við segðum að guð sé ekki til staðar í boltanum er þar eitthvað, sem er tilbeðið. Þar er veröld, sem lýtur eigin rökum. Þar eru heilagir staðir, veglegri en kirkjur og moskur. Þar eru helgidagar, þegar fram fara leikir. Kraftaverk gerast á vellinum, mörk eru skoruð með ómögulegum hætti á lokasekúndunum. Goðsagnir skapast, átrúnaðargoð og hetjur, sem aldrei að eilífu gleymast. Menn fara í pílagrímsferðir, syngja baráttusöngva og sigursálma, stíga gleðidansa, tala tungum fylltir andanum, skrýddir helgiklæðum í litum liðsins síns og fagna goðum sínum veifandi fánum.
Hrópandi sjónvarpsprédikarar lýsa því sem fyrir augu ber, greina það sem er að gerast og miðla öðrum af þekkingu sinni á hefðinni.

Og viljir þú komast í hóp hinna sanntrúuðu verður þú að uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði. Þú verður að læra fræðin. Vita hvenær menn eru rangstæðir. Temja þér ákveðið hugarfar til félagsins. Sýna hollustu og tryggð. Mæta á völlinn og upplifa samfélagið. Verða hluti af heildinni, leggja til röddina í hvatningarkórinn og lyfta upp höndunum í risabylgjunni.

Innan um sextíuþúsund manns á tröllvöxnum knattspyrnuvöllum heimsins ert þú kominn í annan heim og á nýtt tilverustig. Þá tilfinningu þekkja allir sem farið hafa á alvöru leiki.

Upp, upp, mín sál! Bless, bless, öll vandamálin heima!

Trúin er hreint ekki úrelt í nútímanum enda segjum við, áhangendur trúarbragðasögulega skólans, að maðurinn sé ólæknandi trúarvera.

Þau sem ekki trúa því ættu að fylgjast vel með HM í sumar.

Góða skemmtun!

Engin skoðunarkönnun í gangi núna.

Um höfundinn21 viðbrögð við “Á grænum grundum”

 1. Matti skrifar:

  Það má nefnilega með góðu móti flokka knattspyrnu til trúarbragða

  Nei, ekki með góðu móti. Því ef knattspyrna er trúarbrögð er nær allt trúarbrögð og þá er hugtakið gagnslaust.

  Það eru engin hindurvitni í boltanum fyrir utan hjátrú leikmanna og áhorfenda. Boltinn sjálfur er fullkomlega hindurvitnalaust fyrirbæri.

  “Kraftaverkin” sem þú talar um eru náttúruleg og árangur æfinga og ástundunar þó heppni komi stundum við sögu, átrúnaðargoðin mennsk og goðsagnirnar eru til á myndböndum. Aldrei hafa náttúrulögmál verið rofin á knattspyrnuvelli.

  Mér skil ekki tilgang svona orðræðu og gruna að markmiðið sé að rugla fólk í ríminu til að fá það til lags við kirkjuna, reyna að telja því trú um að það sé ósköp eðlilegt að trúa á himnadrauga og afturgöngur þar sem til sé fólk sem skemmtir sér og er jafnvel hugfangið af knattspyrnu.

  Trúin er hreint ekki úrelt í nútímanum enda segjum við, áhangendur trúarbragðasögulega skólans, að maðurinn sé ólæknandi trúarvera.

  Ef það væri ekki fyrir hindurvitnaþátt trúarbragða hefðir þú hugsanlega rétt fyrir þér.

  Það er afar áhugavert að sjá þessa þörf trúmanna að gera lítið úr trúarhugtakinu svo þeir geti klínt trú á sem flesta. Með svona orðaleikfimi má flokka það að safna ekki frímerkjum sem áhugamál.

  Ég mun fylgjast með HM.

 2. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Bjarni Randver Sigurvinsson talar í pistli hér á vefnum um tvenns konar skilgreiningar á trúarbrögðum, innihaldsskilgreiningar og hlutverkaskilgreiningar. Hann skrifar:

  Samkvæmt innihaldsskilgreiningum er trú hver sú hugmynd sem skírskotar til handanveruleika, yfirnáttúrulegra afla eða guða en ýmsir ganga svo langt að segja hvers kyns fullyrðingar um tilvist þeirra séu í raun trúarlegar því að vísindamenn geti hvorki sannað slíkt né afsannað sem tilgátu.

  Samkvæmt hlutverkaskilgreiningum eru trúarhreyfingar táknkerfi um altæka skipan tilverunnar sem tiltekinn hópur sameinast um og veitir einstaklingnum heildstæða merkingu og tilgang með lífinu. Slíkt táknkerfi þarf ekki að skírskota til yfirnáttúrulegs veruleika enda geta stjórnmálastefnur flokkast sem trúarbrögð út frá þessum forsendum.

  Bjarni nefnir það einmitt að þegar hlutverkaskilgreiningar á trúarbrögðum eru notaðar þá þarf engin yfirnáttúrulega skírskotun Ég er ekki frá því að það geti verið gagnlegt að hafa þetta í huga þegar rætt er um spurninguna sem Svavar nefnir og Matti kemur svo inn á í sínum viðbrögðum.

  Og ætli ég fylgist ekki eitthvað smá með HM líka ;)

 3. Matti skrifar:

  Knattspyrna fellur undir hvoruga skilgreiningu Bjarna því hún hvorki skírskotar til handanveruleika né er hún táknkerfi um altæka skipan tilverunnar.

  Aftur á móti er hún áhugamál sem sameinar fólk (og sundrar) og veitir eflaust mörgum tilgang með lífinu.

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  En þú sérð samt samsvörunina sem Svavar er reyna að vekja athygli á, ekki satt?

 5. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

  Ágætar umræður!

  Ábendingar um lesefni:
  1. Michael Novak, The Joy of Sports, New York, 1988
  2. Charles Prebish, Religion and Sport: The Meeting of Sacred and Profane, Wetport, 1993
  3.Thomas Luckmann, The Invisible Religion, New York 1967
  4. R.W. Coles, “Football as a “Surrogate Religion?”, í: Michael Hill (ritsj.), A Sociological Yearbook of Religion in Britain, London 1975.
  5. Dirk Schuemer: Gott ist rund. Die Kultur des Fussballs, Berlin 1996

  Og síðast en ekki síst:

  Peter Noss (ritstj.), Fussball ver-rueckt: Gefuehl, Vernunft und Religion im Fussball, Muenster 2004.

 6. Bjarni Randver Sigurvinsson skrifar:

  Er ekki um táknkerfi um altæka skipan tilverunnar að ræða í fótbolta? Segja má að fótboltaáhugamenn geti sumir eða jafnvel margir hverjir verið svo gagnteknir af áhugamálinu að ekkert annað komist að hjá þeim og veröld fótboltans verði hin altæka skipan tilverunnar. Og næg eru táknin í fótboltanum, alls kyns merki, reglur, söngvar og svo framvegis. Svavar Alfreð Jónsson gerir ágæta grein fyrir þessu í grein sinni og svari hér að framan.

  Hitt er svo annað mál að sjálfur lít ég ekki á fótbolta sem trúarbrögð þótt ég viðurkenni að áhugamálið geti haft trúarlegt vægi fyrir heittrúuðum fótboltaáhugamönnum. Þeir fræðimenn sem myndu flokka fótbolta til trúarbragða þyrftu allavega að styðjast við harla víða hlutverkaskilgreiningu á trúarhugtakinu. Aðrir sem ekki gera það en viðurkenna samt trúarlegt vægi fótboltans kjósa að tala um hann sem „hálftrúarbrögð“ en sem dæmi um slíkan fræðimann mætti nefna Stephen J. Hunt.

 7. Carlos Ferrer skrifar:

  Ég tek undir með Bjarna um táknkerfi fótboltans, reyndar íþrótta allra sem altæka skipan tilverunnar. Ef maður leyfir sér að horfa tilbaka til Ólympíuhugsjónarinnar þá verða tengslin ennþá ljósari. Mér sýnist að ef maður horfir á ritúalið, þátttökuna, í raun allt nema það “að trúa á” þá eru öll nauðsynleg element trúarbragða komin í nútíma íþróttaiðkun og -þátttöku.

  Vil bæta við ágætum útvarpsþætti sem tekur á þessu, http://speakingoffaith.publicradio.org/programs/2004/08/12_inpraiseofplay/

 8. Matti skrifar:

  Er ekki um táknkerfi um altæka skipan tilverunnar að ræða í fótbolta?

  Nei, alls ekki.

  Segja má að fótboltaáhugamenn geti sumir eða jafnvel margir hverjir verið svo gagnteknir af áhugamálinu að ekkert annað komist að hjá þeim og veröld fótboltans verði hin altæka skipan tilverunnar.

  Það má segja það en þetta er samt ansi marklaust, sá fótboltaáhugamaður sem svo langt væri genginn að “veröld fótboltans verði hin altæka skipan tilverunnar” myndi varla ganga heill til skógar að mati flestra. Það sama á við um flest önnur áhugamál.

  Ég neita því ekki að nota má hugtakið “trúarbrögð” um fótbolta en það er þá í allt annarri merkingu en þegar rætt er um trúarbrögð eins og kristni.

  Svavar gerir ekki skýran greinarmun þarna á í grein sinni heldur blandar þessu þvert á móti saman í lokaorðum.

  Trúin er hreint ekki úrelt í nútímanum enda segjum við, áhangendur trúarbragðasögulega skólans, að maðurinn sé ólæknandi trúarvera.

 9. Carlos Ferrer skrifar:

  Kannski er þessum hlutum ætlað að verða blandað saman. Sjáið hve trúarbragðagagnrýni Marx um kristnina sem ópíum á við um íþróttir, sérstaklega þar sem fátækt og misskipting auðs er hvað sárust!

 10. Matti skrifar:

  Kannski er þessum hlutum ætlað að verða blandað saman.

  Ekki ef markmiðið er að eiga gagnlegar umræður um trúmál. Ef það er markmiðið hljótum við að temja okkur að nota skýr hugtök og forðast að rugla þeim saman.

  Ég tel að Svavar hafi hér ruglað saman óskyldum merkingum hugtaksins “trúarbrögð”.

 11. Óli Gneisti skrifar:

  Það sem mér finnst alltaf áhugavert við það þegar einhverju er líkt við trúarbrögð er að það er til þess að setja það í neikvætt samhengi. Þegar er talað um trúleysi sem trú eða trúarbrögð þá er það til þess að gefa því neikvæða mynd. Þegar er talað um fótbolta sem trúarbrögð er það í neikvæðu samhengi (einsog í líkingu Carlosar hér að ofan um Marx og fótbolta).

 12. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Hér er ég ósammála þér Óli Gneisti. Ég held til að mynda að samlíking sem lagt er upp með í pistlinum sé alls ekki neikvæð.

  Hitt er svo annað mál að viðhorfið til slíkrar samlíkingar kann að haldast í hendur við viðhorf manna til trúarbragða. Það getur með öðrum orðum verið munur á afstöðu eftir því hvort þú ert fyrirfram jákvæður eða neikvæður í garð trúarbragða.

 13. Vésteinn Valgarðsson skrifar:

  Ég er sammála Óla Gneista um að tal um fótbolta og fleira sem trúarbrögð sé (yfirleitt) í neikvæðu samhengi, en reyndar sé ég ekki neikvætt samhengi í samlíkingu Carlosar á fótbolta og trúarbrögðum m.t.t. Marx. Þvert á móti tel ég líkinguna rétta, að því leyti að hinna félagslega sefjandi (”ópíum”) áhrifa trúarbragðanna gætir líka í fótbolta. HINS vegar dugir það alls ekki til þess að fótbolti falli undir marxískan skilning á trúarbrögðum. Það er nóg að skoða ummælin um “ópíum fyrir fólkið” í samhengi:

  “Trúarleg áþján er í senn tjáning á raunverulegri áþján og andóf gegn raunverulegri áþján. Trú er stuna í píndri skepnu, hugur hjartalauss heims, eins og hún er andi andlausra kringumstæðna. Hún er ópíum fyrir fólkið.”

  Eins og sést er trú miklu meira en ópíum fyrir fólkið; hún er tilraun til að uppfylla þarfir, sem fólk fær ekki uppfylltar í efnisheiminum, í andaheiminum. Það verður nú seint sagt um fótboltann…

 14. Óli Gneisti skrifar:

  Vésteinn, finnst þér ekki neikvæð merking að segja að eitthvað hafi deyfandi áhrif á fólk?

 15. Kiddi skrifar:

  ,,Eins og sést er trú miklu meira en ópíum fyrir fólkið; hún er tilraun til að uppfylla þarfir, sem fólk fær ekki uppfylltar í efnisheiminum, í andaheiminum. Það verður nú seint sagt um fótboltann…´´

  Jú, knattspyrnuáhugi er vissulega oft á tíðum tilraun til uppfylla þarfir sem það fær ekki uppfylltar annarstaðar. Samkenndin, sú tilfinning að tilheyra hóp er eitthvað sem bæði trúarbrögð og knattspyrnuáhugi geta gefið fólki.

  Knattspyrnuheimurinn er heimur sem fer út fyrir efnisheiminn alveg eins og trúarbrögðin. Leyfileg hegðun á knattspyrnuvelli er allt önnur en leyfileg hegðun út á götu. Tveir einstaklingar sem í fljótu bragði eiga ekkert sameiginlegt og myndu aldrei annars eiga samskipti, geta átt samskipti á fótboltavellinum.

  Það sem ég held að Svavar sé að reyna að benda á, og t.d. Jón Gnarr hefur gert áður, að menn geta ekki verið samkvæmir sjálfum sér og gagnrýnt trúarbrögð einn daginn en hafið knattspyrnu upp til skýjann þann næsta. Eini munurin er að annað er óáþreifanlegt. Ef öll ykkar óánægja með trúarbrögð beinist að því að þau eru óáþreifanleg, þá finnst mér málstaður ykkar hálf hjákátlegur.

 16. Vésteinn Valgarðsson skrifar:

  Jú — en ég skildi Carlos þannig að rétt eins og Marx segði að trúarbrögð slævðu fólk, þá slævði fótbolti fólk líka, þannig að frá sjónarmiði Marx væri fótbolti eins konar trúarbrögð. Ég sá ekki í þessu mat Carlosar á því hvort slævandi áhrif væru af hinu góða eða slæma, og reyndar sá ég heldur ekki að hann tæki afstöðu til þess hvort trúarbrögð væru slævandi í alvöru. En ég er alveg sammála því að hvort tveggja sé slævandi og að slævandi áhrif séu af hinu slæma. Alveg sammála því.

 17. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þakka ykkur öllum fyrir viðbrögðin.

  Trúarbragðagagnrýni Marx er út af fyrir sig áhugaverð, en hún fellur utan við umfjöllunarefni þessa pistils. Við skulum halda okkur við að fjalla um íþróttir og trúarbrögð og hlutverkaskilgreiningar.

  Til viðbótar við þetta vil ég biðja þátttakendur um að gæta orða sinna og hafa málefnin í forgrunni. Það er umræðunni ekki til framdráttar að lýsa mönnum eða málefnum sem hjákátlegum.

 18. Matti skrifar:

  …menn geta ekki verið samkvæmir sjálfum sér og gagnrýnt trúarbrögð einn daginn en hafið knattspyrnu upp til skýjann þann næsta

  Af hverju í ósköpunum ekki? Þetta er afar frumleg fullyrðing. Ég get ekki gagnrýnt trúarbrögð og verið mikill unnandi knattspyrnu! En, uh. Verða þá þeir sem eru hallir undir trúarbrögð að unna knattspyrnu með sömu lógík?

  Ef öll ykkar óánægja með trúarbrögð beinist að því að þau eru óáþreifanleg…

  Svo er ekki.

  Athugasemd kidda staðfestir það sem ég sagði í athugasemd minni:
  [Það er] ekki [gagnlegt að blanda þessum hugtökum saman]ef markmiðið er að eiga gagnlegar umræður um trúmál. Ef það er markmiðið hljótum við að temja okkur að nota skýr hugtök og forðast að rugla þeim saman.

  Fótbolti er íþrótt, áhugamál fólks um allan heim. Fótbolti snýst ekki um neina yfirnáttúru. Knattspyrna eru fullkomlega veraldlegt fyrirbæri. Það eru engar fullyrðingar í kringum fótboltann sem stangast á við veruleikann í kringum okkur.

  Það er út í hött að tala um fótbolta sem trúarbrögð á sama hátt og kristni eru trúarbrögð. Það er einfaldlega ekkert vit í slíku tali.

 19. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

  Kannist þið ekki við þetta?

  When you walk through a storm
  hold your head up high
  and don’t be afraid of the dark.
  At the end of the storm
  is a golden sky
  and the sweet silver song of a lark.

  Walk on through the wind,
  walk on through the rain,
  tho’ your dreams be tossed and blown.
  Walk on, walk on,
  with hope in your heart
  and you’ll never walk alone.
  You’ll never walk alone.

 20. Gunnar Jóhannesson skrifar:

  Forvitnileg umræða um íþróttir og trú(arbrögð). Þegar ég las þessa pósta fór ég að hugsa á ný um ummæli formanns KSÍ og viðbrögð hans við áskorun kirkjunnar á KSÍ vegna vændis í tengslum við HM (sem kannski vakti sr. Svavar til umhugsunar og var hvati að hans ljómandi pistli - veit það þó ekki, en ágætur er hann samt).

  Og góður punktur hjá honum með lagið góða sem Liverpool hefur tekið upp á arma sína, því það dylst fáum að í textanum virðist einmitt skírskotað til einhvers sem er æðri (máttarvald?!?) manninum, uppspretta vona, huggunar, friðar, hamingju, réttlætis o.fl. En vísast túlka menn þetta eftir sínu höfði í ljósi viðhorfa þeirra til trúarbragða (og fótbolta) almennt eins og Árni Svanur benti réttilega á. Ég held þó að flestir ættu að geta séð ýmislegt líkt með trú(arbrögðum) og kanttspyrnu (hvort heldur sem er iðkun hennar eða áhorf) þó það sé miðsjafnt hve lagt menn ganga í ályktunum og túlkunum og hvað það segir um hvortveggja, trú(arbrögð) og knattspyrnu. Ályktanir og skoðanir í þessu efni segja að mínu mati meira um viðhorf viðkomandi til trúar(bragða) og/eða knattspyrnu heldur en réttmæti þess að halda því fram að slík tengsl séu til staðar.

  Þetta er allt spurning um frá hvaða sjónarhorni við skoðunum hlutinu og það hefur afgerandi áhrif á okkar túlkun, hvort heldur sem er á kenningar Marx, trúarbrögð, knattspyrnu eða hvað sem er í sögu og menningu. Það er hægt að nálgast kenningar og skoðanir með svo ólíkum hætti. Knattspyrnu má skoða félagslega, sálfræðilega, trúarlega vissulega líka, eða allt í senn, og svo er einnig um trúarbrögð sem slík og eins persónulega trúarafstöðu líka; allt má reyna að brjóta til mergjar út frá alls kyns kenningum.

  Hér erum við að tala um hlutina hlutlægt en það er erfiðara að svara hinu huglæga, þ.e. þegar trúin, iðkunin er orðin svo innileg og afgerandi í lífi fólks að hún er orðin að því sem Tillich kallaði “ultimate concern” eða það sem við látum okkur mest um varða, það sem er okkur drifkraftur í (oft erfiðu) lífi, það sem vekur okkur von og hamingju og hjálpar okkur að takast á við sorg og upplifa gleði (o.s.frv.) (Þetta er meðal annarra ein skilgreining á hugtakinu trú.) Það er erfitt að henda reiður á þessu tvennu í senn (þ.e. hinu huglæga og hinu hlutlæga). Ég held að þessi umræða hér geti aðeins verið á sviði hins hlutlæga.

  Ég held t.d. að fyrir mörgum sé það hluti hins “ultimate concern” að fara á völlinn í hverri viku (og tigna goðin sín og eiga samfélag við aðra trúaða?!?!?!); þar upplifa sumir gleðilegustu og erfiðustu augnablik lífs síns, sækja styrk til annarra áhangenda og deila gleði (við sáum þetta að einhverju leyti í leiknum í gær þegar Middlesboro tapaði fyrir Sevilla). Á sama hátt er það fyrir mörgum “ultimate concern” að fara í kirkju og nálgast þar sinn Drottinn og skilgreina líf sitt, gleði og hamingju í þjósi orða hans og verka; og eiga samfélag við aðra trúaða. Maður skyldi aldrei fullyrða, en að mörgu leyti held ég að hér svipi hinu huglæga hvort til annars.

  En þá kem ég mér að því sem ég ætlaði að gera að litlu innskoti inn í þessa umræðu þar sem Svavar fór að tala um áðurnefnt lag. Hér er smá fróðleikur um þetta annars ágæta lag sem verður kannski einhverjum til umhugsunar í samhengi þessarar ágætu umræðu.

  “You’ll Never Walk Alone” (music by Richard Rodgers, lyrics by Oscar Hammerstein II) was written for the 1945 Broadway musical play Carousel. The song highlights a momentous plot turn early in Act II, and is reprised as the musical’s powerful and inspirational finale.

  From the very beginning, this song has always had a special resonance and meaning beyond its context and function within the score for Carousel. During the musical’s original Broadway run, with the world at war, many in the audiences who had a husband, a brother, a son or a lover fighting overseas, found solace in its meaning and its message.

  In addition to numerous recordings of the song on Carousel cast albums and the motion picture soundtrack, “You’ll Never Walk Alone” has been recorded by dozens of pop, rock, gospel, country western, and opera stars.

  “You’ll Never Walk Alone” has a unique history in Great Britain where it was adopted as an anthem of the Liverpool Football Club and has, over the decades become a standard at virtually every British soccer stadium. True to the song’s intent, it has also provided inspiration in times of peril, and has served as a potent fundraiser for causes borne out of disaster. In 1985, for instance, a recording of “You’ll Never Walk Alone” featuring British pop and rock stars, was put together to raise funds for victims of the Bradford Stadium Tragedy and did; the song was a Number One single in Britain throughout the summer of 1985, and raised hundreds of thousand of pounds for the cause.

  Með kveðju
  Gunnar Jóhannesson

 21. Matti skrifar:

  Kannist þið ekki við þetta?

  Sem ákafur stuðningsmaður Liverpool kannast ég að sjálfsögðu við þetta lag. Ég kannast líka við það að vera afar upptekinn af því sem er að gerast á vellinum og ég kannast líka við að á leikvanginum myndast mikil múgsefjun.

  En knattspyrna er ekki “trúarbrögð” í sama skilningi og kristni er trúarbrögð. Hvernig finnst ykkur þessi setning annars hljóma?

  Svavar er svo upptekinn af kristni að þetta er farið að minna á trúarbrögð hjá honum!

  Knattspyrna er áhugamál líkt og trú getur flokkast undir áhugamál. Trú er lífsskoðun eins og trúleysi er lífsskoðun. Aftur á móti geta áhugamál ekki öll flokkast undir trú, ekki frekar en að trú jafngildi trúleysi (eða öfugt).

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7792.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar