Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Karl Sigurbjörnsson

Gata þjáninganna

En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu. Jesús sneri sér að þeim og mælti: Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar. Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu. Þá munu menn segja við fjöllin:Hrynjið yfir oss!og við hálsana: Hyljið oss! Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna? Lúk. 23.27-31

Hann staulast áfram, hrasar í hverju spori, stendur skjögrandi á fætur, fellur enn. Hann sem allt vald er gefið á himni og á jörðu liggur nú með andlitið í götunni. Hver mun eftir þetta geta fullyrt að þú stjórnir frá háum trón efst og yst í alheimsgeimi. Hvað sýnir betur að vald þitt er annars konar en það sem við alla jafna kölum vald en einmitt þetta? Eftir þetta getum við ekki sagt þegar á dynur: Guð er ekki hjá Mér! Guð hefur yfirgefið mig. Hann haggast ekki í hásæti sínu þótt ég hrópi, þótt ég kveini.

Og Jesús rís enn á fætur.

Konurnar gráta og kveðina þegar þær sjá þessi ósköp að hann sem huggaði, læknaði, reisti á fætur, hann bugast nú, hrasar, dettur.

Leiðin er svo löng og þjáningin svo takmarkalaus. Allt það ber hann og dettur einu sinni enn.

Mannfjöldinn þrengir sér að. Þó er hann einn. Þessa leið gengur hann einn. Og hann heldur áfram gegnum skuggalendur sorgarinnar, kvíða og þjáningar, gjörgæsludeildir, langlegudeildir, fangelsi og meðferðarstofnanir, hús og heimili götur og torg um dauðans nótt og dinmmar grafir alla leið - fyrir mig. Fyrir þig.

Ég veit nú að ýmislegt það sem á dynur, missir, einsemd, sársauki, sorg, það ber merki þess að EINN hefur gengið þá braut og þekkir allt og signir allt og í ljósi þess þá lýkst upp dulin merking þess alls, saman safnað, tár og hlátrar, yndi önn, inn í faðm Guðs, umvafið elsku hans.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Gata þjáninganna”

 1. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

  Takk fyrir að íhuga með okkur um “Götu þjáninganna” hr. Karl. Í dymbilviku á það sérstaklega við að íhuga missi, einsemd, sársauka og sorg.

  Kvölin mætir okkur með sérstökum hætti í þessari viku. Kristnu fólki er nauðsynlegt að minnast þess, því margir ráða ekki við göngu þessarar götu og bugast áður en birtir.

  Aðrir eiga sínar eilífu innri ‘dymbilvikur’og sjá aldrei fram til upprisu.

  Oscar Wilde gengur götu þjáningar og skynjar dulda merkingu slíkrar göngu í “Úr djúpunum”:

  Auður, ánægja og velgengni geta verið auvirðileg og ruddaleg í innsta eðli sínu, en sorgin er viðkvæmari en allt annað. Í allri veröld andans er ekkert, sem stengir sorgarinnar taka ekki undir með hræðilegu og frábærlega næmu bergmáli. Hið örþunna, titirandi gullblað, sem leiðir í ljós ósýnileg öfl fyrir mannlegt auga, er grófgert í samanburði við það.
  Þjáningin, sorgin er sár, sem blæðir úr, ef nokkur hönd snertir það önnur en hönd kærleikans, og jafnvel þá blæðir úr því, en án sársauka.

  Þar sem er sorg, er heilagur staður. Einhverntíma munu menn skilja hvað átt er við með því. Þeir munu alls ekki þekkja lífið fyrr en þeir skilja þetta.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3400.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar