Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Svavar A. Jónsson

Virkjum orðróminn!

Ónefndur embættismaður sagði manni, sem þekkir mann og sá maður þekkir mann sem er kunningi frænda vinar míns og þannig bárust mér skilaboðin frá þeim ágæta vini, að nú ætti maður að fjárfesta í fasteign á Húsavík. Þetta var nokkru áður en tilkynnt var formlega að kanna ætti nánar forsendur þess að reisa álver í nánd þess bæjar, en eins og kunngt er stóð valið á milli Húsavíkur, Eyjafjarðar og Skagafjarðar.

Ég viðurkenni fúslega að um mig fór örlítill gullgrafarafiðringur og nefndi ég þetta því í fúlustu alvöru við kollega minn. Okkur bar saman um að óheppni okkar í fjármálum væri svo stórfengleg að áform alþjóðlegra stórfyrirtækja væru hismi eitt samanborið við hana. Ef við keyptum hús á Húsavík yrði Skagafjörður ábyggilega fyrir valinu og værum við svo útsmognir að treysta eigin ólukku með því að skella okkur á íbúð í Skagafirði, þvert á allar spár, yrði álveri ábyggilega valinn staður á Dysnesi við Eyjafjörð. Ekki langt þar frá eigum við á hinn bóginn báðir húskofa og eigum fullt í fangi með að borga af honum, svo við töldum vænlegast að láta kyrrt liggja og aðhafast ei.
Þannig eru eyfirsk búhyggindi.

Mér er tjáð að ákvörðunin um að kanna nánar forsendur þess að reisa álver á Bakka við Húsavík muni hækka verð á fasteignum þar eystra. Þetta vita svonefndir spákaupmenn. Þó er í raun ekki búið að taka neinar miklar ákvarðanir. Það á að skoða málin. Ef fýsilegt reynist gætu framkvæmdir hafist árið 2010 og álbræðsla Guð má vita hvenær. Samt þarf ekki meira til að hleypa upp fermetraverði húsvískra fasteigna. Það á líka að byggja við hótelið þar, bora göng gegnum Vaðlaheiðina og lengja flugbrautina á Akureyri, svo nokkuð sé nefnt. Vegna einhvers sem er hugsanlega mögulegt.

Trúlega er orðrómurinn vanmetið fyrirbæri. Karl Einfer nefnist maður í smásögunni „Völsupá á hebresku” eftir Halldór Laxness. Karl er eiginlega án þjóðernis, ef til vill alþjóðlegur Íslendingur. Ætli hann teldist ekki í útrásinni núna? Spákaupmaður og skáld, sem orti á dönsku til að kenna dönskum skáldum að yrkja en á frönsku sér til skemmtunar. Karl Einfer tók að sér að liðsinna færeyskum barnakennara, Jeggvani nokkrum frá Trangisvogi. Sá hafði flækt sig í skuldir í Kaupmannahöfn. Kom Einfer því á loft að Jeggvan væri við það að fá Nóbelsverðlaunin. Þóttu þau tíðindi allnokkur. Blaðamenn voru gerðir út af örkinni og sendir til Færeyja þar sem Jeggvan hafði kvæði sín í þúsundavís í kistum uppi á lofti hjá sér. „Jeggvan var spurður hvernig hann hugsaði til Nóbelsverðlaunanna og hann sagði vel, og hvað hann ætlaði að gera við þau og hann sagði að þau mundu „renna inní húsholnínguna”, en það þótti mörgum fyllirafti á Norðurlöndum miðlungi skáldlegt svar. Síðan leið framá haustið og Nóbelsverðlaunum var úthlutað – einhverjum miklu verri manni. Og frægð Jeggvans sem fékk ekki Nóbelsverðlaunin féll í gleymsku og dá eingu síður en frægð þess manns sem fékk þau,” segir í sögunni.

En áður en það kom í ljós hafði orðrómurinn verið virkjaður. Karl Einfer sannfærði peningamenn í Danaveldi um að maður sem ætti von á Nóbelsverðlaunum mætti ekki hafa smáskuldir og hjálpaði Jeggvani að taka eitt stórt lán til greiðslu hinna smærri.

Og nú verða Norðlendingar að snúa saman bökum. Jafnvel þótt ekkert verði af álveri og hvorki verði virkjuð straumvötn né beisluð gufuorka er ekki hægt að láta þá auðlind renna ónýtta til sjávar, sem orðrómurinn er.

Það er gömul saga og ný að að hlutirnir þurfa ekkert að gerast til að gerast.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Virkjum orðróminn!”

  1. Irma Sjöfn Óskarsdóttir skrifar:

    Þetta er aldeilis góður pistill ..skemmtilegur..fá orð en samt mörg

  2. Í dagsins iðu » Orðrómsvirkjanir skrifar:

    […] Svavar Alfreð skrifar hnyttinn pistil á trú.is um virkjunaráhrif orðrómsins. Þau eru býsna mögnuð og má m.a. sjá í húsnæðisverði: Mér er tjáð að ákvörðunin um að kanna nánar forsendur þess að reisa álver á Bakka við Húsavík muni hækka verð á fasteignum þar eystra. Þetta vita svonefndir spákaupmenn. Þó er í raun ekki búið að taka neinar miklar ákvarðanir. Það á að skoða málin. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3995.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar