Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hörður Áskelsson

Syngjandi kirkja

Tilgangur Tónlistarstefnu þjóðkirkjunnar, sem samþykkt var á Kirkjuþingi haustið 2004, er að skýra fyrir þeim sem koma að tónlistarstarfi við íslensku þjóðkirkjuna grundvöllinn sem tónlist kirkjunnar stendur á. Tónlistarstefnan gerir grein fyrir eðli tónlistar kirkjunnar, fyrir hlutverki hennar, fyrir tónlistarflutningi í helgihaldi og þeim áherslum sem kirkjan leggur í sambandi við hann. Með tónlistarstefnunni hafa organistar, prestar og aðrir sem bera ábyrgð á tónlistarflutningi í kirkjum leiðbeinandi reglur um flest er varðar tónlistarflutninginn.

Inntak tónlistarstefnunnar skiptist í tvennt, annars vegar kirkjusönginn og hins vegar fræðsluna. Með því að nota hugtakið “kirkjusöngur” í víðari skilningi um tónlist kirkjunnar er vísvitandi verið að undirstrika mikilvægi söngsins í helgihaldi, sem að sjálfsögðu miðast við flutning Orðsins í tónum. Segja má að hljóðfæratónlist við helgihald falli hér undir hugtakið “kirkjusöngur”, þar sem hún er í því samhengi þjónandi sem umgjörð um það sem fram er borið, orð og sakramenti. Organistinn sem leiðir söfnuðinn með hjálp orgels og/eða kirkjukórs er kirkjusöngstjóri, líka þegar hann leikur forspilið eða eftirspilið, sem rammar inn athöfnina. Sú hefð hefur skapast víða að nefna organista kirkjunnar kantora, sem vísar til þess mikilvæga inntaks í eðli starfsins að vera forsöngvari.

Fræðsluþáttur tónlistarstefnunnar skal þjóna kirkjusöngþættinum, öll fræðsla skal miða að því að stuðla að farsælli og árangursríkri framkvæmd kirkjusöngsins. Kirkjan rekur sérstakan tónlistarskóla, Tónskóla þjóðkirkjunnar, sem á að sjá kirkjunni fyrir menntuðum organistum og standa fyrir námskeiðum á sviði kirkjusöngs. Fræðslusvið Biskupsstofu og tónlistarsvið Skálholtsskóla bjóða upp á möguleika að sinna þessum þætti einnig. Útgáfufyrirtæki kirkjunnar Skálholtsútgáfan gefur út fræðsluefni, sem nýta skal í þágu tónlistarstefnunnar.

Kirkjutónlistarstefnan leggur mikla áherslu á almennan safnaðarsöng, á þátttöku kirkjugesta í söngnum, ekki bara við messur heldur og við útfarir, hjónavígslur, skírnir og fermingar. Þessi afgerandi áhersla gefur ástæðu til að álykta að hér sé þörf á sérstöku átaki, að þátttöku almennings í söng við helgihald hjá íslensku þjóðkirkjunni við upphaf 21. aldar sé ábótavant. Samanburður á þátttöku almennings í söng við helgihald meðal nágrannaþjóða þykir sýna að Íslendingar séu eftirbátar þeirra hvað þetta snertir.

Í október á s.l. ári skipaði Biskup Íslands undirritaðan söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, “til þess að hafa umsjón með kirkjutónlistinni”,eins og stendur í Tónlistarstefnu þjóðkirkjunnar. Forgangsverkefni mitt í embætti er að stuðla að uppbyggingu sönglífs í söfnuðum landsins með höfuðáherslu á virkni almennings í kirkjusöngnum. Í því skyni hef ég sett á laggirnar starfshópa í sjö efnisflokkum kirkjutónlistar, sem öllum er ætlað að kalla fram tónlistarefni, bæði nýtt og gamalt, sem allt hafi það markmið að örva virkni þeirra sem taka þátt í helgihaldi á öllum æviskeiðum. Verkefni starfshópanna tengjast barna- og æskulýðsstarfi, messu- og sálmasöng, kórsöng og orgelleik. Í starfshópunum eru starfandi organistar og prestar, barnakórstjórar og fólk úr röðum æskulýðsstarfs kirkjunnar. Stefnt er að því framleiða efni fyrir þau svið sem hóparnir tengjast. Af samtölum mínum við organista, presta og kórfólk á undanförnum mánuðum má ætla að framundan séu spennandi tímar í sönglífi safnaðanna. Þessir aðilar virðast almennt sammála um að áherslur tónlistarstefnunnar frá 2004 endurspegli þörf fyrir tímabæra vakningu á sviði kirkjusöngsins. Komið hefur fram tillaga um einkunnarorð fyrir þessa vakningu: Þjóðkirkja Íslands – syngjandi kirkja.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Syngjandi kirkja”

  1. Árni Svanur skrifar:

    Það verður spennandi að fylgjast með framþróun þessa mikilvæga starfs og gott að vita af því í góðum höndum.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3400.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar